7.8.2009 | 00:05
Gauti B. Eggertsson og ógeðsdrykkurinn ICESAVE

Dr. Gauti, sem er yngri bróðir Dags, varaformanns Samfylkingarinnar kallar Icesave samninginn ógeðsdrykk sem verður að kyngja. Ef það verði ekki gert telur hann að allt fari á versta veg samanber eftirfarandi upptalningu:
EES samningurinn er í húfi og þar með gífurleg útflutningsverðmæti.
Samskipti okkar við norðurlönd.
Allar lánalínur.
Lánshæfnismat íslenska ríkisins, sem hefur bein áhrif á lánshæfni allra íslenskra fyrirtækja.
Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu sem fjármagnar orkuverin að einhverju marki.
Öll fyrirgreiðsla alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Og svo framvegis
Hætt er við algeru frosti í viðskipum okkar við útlönd.
Kannski er eitthvað hægt að klóra eitthvað í bakkann um þennan ömurlega samning -- sem ég játa að mér lýst ömurlega á -- en mér sýnist enginn kostur annar í stöðunni. Það verður að samþykkja hann. Sorrý.Þetta er ógeðsdrykkur sem verður að kyngja.
Hagfræðidoktorinn segir ennfremur að ábyrgð þeirra manna, sem ætli að fella samninginn, sé afskaplega þung og mikil.
Þeir verða að skýra út vegvísana í þeirri háskaför sem við tekur ef samningurinn fellur.
Eitt er víst, Ríkisstjórnin er þá fallinn ef icesave fellur á Alþingi. Ef nokkrir þingmenn VG ætla að fella samninginn, verða þeir að útskýra hvernig hin nýja ríkisstjórn lítur út. Það er á þeirra ábyrgð að mynda starfhæfa ríkisstjórn með Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Borgarhreyfingunni.
Um hvað yrði nýja ríkisstjórnin? Icesave, jú það er væntanlega málið að fella þann samning? Og svo yrði líklega fyrsta verk hinnar nýju ríkisstjórnar að draga til baka umsókn í ESB? Væri það óneitanlega táknrænt um einangrun landsins. Kannski rétt að segja sig úr nato líka og sameinuðu þjóðunum? Taka bjart í sumarhúsum á þetta?
Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?
Það er gagnlegt að skoða þessa ógnvekjandi upptalningu nánar og kanna hversu líklegt sé nú að þetta færi eins og Gauti óttast.
EES samningurinn í húfi?
Hvers vegna? Sá samningur er alls ekki í húfi þótt við höfnum ICESAVE því EES lög hafa ekki verið brotin á nokkurn hátt. Ísland hefur einmitt farið að lögum ESB um tryggingasjóð innistæðna í öllum atriðum. Það er hvergi sagt í þeim lögum að það skuli vera ríkisábyrgð á tryggingasjóði.
Samskipti okkar við Norðurlönd?
Við þurfum að upplýsa frændur okkar á norðurlöndum um það hvers vegna íslenskum heimilum ber ekki að ábyrgjast skuldir einkabanka. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi látið undir höfuð leggjast að halda uppi okkar málstað í þessu máli en það er ekki of seint að bæta úr því. Norðurlandabúar munu ekki taka afstöðu með því að íslenskur almenningur verði beittur órétti.
Allar lánalínur?
Færeyjingar settja engin skilyrði fyrir lánum. Pólverjar ekki heldur. Svíar hafa tekið sérstaklega fram að lánin frá þeim megi alls ekki renna í ICESAVE hítina. AGS mun lána enda er það hagsmunamál allra þeirra sem eiga inni fé á Íslandi.
Lánshæfismat ríkisins og fyrirtækja?
Lánshæfismat mun einmitt versna ef við bætum ICESAVE skuldinni (500-1000 milljarðar) við þessa 2000 milljarða sem við skuldum í erlendum gjaldeyri. Það stangast á við heilbrigða skynsemi að halda öðru fram.
Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu?
Kannski, kannski ekki. Ég hef ekkert heyrt um að þessi batterí setji skilyrði um að Ísland taki á sig ICESAVE.
Öll fyrirgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins?
Nei, sá sjóður hefur aldrei sagt að Ísland þurfi að samþykkja ICESAVE enda væri það óhæfa. Bretar og Hollendingar beita eflaust þrýstingi en það mun ekki duga til lengdar. Ísland hefur uppfyllt ÖLL skilyrði sem AGS hefur sett um fyrirgreiðslu. Við megum ekki gleyma því að AGS er hér til að gæta hagsmuna kröfuhafa og þeir felast í því að lána ríkinu og halda því að verkáætlun AGS.
Hætt er við algeru frosti í viðskiptum við útlönd?
Þetta er með ólíkindum ólíklegt. "Útlönd" munu aldrei setja viðskiptabann á Ísland þótt það eigi í lögfræðilegum ágreiningi við tvö ríki. Það er ekki gripið til slíkra þvingana almennt. Bretland og Holland gætu ákveðið að setja einhverskonar þvinganir á Ísland en það er afskaplega ólíklegt enda á eftir að reyna dómstólaleiðina.
Ríkisstjórnin fellur?
Er þetta slæm afleiðing eða góð? Ég held bara að við gætum ekki fengið verri ríkisstjórn en þá sem hefur látið gæluverkefnið ESB og ógeðsdrykkinn ICESAVE ganga fyrir því að takast á við raunveruleg vandamál.
Draga aftur ESB umsókn og einangra landið?
Þetta er bull. Sviss drógu aftur sína ESB umsókn, eða settu hana í bið fyrir mörgum árum og hafa ekki einangrast mjög mikið frá umheiminum við það. Það er ótrúlega heimskulegt af Doktornum að halda því fram að Ísland muni einangrast við það að draga ESB umsóknina til baka. Hvað þá að stinga upp á því að Ísland gangi úr NATO eða sameinuðu þjóðunum. Lýsir bara rökþroti.
Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?
Harðfiskur, hákarl, slátur og svið er með því besta sem ég fæ og ég óttast ekki að borða meira af þessu í nokkur ár meðan réttmætar skuldir eru greiddar niður.
Að lokum: Ein spurning til Dr. Gauta
Dr Gauti telur ógeðsdrykkinn Icesave greinilega girnilegri en harðfisk en væri hann þá kannski til í að flytja fljótlega heim frá New York og hefja skattgreiðslur á Íslandi með okkur hinum. Skuldirnar eru nægar til skiptana.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
6.8.2009 | 19:58
Fólksflótti: Kemur ICESAVE skriðuni af stað?

Hagfræðistofnun og fleiri hafa vakið athygli á því að hér geti brostið á fólksflótti sem leitt geti til aukins samdráttar og gert ástandið verra til langframa.
Ástæða fólksflóttans er fyrst og fremst erlend skuldastaða þjóðarinnar sem er núna ríflega 2.000 milljarðar króna en hún gæti versnað um allt að 50% með ICESAVE samningnum. Ríkið verður því að auka skattheimtu og draga úr allri þjónustu við borgarana.
Viðbótarskattar vegna erlendra skulda geta hæglega orðið 10 milljónir á mann að meðaltali (Dreifist á mörg ár og 200 þúsund skattborgara). Þeir tekjuhæstu sjá auðvitað fram á að greiða mun hærri tölu kannski margfalt hærri. Skattspörun af því að flytja úr landi verður gríðarleg og freistandi. Þeir tækjuhærri fara líklega fyrstir enda eiga þeir oft auðveldast með að finna störf erlendis vegna góðrar menntunar og reynslu. Þeir sem eiga fyrirtæki munu íhuga að flytja þau til landa þar sem skattar eru lægri.
Þegar fólksflótti brestur á verður til vítahringur
Því fleiri sem fara úr landi því hærri verða skattarnir á þá sem eftir sitja. Þetta verður kannski augljósast þegar maður íhugar hver skattbyrði síðasta íbúans verður. Þetta er vítahringur að verstu gerð sem verður ekki stöðvaður þegar hann fer af stað. ICESAVE samningurinn er miklu meira en nóg til að hrinda skriðunni af stað.
