28.8.2009 | 13:16
Inngrip: Seðlabankinn spreðar varasjóðnum
![]() |
Gengi krónunnar styrkist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
27.8.2009 | 13:55
Ávarpið á Austurvelli

Hávaðinn á Austurvelli var ótrúlegur! Hér er ávarpið sem flutt var á undan niðurtalningunni. Bestu þakkir til allra sem komu og höfðu hátt!
"Bara örfá orð áður en niðurtalningin hefst. Í dag hófust á Alþingi umræður um Icesave frumvarpið en það er vilji ríkisstjórnarinnar að gera þann ósóma að lögum síðar í dag. Því verður að mótmæla.
Frá því þessi afleiti Icesave samningur var kynntur þjóðinni í byrjun sumars hafa stöðugt komið fram nýjar upplýsingar og sérfræðiálit, og allt hallar það í eina átt:
Samningurinn er afleitur fyrir Ísland, skaðlegur íslenskum hagsmunum og síðast en ekki síst óréttlátur fyrir íslenskan almenning.
Enda blasa staðreyndir málsins við: Það finnast engin lög sem segja að þjóðin eigi að axla skuldir einkabanka.
Dómstólar hafa líka sagt sitt álit: Sjálfur Evrópudómstólinn felldi dóm árið 2002 í máli númer 222 og sagði þar að það væri beinlínis bannað að ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
Þingmenn mega ekki láta hræðsluáróður eða hótanir slæva dómgreind sína.
Alþjóðasamfélagið mun ekki útskúfa nokkurt ríki þótt það deili við Bretland eða Holland um peninga. Þó það nú væri.
Stuðningur alþjóðasamfélagsins við málstað Íslands fer stöðugt vaxandi eins og ritstjórnargreinar erlendra stórblaða bera vitni um.
Stjórnvöld hafa samt allt of lítið gert til þess að halda fram málstað Íslands erlendis. Orkan hefur farið í að karpa um fyrirvara og pína þingmenn til samstöðu um ónýtan samning.
En það er ekki of seint að hafna þessum samningi og gera betri samning.
Þingmenn verða að taka slaginn fyrir Ísland og fella þetta frumvarp!
Nýleg Gallup könnun staðfestir að stór meirihluti þjóðarinnar er á móti þessum samningi. Þjóðin stendur með Íslandi á móti Icesave samningnum.
Verkefnið á Íslandi á næstu árum er að byggja upp en það verður miklu, miklu erfiðara ef alþingi samþykkir að leggja 700 til 1000 milljarða skuld á þjóðina ofan á allt annað. Skuld sem við erum ekki í ábyrgð fyrir og samþykktum aldrei.
Að lokum. Markmiðið með þessum mótmælum hér í dag - sem verða mjög hávær - er að andmæla því óréttlæti að þjóðin sé látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra.
Þjóðin er búin að taka nóg á sig í þessu hruni.
Svo virðist sem of margir þingmenn hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessu mikilvæga máli.
Við þurfum að vekja þá! Vekja þá og hvetja til dáða fyrir land sitt og þjóð.
Nú skulum við telja niður saman og vekja þingmenn með ... Hávaða á Austurvelli !!!
Tíu! Níu! Átta! ..."
![]() |
Hávaði gegn Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.8.2009 | 00:26
Þú getur unnið þér inn 1-2 milljónir með hávaða!
Þetta verður í allra mesta lagi hálftíma púl en tímakaupið gæti orðið miklu hærra en hjá nokkrum útrásarvíkingi - ef þú stendur þig vel.
Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á Austurvöll (eða í miðbæinn í þínum bæ) á fimmtudaginn kl. 12:00 og taka þar þátt í því að gera eins mikinn hávaða og þú mögulega getur. Bara í c.a. 20 mínútur. Þetta verður stuð! Taktu vinina með og næstu lúðrasveit. Vegleg verðlaun fyrir mesta hávaðann.
Ef þú kemst ekki á Austurvöll getur þú samt tekið þátt með því að gera sem mestan hávaða hvar sem þú ert. Gott er að þeyta bílflautu ef hún er við höndina, hækka græjurnar í botn og opna út á götu, berja potta úti á svölum, blása í lúður eða stappa og öskra. Fáðu alla í lið með þér, því fleiri því meira gaman og þetta verður holl og góð útrás fyrir sálartetrið.
