Norska krónan - Kostir og gallar

norska kronanSteingrímur J. Sigfússon hefur verið talsmaður þess að Ísland leiti til Norðmanna um myntsamstarf. Hvað ef Norðmenn væru til í þetta? Hverjir væru kostir og gallar. Á norska krónan framtíð?

Nógu stór?

Þótt norska krónan sé smámynt miðað við evru og dollar er hún samt 25 sinnum stærri en íslenska krónan. (Miðað við verga landsframleiðslu). Seðlabanki Noregs virðist vera starfi sínu vaxinn og það skiptir ef til vill meira máli en stærð gjaldmiðilsins.

Í takt?

Það er margt skylt með Íslandi og Noregi. Mikil haf- og landsvæði, einkum miðað við íbúatölu, fengsæl fiskimið, umframorka og orku- útflutningur, lagaumhverfi EES, þjóðartekjur á mann með því hæsta sem þekkist og hátt mennta og atvinnustig og pólitík. Þessi lönd eru á ýmsan hátt ólík Evrópu sem hefur barist við viðvarandi hátt atvinnuleysi, á fremur lítil haf- og landsvæði á íbúa og þarf að flytja inn mest af sinni orku.

Hagkerfi Noregs og Íslands eru að mörgu leyti í takt sem er kostur. Það skyggir aðeins á að Noregur flytur út olíu og verðsveiflur á olíumarkaði geta haft áhrif á gengi norsku krónunnar.

Á heildina litið finnst mér líklegra að Ísland verði oftar í takt við Noreg en Evrópu. Einnig gætu Íslendingar haft meiri áhrif á ákvarðanatöku í myntsamstarfi við Noreg en Evrópu ef mikið lægi við.

Framtíðarlausn? 

Það hafa ekki komið fram rök gegn því að myntsamstarf við Noreg geti verið langtímalausn fyrir Ísland. Viðskiptaráðherra hefur að vísu látið þá skoðun í ljós að hann telji ekki framtíð í slíku samstarfi, en ekki fært nánari rök fyrir þeirri skoðun opinberlega.

Hafa Norðmenn hag af samstarfi?

Norðmenn væru að taka vissa áhættu en þó ekki mikla, þar sem Ísland væri ekki nema 4% viðbót. Þeir þyrftu að hafa okkur með í ráðum og kosta ýmsu til við lagagerð og breytingar. 

Norðmenn gætu hinsvegar viljað hafa Ísland áfram með sér í EES. Núna er raunveruleg hætta á að Ísland gangi í skyndingu og allt of veikt til samninga við Evrópusambandið. Það myndi ekki þjóna hagsmunum Noregs. Samningsstaða Noregs við Evrópusambandið yrði verri. Ekki bara vegna þess að samningar við Ísland væru slæmt fordæmi heldur einnig vegna þess að fiskimið, auðlindir og lögsaga Íslands væru innan bandalagsins.

Samanburður við aðrar lausnir

Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli. Vegna skyldleika hagkerfa gæti myntsamstarf við Noreg verið betri langtímalausn en Evra.

Niðurstaða?

Ef Norðmenn bjóða okkur til myntsamstarfs þá held ég að við ættum að þiggja það.

 


Bloggfærslur 4. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband