2.3.2009 | 19:30
Hvaða fyrirtækjum á að bjarga?
Fyrirsjáanlegt er að mörg fyrirtæki munu verða gjaldþrota ef þeim er ekki komið til bjargar. Framsókn hefur komið með tillögu sem vekur spurningar, en líka fleiri hugmyndir.
Neðst í tillöguskjali Framsóknar stendur þetta:
"Það sama á við um fyrirtæki og heimili. Raunhæfasta og sanngjarnasta leiðin er sú að eitt sé látið yfir alla ganga. Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki. Fyrirtæki sem er mjög illa statt fjárhagslega verður líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda voru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir. Fyrir sæmilega statt fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar. Þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins."
Þarna er lagt til að skuldir allra fyrirtækja (við ríkisbankana) séu lækkaðar um sömu prósentu, óháð því hvort þau eru vel eða illa stödd. Ekki kemur fram hve háar upphæðir er um að ræða alls eða í hverjum flokki, en þær hljóta að vera verulegar.
Er skuldsetning sanngjarnt viðmið þegar á reynir?
Ef aðeins ætti að aðstoða gjaldþrota fyrirtæki væri eðlilegt að miða við skuldastöðu, en fyrst hugmyndin er sú að liðsinna öllum fyrirtækjum getur falist hrein mismunun í því að miða eingöngu við skuldir.
Taka má dæmi um tvö fyrirtæki í samkeppni, annað er lítið skuldsett enda ávallt verið rekið af hagsýni en keppinauturinn er afar skuldsettur og tvísýnt um afdrif hans. Skuldsetta fyrirtækið fær tugmilljóna niðurgreiðslur en hið vel rekna fær aðeins örfáar milljónir.
Er það þjóðinni í hag að efla illa rekin fyrirtæki meir en hin betur reknu?
Hver eru markmiðin með björgunaraðgerðum?
Markmið Framsóknar eru án efa að koma í veg fyrir að góð fyrirtæki fari í gjaldþrot með tilheyrandi atvinnuleysi. Grípa þarf til skjótvirkra aðgerða til að bjarga málum svo fyrirtækin fái ráðrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Aðferðin má ekki vera of flókin. Varast ber óskýrar úthlutunarreglur sem geta leitt til spillingar eða grunsemda um spillingu. Kannski má ná þessu fram með því að þróa hugmyndina aðeins lengra. Markmiðin gætu t.d. verið:
- Hjálpa þeim fyrirtækjum sem hafa flesta í vinnu.
- Hjálpa þeim fyrirtækjum sem greitt hafa mesta skatta gegnum tíðina.
- Hjálpa fyrirtækjum sem eru í greiðsluvanda.
- Hjálpa fyrirtækjum sem geta sýnt fram á góða möguleika í framtíðinni.
Þetta eru bara tillögur, endilega koma með fleiri.
Hugmynd að nánari útfærslu
Einföldun er mjög æskileg. Albert Einstein sagði "Alla hluti ætti að einfalda eins mikið og hægt er, en þó ekki meira." Það virðist of mikil einföldun fólgin í því að miða eingöngu við skuldsetningu. Aðgerðin verður mjög dýr og réttlætanlegt að leggja töluverða vinnu í hana.
Ég legg til að sett verði upp einfalt en skilvirkt matskerfi sem gerir kleift að gefa fyrirtæki einkunn eftir því hversu vel það mætir skilgreindum markmiðum björgunaraðgerðanna. Síðan sækja fyrirtæki um, eru metin og fá í flestum tilfellum skjóta afgreiðslu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2009 | 00:44
Er 20% niðurfærsla skulda góð?
Framsókn á lof skilið fyrir að koma fram með tillögur að aðgerðum til að leysa fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja. Í tillöguskjalinu eru ýmsar frumlegar hugmyndir sem flestar virðast til bóta.
Tillagan um 20% niðurfærslu allra húsnæðislána vekur þó upp efasemdir. En í henni segir m.a.:
Öll húsnæðislán verða færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varð eða verður á lánasöfnum við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna e.t.v. 50%). Íbúðalánasjóður veitir svo flata 20% skuldaniðurfellingu vegna allra húsnæðislána. Þetta er gert til að tryggja jafnræði milli þeirra sem voru með húsnæðislán hjá bönkunum og hjá Íbúðalánasjóði.
Framsóknarmenn nefna reyndar einn galla við þessa aðferð og segja:
Það gæti þótt gagnrýni vert að þeir sem tóku óhóflega há lán skuli með þessari aðferð fá umtalsvert meiri niðurfellingu en þeir sem tóku lægri lán. Sá sem tók 10 milljón króna lán í erlendri mynt en skuldar nú 20 milljónir fengi þannig 4 milljón kr. niðurfellingu en sá sem tók 100 milljón króna lán sem nú stendur í 200 milljónum fengi 40 milljón króna niðurfellingu.
Framsóknarmenn telja þetta þolanlegan galla þegar tekið er tillit til kostanna við þessa leið.
En varla eru allir skuldsettir í nauðum?
Þótt flestir skuldi nú meira af húsum sínum en þeir gerðu fyrir kreppu er ekki sjálfgefið að þeir séu fátækir eða þurfi hjálpar við. Margir eignamenn tóku út lán á hús sín þótt þeir þyrftu ekki á þeim að halda. Þeir eru kannski ekki eins ríkir og þeir voru, en þeir eru margir sem geta staðið í skilum.
Vonandi hafa sumir átt eignir í erlendum myntum sem hafa aukist í krónum talið um leið og lánin með veikingu krónunnar. Þeim er borgið og þurfa ekki afskriftir.
Er gott að skattleggja almenning til að hjálpa ríkum?
Líklega vilja framsóknarmenn alls ekki leggja slíkt til, en sú yrði því miður útkoman ef þessi 20% niðurfærsluleið er farin. Því ef skuldir þeirra sem eru nógu ríkir til að standa í skilum sjálfir eru færðar niður þá eru það aukin útgjöld fyrir ríkið. Auknum útgjöldum þarf að mæta með auknum sköttum á allan almenning.
Hvað er þá til ráða?
Það er bæði nauðsynlegt og mögulegt að greina á milli þeirra sem þurfa nauðsynlega á niðurfærslu að halda og hinna sem geta bjargað sér sjálfir.
Setja mætti fram einfaldar matsreglur og virkja t.d. starfsfólk bankanna í að framkvæma greiðslumat fyrir þá sem óska eftir aðstoð. Það þarf að vera grundvallarregla að menn séu raunverulega hjálpar þurfi.
Annars vil ég aftur taka fram að tillögur framsóknarmanna eru gott innlegg sem þeir þróa vonandi áfram.