Markmiðið með þessum gríðarlega hávaða er að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra. Nóg erum við búin að þola samt. Enda er stríðir það líka gegn öllum lögum og siðgæði að láta okkur borga. Á það hafa margir bent bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þjóðin á ekki að láta slíkt óréttlæti yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust!
Ef nógu margir mótmæla nógu hátt þá munu þingmenn okkar sem og Bretar og Hollendingar skilja að þjóðin vill alls ekki samþykkja ICESAVE samninginn. Þá gæti farið svo að þú og allir aðrir Íslendingar skuldi 1-2 milljónum minna en þeir hefðu annars gert.
Bretar og Hollendingar geta ef þeir vilja hirt þessa fjárglæframenn og bankann þeirra en þeir fá aldrei að velta þessum óreiðuskuldum á íslenskan almenning.
En hvað með fyrirvarana - duga þeir ekki? Nei - Þeir snúast því miður aðeins um lægri greiðslur (frestun) ef illa gengur í efnahagslífinu. Vextir halda samt sem áður áfram að tikka á eftirstöðvunum. Það er enginn fyrirvari sem segir að skuldin falli niður - aðeins óljóst orðalag um að aðilar skuli "ræða málið" árið 2024 ef skuldin er þá ekki uppgreidd.
Allir með í HÁVAÐANUM MIKLA!
25.8.2009 | 00:19
11 ástæður fyrir þingmenn til að hafna ICESAVE
Hér eru tíundaðar nokkrar af fjölmörgum ástæðum fyrir alla þingmenn til að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave samninginn.
1. Það er ekki lagaskylda að veita ríkisábyrgð
Tryggingasjóður er sjálfseignarstofnun og það stendur hvergi í lögum að hún skuli hafa ríkistryggingu. Íslensku lögin um tryggingasjóð innistæðna voru innleidd á Íslandi skv. tilskipun Evrópusambandsins og þeim framfylgt eins og átti að gera. Æðsti dómstóll sambandsins, Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dómi 222 árið 2002 að ekki megi ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
2. Það er ekki siðferðileg skylda þjóðarinnar að axla skuldir einkabanka
Íslenskur almenningur var síst af öllum einhver gerandi í útrás og hruni Landsbankans. Eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig ekki en það á líka við um eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Hollandi.
Skattar af innistæðum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi runnu til þessara landa. Innistæðurnar voru fjárfestar að mestu í Breskum og Hollenskum fyrirtækjum.
Innistæðueigendur voru ekki grunlausir, þeir máttu vita að háum vöxtum fylgir alltaf meiri áhætta.
Bresk stjórnvöld sköpuðu Landsbankanum (og Íslensku þjóðinni) gríðarlegt tjón með setningu hryðjuverkalaga.
3. Hótanir eru ótrúverðugar enda höfum við ekki brotið nein lög
Bretar og Hollendingar eiga ekki að komast upp með að kúga okkur með hótunum einum saman. Það er allt of ódýr sigur. Látum þá standa við hótanirnar og sjáum hvort alþjóðasamfélagið styður í raun ólögmæta kúgun á smáþjóð.
Kynnum málstað okkar, fjölmiðlar heimsins munu hafa mikinn áhuga á honum.
4. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Mikið er gert úr því að fjármálaráðherrann sé þegar búinn að undirrita samninginn. Íslensk stjórnvöld verði því ómerk orða sinna ef Alþingi samþykkir ekki ríkisábyrgðina. Þetta er auðvitað rangt. Viðsemjendur okkar gera sér einmitt fulla grein fyrir því að samningurinn tekur ekki gildi án samþykkis Alþingis.
Fjármálaráðherra getur ef hann telur þörf á beðið viðsemjendur og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sagt af sér. Það er ekki of seint.
5. Við getum ekki fengið verri samning þótt við semjum upp á nýtt
Fjölmargir lögfræðingar og ráðgjafar, bæði innlendir og erlendir, hafa fært vönduð rök fyrir því að Icesave lánasamningurinn sé meingallaður og óþarflega ósanngjarn í garð Íslands. Það sé mjög nauðsynlegt að semja upp á nýtt og lítil hætta á að útkoman yrði verri en sú sem nú liggur fyrir.
6. Fyrirvararnir eru haldlausir við borgum samt
Sú leið hefur verið reynd að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Það hefur verið stórundarlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana berjast af heift gegn því að settir séu fyrirvarar sem eitthvað bit er í. Maður hefði haldið að það væri hlutverk Breta og Hollendinga.
Fyrirvarar við ábyrgðina breyta því miður ekki samningnum sjálfum sem er jafn meingallaður eftir sem áður. Samningurinn bannar einmitt alla fyrirvara við ábyrgðina og nú er talinn vafi á að þeir haldi fyrir breskum dómstólum.
Jafnvel þótt fyrirvararnir haldi þá má ekki gleyma því að við munum borga megnið af fjárhæðinni þrátt fyrir að okkur beri engin skylda til þess samanber lið 1.
Fyrirvörunum hefur verið lýst sem "tærri snilld" en fyrirvarinn um að ekki skuli greitt nema hagvöxtur sé góður tekur alls ekki á þeim möguleika að hér getur orðið góður hagvöxtur án þess að hér sé nokkur afgangur af viðskiptum við útlönd. Þá munum við ekki eiga gjaldeyri til að greiða af samningnum. Krónan mun falla.
Ekki er heldur skýrt hvað verður um eftirstöðvar lánsins árið 2024. Svo er eitthvað haldlaust orðagjálfur um að aðilar skuli ræða saman ef kemur í ljós að ekki var skylt að ríkistryggja tryggingasjóð innistæðna.
Þingmenn eru að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að Bretar og Hollendingar muni láta hundruð milljarða af hendi til Íslands í teboði. Fyrirvarar verða að vera skýrir annars eru þeir marklausir.
7. Við getum ekki borgað
Fyrst hélt ríkisstjórnin því fram að skuldbindingin yrði í versta falli 30-100 milljarðar. Síðan hefur komið í ljós að líklega gæti talan orðið allt að 1000 milljarðar með vöxtum. Ríkisstjórnin situr samt föst við sinn keip, þjóðin skal borga skuldir Landsbankans.
Skuldabyrði þjóðarinnar er mjög mikil nú þegar, en verði Icesave bætt við þá eru þetta orðnar drápsklyfjar sem þjóðin mun ekki rísa undir. Landið verður þá skuldaþræll. Allur arður af auðlindunum mun renna til erlendra lánadrottna, Breta og Hollendinga um ókomin ár. Þær þjóðir eru reyndar ekki óvanar því að halda nýlendur.
8. Krónan mun veikjast, lánakjör versna og fjárfestar forðast landið
Eftir því sem líkur hafa aukist á því að Icesave skuldin verði samþykkt því meira hefur krónan veikst. Ástæðan er sú að ríkið mun þurfa að selja 1000 milljarða af krónum til að kaupa erlendan gjaldeyri. Þetta er ótrúleg fjárhæð og þetta mun draga úr styrk krónunnar í mörg ár eða áratugi. Afleiðingin er sú að erlend lán íslenskra fyrirtækja og einstaklinga munu haldast mun hærri en ella til langframa. Tjónið af því mun verða talið í amk hundruðum milljarða.
Lánakjör ríkisins munu að sjálfsögðu versna þegar Icesave skuldin bætist við. Lánshæfi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar mun versna líka enda geta þau ekki verið metin traustari en ríkissjóður.
Efnahagsbati og styrking krónunnar mun því verða hægari og landið verða minna áhugavert fyrir fjárfesta ef Icesave er samþykkt. Þeir munu leita annað.
9. Hærri skattar munu fæla burt gott fólk og fyrirtæki
Verði Icesave samþykkt mun ríkið þurfa að draga meira úr útgjöldum og þjónustu en leggja meiri skatta á fyrirtæki og einstaklinga en annars. Þau fyrirtæki sem geta munu færa sig úr landi, fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi munu stýra hagnaði sínum til landa þar sem skattar eru lægri.
Eignafólk og hálaunafólk mun verða að greiða verulega hærri skatta en ella hefði verið. Ríkt fólk og fólk í hálaunastörfum á auðveldast með að flytjast til annarra landa. Þótt aðeins 5% þjóðarinnar færu úr landi þá er hætt við að 15- 20% af skatttekjum Ríkisins myndu hverfa með þeim.
Hugsanlega er Íslandi mun meiri hætta búin af fólksflótta vegna Icesave en af þeim aðgerðum sem Bretar og Hollendingar haft í hótunum með.
10. Þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, með eða án fyrirvara, verða ábyrgir
Ríkisstjórnin lætur að því liggja að þetta sé allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna og nú sé of seint að gera eitt eða neitt í málinu. Það er ekki of seint. Samningurinn tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgðina, þetta vita Bretar og Hollendingar.
Það er varla hyggilegt fyrir nokkurn þingmann að leggja slíkar drápsklyfjar á þjóð sína án þess að sýnt hafi verið mjög rækilega fram á með óyggjandi hætti að hin leiðin sé mun verri. Kannski er skynsamlegt og rétt að spyrja þjóðina álits fyrst.
11. Það ber að kanna hug þjóðarinnar í svona stóru máli
Það hafa komið fram afar sterkar vísbendingar um að meirihluti þjóðarinnar vilji hafna þessum Icesave samningi og þingmenn ættu að sjálfsögðu að taka tillit til þess í svona stóru máli.
Skoðanakönnun Gallup frá því í ágúst sýndi að 68% þjóðarinnar er á móti því að samþykkja ICESAVE samninginn.
Þótt það teljist ekki vísindaleg könnun, þá má geta þess að á Facebook hafa 16.416 notendur skrifað undir áskorun til forsetans um að staðfesta ekki frumvarpið. Þar er líka hópur sem ber yfirskriftina: "Við neitum að greiða skuldir sem við berum ekki ábyrgð á (Icesave málið)" en í hann hafa skráð sig 37.018 einstaklingar, líklega meirihluti þeirra Íslendinga sem nota Facebook.
Þingmenn og einkum þeir sem eru í ríkisstjórn, verða að rifja það upp fyrir hverja þeir eru að vinna. Þeir hafa ekkert umboð frá þjóðinni til að láta hana axla skuldir einkabanka. Þjóðin mun seint fyrirgefa þingmönnum sem bregðast henni í svona stóru máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
24.8.2009 | 18:13
Líkur á ICESAVE aukast og gengið veikist
Því miður eru vaxandi líkur á að stjórnvöld ætli að skrifa undir ríkisábyrgðina. Það þýðir að við þurfum að selja 700 - 1000 milljarða í krónum til að kaupa pund og evrur til að greiða af samningnum. Það er augljóst þetta mun veikja krónuna þar til lánið er uppgreitt, í fyrsta lagi árið 2024.
Þingmenn, þessir fyrirvarar skipta engu máli. Það þarf að hafna Icesave.
PS: Ekki reyna að styrkja krónuna með því að taka lán hjá AGS. Eina leiðin til að styrkja gengið er að forðast erlendar lántökur, efla útflutning og halda innflutningi í lágmarki.
![]() |
Gengi krónunnar veiktist um 0,55% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 11:32
Meiri hræðsluáróðurinn
Verum skynsöm. Það er augljóst að Ísland verður sniðgengið í nokkur ár af þeim sem hafa tapað peningum á að fjárfesta hér - hvort sem við samþykkjum Icesave eða ekki.
Verum skynsöm. Höfnum Icesave annars skuldum við 700 milljörðum meira en áður og það hjálpar ekki að laða að fjárfesta.
![]() |
Fylgst náið með framvindu Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2009 | 10:55
Hörð gagnrýni á Seðlabankann

Ragnar Þórisson ritaði áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans. Háir vextir núna koma beinlínis í veg fyrir styrkingu krónunnar. Greinin í heild:
AÐ PENINGASTEFNUNEFND Seðlabankans hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum í 12% er alveg út í hött enda blæðir íslenskum fyrirtækjum og heimilum á meðan sparifjáreigendur og erlendir jöklabréfaeigendur hlæja og græða á tá og fingri á okkur kostnað.
Þess má geta að Ungverjar, sem eru í meiri klípu en við, lækkuðu sína stýrivexti um 1% þann 27 júlí en þess má geta að AGS er með Ungverja í gíslingu eins og okkur þó þar sé sjóðurinn ekki að handrukka »Icesave« nauðasamning fyrir sína umbjóðendur eins og gert er grímulaust hér á landi.
Þessi peningastefnunefnd Seðlabankans virðist ekki hafa »götugreind« til að skilja það að íslenska krónan mun styrkjast ef stýrivextir verða lækkaðir en þess má geta að slíkt hefur gerst í Tyrklandi síðustu mánuði eftir að Seðlabanki Tyrklands byrjaði að lækka vexti jafnt og þétt og hafa hafa þeir nú lækkað stýrivexti um 8,5% niður í 8,25% á síðustu 8 mánuðum.
Tyrkneska líran hefur styrkst í gegnum þetta vaxtalækkunarferli. Því miður kemur hvergi fram í kennslubókum fyrir hagfræðinga að ef bankakerfi og hagkerfi hrynur samtímis, hindrar hávaxtastefna nauðsynlegan hagvöxt þar sem slík stefna fyrirbyggir fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu.Þetta er staðreynd sem fjárfestar skilja vel og halda að sér höndum og því erum við komin í vítahring í umboði manna sem treysta því að meira af því sama sem kom gjaldmiðlinum í þrot muni ná honum aftur á flot.
Til þess að laða að nýja erlenda fjárfesta þá þarf að skapa grundvöll til fjárfestinga og fyrir lönd sem eru í klípu eins og Ungverjaland, Tyrkland og Ísland skiptir mestu máli að sýna fram á endurreisn efnahagsins og það er á þeim tímapunkti sem allir fjárfestar vilja komast inn, þ.e.a.s. á botninum og í byrjun vaxtalækkunarferlis. Nú þegar Tyrkir lækka vexti þá sýnir það erlendum fjárfestum að þeim sé alvara og hafi þor og þá byrja fjárfestar að koma inn og þá ekki bara til að kaupa ríkisskuldabréf heldur líka hlutabréf í fyrirtækjum og við það styrkist gjaldmiðillinn.
Ein birtingarmynd fáránleikans í hávaxtastefnu Seðlabankans er að nú liggja um 130 milljarðar af innlánum úr viðskiptabönkunum inni á reikningi í Seðlabankanum sem bankinn borgar 9,5% vexti af. Öllum ætti að vera ljóst að þessir peningar liggja dauðir og leiða ekki til verðmætasköpunar heldur leggjast á byrðar skattgreiðenda. Einnig er ljóst að þessir peningar leita td. ekki í fjárfestingar í íslenskum sprotafyrritækjum á meðan ríkistrygging er á þessum huggulegu dekurvöxtum sem, n.b., eru 8 sinnum hærri en í Noregi.
Skilaboð Seðlabanka Íslands til erlendra fjárfesta eru því einföld, hér á ekki að fara í endurreisn og hér ætla menn að dekra við þá fjárfesta sem eru fastir inni í kerfinu eins og jöklabréfaeigendur, sem að sjálfsögðu er algjör firra.
RAGNAR ÞÓRISSON,
12.8.2009 | 11:30
Fincancial Times á móti ICESAVE

Í gær birti breska dagblaðið Financial Times ritstjórnargrein um ICESAVE málið undir fyrirsögninni "In the same boat". Það sem er fréttnæmt er að tónn greinarinnar er allt annar en sá sem Steingrímur J og Jóhanna hafa verið að búist við. Hér er ekki vottur af ásökun eða vantrausti á Ísland, þvert á móti er varað við því að þjóðin sé látin axla þessar byrðar. Financial Times eru hreinlega á móti ICESAVE samningnum.
In the same boat
Published: August 11 2009 22:52 | Last updated: August 11 2009 22:52
When the Dutch and British governments clinched Icelands agreement to reimburse savers in Icesave, the now-defunct overseas branch of Landsbanki, they did not count on the ire of Icelandic voters. The deal, stuck in an Althingi committee, is unlikely to gain the Icelandic parliaments approval.
All sides are playing hardball. Icelands government sees the deal as essential to repair Icelands links with the rest of the world. It worries that economic lifelines from Nordic neighbours and the International Monetary Fund will be undermined by the lack of an agreement with Holland and the UK who refuse to budge.
The £3.3bn Reykjavik agreed to reimburse is a paltry sum for most countries, but it amounts to more than £10,000 for each citizen of the subarctic island. This economic burden about half a years economic output for compensating overseas savers is similar to the cost to the British government of tackling a UK recession less severe than Icelands.Some compare the plan to the Versailles treatys harsh demands of Germany. A better analogy is the 1982 Latin American debt crisis, in which even Chile, poster boy of Chicago School economics, saw the state take over a mountain of private debt. A decade of stagnation followed.
The same could be in store for Iceland.Would that benefit anyone? It would alienate the Icelandic people, already angered by Gordon Browns use of anti-terror laws to freeze Icelandic assets. Icelanders support for the recent application to join the European Union is rapidly cooling. The risk is an Iceland geopolitically adrift with its strategic location and important natural resources. Russia is no doubt paying attention: it was the first to offer Iceland economic assistance.
Moreover, there is a joint interest in bringing to light any murky dealings behind the bank collapse. A less confrontational relationship could foster collaboration on investigation and recovery of assets which Iceland does not have the resources to carry out alone.
There is plenty of blame to go around, beyond latter-day Viking raiders who built brittle financial empires. Icelandic voters repeatedly elected a government bent on unleashing financial liberalisation while letting regulators sleep on duty. But Dutch and UK authorities could have seen that Icesaves high yields were only as safe as Icelands ability to cover deposits.
With more even burden-sharing for clearing up the mess, good neighbourliness may prove to bring more than its own reward.
Heimild: FT.com: http://www.ft.com/cms/s/0/bf7cbbae-86c0-11de-9e8e-00144feabdc0.html?nclick_check=1
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2009 | 00:19
AGS lánin til óþurftar
Þórlindur Kjartansson hagfræðingur vakti athygli á því í vikuni að frekari AGS lán væru gagnslítil. Ég mæli sterklega með grein hans "Ólán í láni" sem birtist á Deiglunni. Hér eru nokkrir punktar úr henni:
1. Ef við tökum það ekki mun erlend skuldastaða ríkisins áfram vera mjög góð í samanburði við önnur lönd, þótt innlend skuldastaða verði verulega slæm.
2. Ef við tökum það þá stendur ekki til að nota það til þess að verja gengi krónunnar, þótt vafasamt sé að treysta stjórnmálamönnum til að standast þá freistingu.
3. Lánaloforðið hefur verið notað til þess að þrýsta á Íslendinga að gangast undir hrikalega ósanngjarna samninga um Icesave skuldbindingarnar og með því að fá ekki lánið ættum við að geta rétt úr bakinu í þeirri deilu.
4. Lánaloforðið hefur haft í för með sér að ekki hefur verið unnt að lækka vexti - og í ofanálag hafa verið sett hér gjaldeyrishöft sem virka eins og fótlóð á hina þreyttu fætur íslensks athafnalífs. Hvernig stuðlar það að "endurreisn íslensks efnahagslífs?" má spyrja.
5. Niðurstaða þess að taka lánin munu líklega verða til þess að með einum eða öðrum hætti (til dæmis með innspýtingu fjár í bankana eða gervi-gengishækkunum) mun stærri hluta kostnaðar af gjaldþroti íslensku einkabankanna verða velt af erlendum áhættufjárfestum og yfir á íslenska skattgreiðendur.
Aðspurðir hafa fleiri hagfræðingar tekið undir sjónarmið Þórlinds.
Eyjan.is leitaði álits Jóns Steinssonar, lektors í hagfræði við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og hafði hann meðal annars þetta að segja:
Ég held að það sé alltof mikið gert úr mikilvægi þess að við byggjum upp stóran gjaldeyrisvaraforða við núverandi aðstæður. Eins og Þórlindur bendir á hafa stjórnvöld þráfaldlega tekið fyrir það að þennan gjaldeyrisvaraforða eigi að nota til þess að styðja við gengi krónunnar. En til hvers er hann þá? Jú, hann skapar ákveðið öryggi varðandi ýmsa erlenda fjámögnun á næstu misserum. En hættan er - eins og Þórlindur bendir á - að stjórnmálamenn og/eða Seðlabankinn freistist til þess að sóa honum í vitleysu eins og stórkostleg gjaldeyrisinngrip til þess að halda í falskt gengi.
Í viðtali við Fréttastofu Stöðvar 2 sagði Jón Daníelsson hagfræðiprófessor við London School of Economics meðal annars þetta:
Ef við setum þetta í samhengi, þá eru þessi lán hærri upphæð en allur Icesave-pakkinn. Ef við höfum ekki efni á að taka Icesave á okkur, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að við höfum ekki heldur efni á að eyða þessum peningum í að styrkja krónuna. Þetta vita allir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum.
Gjaldeyrisvaraforði, sem ekki má eyða, hefur engan tilgang.
Hin hlutlausa fréttastofa RÚV náði greinilega ekki sambandi við Þórlind Kjartansson, Jón Daníelsson né Jón Steinsson vegna málsins en tók hinsvegar viðtal við Vilhjálm Egilsson doktor í hagfræði og framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Spurning RÚV virðist hafa verið sú hvort "gjaldeyrisvarasjóður af þessu tagi sé óþarfur eða hafi ekki tilgang". Vilhjálmur gat auðvitað ekki svarað öðru en að betra væri að hafa stóran gjaldeyrisvarasjóð. Sjá umfjöllun RÚV um málið.
Í tilefni af þessu ritaði Ólafur Arnarson, hagfræðingur og MBA pistil á Pressuna og kemst að eftirfarandi niðurstöðu:
Þess vegna er óhætt að fullyrða að við þurfum ekki að ganga frá Icesave og fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum til að byggja hér upp gjaldeyrisvarasjóð.
Sá sjóður verður vitagagnslaus og mun ekkert gera annað en að ala á falskri öryggistilfinningu þeirra, sem ekki skilja alþjóðlega fjármálamarkaði.
Þetta er allt mjög merkilegt því fram til þessa hefur það verið viðtekinn stóri sannleikur að við þurfum að taka gríðarleg erlend lán frá AGS og víðar til að málin gangi upp.
Reynist það á misskilningi byggt þá kallar það að sjálfsögðu á endurmat á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og það tafarlaust.
Hvernig skyldi ríkisstjórnin bregast við?
8.8.2009 | 13:19
Ósannfærandi hrakspár Steingríms J.
Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í gær (7/8/09) þar sem hann birtir sundurliðaða hrakspá um afdrif Íslands ef ICESAVE samningnum yrði hafnað. Við fyrstu sýn gæti hrakspáin skotið manni skelk í bringu en sé hún skoðuð nánar kemur í ljós að hún er byggð á miklum ólíkindum. Það mætti telja líklegra að Ísland yrði fyrir loftsteini en að spádómur Steingríms rættist lið fyrir lið.
"Samstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum siglir í strand og engin frekari lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann berast þaðan."
AGS hefur lýst því yfir að öll skilyrði fyrir lánum hafi verið uppfyllt en fæst ekki segja að ICESAVE sé eitt af þessum skilyrðum. Samt fullyrðir Steingrímur að ICESAVE sé skilyrði. Hversu líklegt er að ef AGS fæst ekki einu sinni til þess að segja að ICESAVE sé skilyrði, hverjar eru þá líkurnar á því að AGS lánið strandi í raun vegna ICESAVE? Svo er stór spurning hvort okkur er óhætt að taka AGS lánið. (Mæli með þessari grein um það mál)
"Engin gjaldeyrislán berast frá hinum Norðurlöndunum."
Frændur okkar hafa ekki fengist til að viðurkenna nein slík skilyrði. Svíar vilja reyndar alls ekki að þeirra lán gangi til greiðslu á ICESAVE lánum. Færeyingar hafa engin skilyrði sett. Ég er viss um að þegar Norðurlöndin fá að heyra alla málavöxtu þá munu þeir standa gegn því að Íslenskum heimilum verði steypt í skuldir vegna galla í evrópsku regluverki.
"Erlendu kröfuhafarnir samþykkja ekki að koma að endurreisn Kaupþings og Íslandsbanka."
Þetta er bull. Þeir hafa allt að vinna með því að koma að endurreisn bankanna, annars myndu þeir vera löngu búnir að drífa sig burt og gera eitthvað annað. Erlendir kröfuhafar eru ekki góðgerðasamtök. Verði ICESAVE skuldunum bætt á landið mun þeim, eins og öðrum, lítast mun verr á að koma að endurreisn bankanna.
"Alþjóðlegar lánastofnanir og erlendir bankar verða áfram lokuð bók og ný lán eða endurfjármögnun eldri lána er ógerleg."
Það er bara erfitt að fá lán eins og staðan er í heiminum í dag. Hvernig gengur Írlandi og Lettlandi að fá lán þessa dagana? Þeir eru ekki með neitt ICESAVE vandamál, samt fá þeir engin lán, endurfjármögnun er ógerleg. ICESAVE er viðbótarskuldsetning sem bara veikir lánshæfi og lánstraust þjóðarinnar.
"Hætta á að neyðarlögunum frá í október verði hnekkt vex á ný."
Þetta er nú umdeilt atriði og þau rök hafa líka heyrst að samþykkt ICESAVE muni jafnvel auka hættu á að neyðarlögum verði hnekkt. Þessi óvissa verður því ekki leyst með því að samþykkja ICESAVE.
"Mikil neikvæð umræða verður um Íslendinga á nýjan leik sem óábyrga í viðskiptum og aðila sem hlaupi frá skuldbindingum sínum og gefnum fyrirheitum."
Það verður vonandi mikil umræða og við munum þá fá gott tækifæri til að skýra okkar málstað. Þetta verður vonandi fréttnæm milliríkjadeila og lesendur stórblaða munu flestir fallast á að íslenskar fjölskyldur eiga ekki að axla þessar byrðar.
Íslendingar njóta almennt trausts erlendis þótt einhverjir Íslendingar hafi verið óábyrgir. Allar þjóðir eiga óábyrga einstaklinga í sínum röðum. Allar þjóðir eiga stjórnmálamenn sem lofa meiru en þeir geta staðið við. Menn munu því áfram vilja kaupa íslenskan fisk, orku, hugbúnað og selja okkur olíu og matvæli. Þeir gera það vegna þess að það er ábatasamt.
"Trúverðugleiki Íslands, sem hefur byrjað að endurheimtast að undanförnu, fer aftur þverrandi."
Þetta er nú meira ruglið. Hvaða könnun hefur verið gerð í útlöndum um "trúverðugleika Íslands". Hvernig væri að gera slíka könnun? Hvað með það þótt einhverjir pólitíkusar í Bretlandi og Hollandi fari í fýlu?
Við höfum góðan málstað að verja og eigum að verja hann með öllum tiltækum ráðum og aldrei að gefast upp. Slík barátta er trúverðug! Það er engin trúverðugleiki í því að láta valta yfir sig með hótunum.
"Ef deilan opnast upp aftur kann að verða gripið til aðgerða sem geta reynst íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum skeinuhættar."
Hér á Steingrímur líklega við viðskiptahindranir á Ísland. Aðeins Bretar eða Hollendingar myndu hafa frumkvæði að slíkum aðgerðum en það væri þó afar ósennilegt að sú leið væri farin áður en búið væri að reyna dómstólaleið til þrautar.
Viðskiptahindranir eru mjög óvinsælar heima fyrir enda bitna þær á fyrirtækjum í Hollandi og Bretlandi og saklausu fólki á Íslandi. Viðskipti okkar myndu einfaldlega færast frá þessum löndum til annara Evrópuríkja, enda næðist aldrei víðtæk samstaða í Evrópu um viðskiptabann á Ísland.
"Minni líkur á styrkingu gengis, minni líkur á lækkun stýrivaxta, meiri óvissa um þróun lánshæfismats ríkisins og tengdra aðila."
Þetta er einmitt þveröfugt. Heilbrigð skynsemi segir að meiri erlend skuldsetning muni veikja gengið og gera lánshæfismat ríkisins og tengdra aðila verra.
"Endurreisnaráætlun stjórnvalda, stöðugleikasáttmálinn og ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið."
Þetta er allt mjög óljóst og væri gott ef Steingrímur gæti útskýrt nánar hvernig það getur styrkt Endurreisnaráætlun stjórnvalda að leggja hundruð milljarða í erlendum skuldum á þjóðina, sem hún skuldar ekki nú þegar. Stöðugleikasáttmálinn ætti einnig að styrkjast ef ICESAVE er hafnað af sömu sökum. Liðurinn "ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið" hljómar nú bara eins og "business as usual" og vekur lítinn ugg í brjósti hjá þjóðum almennt.
"Aukin svartsýni grípur um sig, uppsögnum starfsfólks og gjaldþrotum fyrirtækja fer fjölgandi og flutningur frá landinu eykst."
Þvert á móti mun aukin bjartsýni grípa um sig ef ICESAVE er hafnað. Það myndi auka trú landsmanna á réttlæti, lægri skatta og draga úr landflótta. Uppsagnir og gjaldþrot fyrirtækja verða ekki umflúin með því að taka ICESAVE lánið. Ég óttast einmitt að ef ICESAVE óréttlætið verður látið ganga yfir þjóðina og skulda- og skattbyrði aukin á óréttlátan hátt þá fer fólk úr landi sem annars hefði verið hér áfram.
"Tekjur ríkis- og sveitarfélaga dragast meira saman en ella hefði orðið."
ICESAVE samningurinn hefur ekki neinar tekjur í för með sér fyrir ríki- og sveitarfélög. Nú, nema Steingrímur sé hér að nefna þá staðreynd að ríkið þarf að hækka skatta á allt og alla til að geta borgað niður ICESAVE lánið. Það myndi jú auka tekjur ríkisins en líka útgjöld. Þá er nú betra að fella þennan ICESAVE samning strax.
----
Ef þetta er nú allt það sem Steingrímur óttaðist mest þá vona ég að hann kynni sér þessa færslu sem fyrst svo hann geti farið að berjast fyrir hagsmunum Íslands af meiri einurð.
Ekkert í hrakspám hans er líklegt til að ganga eftir og ekkert jafn skelfilegt og hann virðist telja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.8.2009 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)