Hótanir Breta og Hollendinga eru bara kusk samanborið við afleiðingar fólksflótta
Nú er talað um að samþykkja ICESAVE samninginn með skilyrðum þótt enn hafi engin lög fundist sem segja að Íslendingar eigi að borga. Hin huglausa ríkisstjórn Íslands vill með þessu forðast að kalla yfir sig ónáð Breta og Hollendinga. En hverjar sem hótanir Breta og Hollendinga eru þá eru þær bara kusk miðað við afleiðingar fólksflótta. Hætta á fólksflótta eykst stórlega ef ICESAVE skuldunum er bætt á íslendinga. ICESAVE er "dropinn" sem fyllir mælinn.
Réttlát reiði vegna ICESAVE magnar upp hættu á fólksflótta
Íslendingar vilja auðvitað standa við allar réttmætar skuldbindingar en sé þeim misboðið með því að leggja á þá skuldir einkafyrirtækis án laga og réttar þá gætu margir réttilega orðið mjög reiðir.
Samkvæmt nýlegri könnun Gallup, sem RÚV sá ekki ástæðu til að fjalla um, eru 68% þjóðarinnar frekar andvíg og mjög andvíg frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ICESAVE. Sjá http://andriki.is/default.asp?art=05082009
Verði ICESAVE samningurinn samþykktur þvert á vilja þjóðarinnar þá mun það vekja megna óánægju og leiða til landflótta hjá mörgum sem annars hefðu kosið að þrauka.
Ef ríkisstjórnin hundsar vilja þjóðarinnar í ICESAVE málinu þá eykst hætta á fólksflótta enn frekar.
Alþingi verður að hafna þessum samningi. Ef þingmenn skortir dug til þess þá eiga þeir alltaf þá leið að leggja málið í hendur þjóðarinnar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.8.2009 | 18:20
Er Steingrímur J genginn til liðs við Breta?
Steingrímur J, fjármálaráðherra gerir í þessu stutta viðtali tilraun til að sópa öllum málsbótum Íslendinga út af borðinu.
Hann tekur ekkert mark á fremstu lögfræðingum Íslands... hvað vita þeir líka um lög?
Í hvaða liði er maðurinn?
![]() |
Svigrúm til að setja skilyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2009 | 00:39
Guðbjartur og Sigmundur ósammála um ICESAVE í Kastljósinu
Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndarmaður sátu fyrir svörum í Kastljósi. Tilefnið var ICESAVE málið og hvort ný samantekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefði einhver áhrif á afstöðu manna.
Guðbjartur sem er kennari að mennt og þingmaður Samfylkingar vildi ekki meina að neitt nýtt eða markvert kæmi fram í áliti Hagfræðistofnunar og hún væri alls ekki gagnrýnin á spá Seðlabankans. Skoðun hans er því áfram sú að "þjóðin geti staðið undir þessu" og "Ekkert sem bendir til að við ráðum ekki við þetta".
Sigmundur sem er viðskiptafræðingur að mennt með doktorsgráðu í skipulagshagfræði og þingmaður Framsóknarflokksins var alveg á öndverðum meiði. Hann taldi skýrsluna innihalda mjög harðorða gagnrýni á spá Seðlabankans um þróun efnahagsmála. Þjóðin ráði ekki við að greiða þetta nema lífskjör verði skert mjög verulega til margra ára.
Það kom einnig skýrt fram í þættinum hve sannfærður Guðbjartur er um að samþykkt ICESAVE muni efla traust á Íslandi og auðvelda frekari fjármögnun.
Sigmundur var þessu alveg ósammála og finnst líklegra að aukin skuldsetning þjóðarinnar myndi fæla lánveitendur frá landinu og rýra traust á hagkerfinu.
--
Ég er sammála Sigmundi Davíð. Þjóðin getur ekki risið undir erlendum skuldum ef ICESAVE er bætt við það sem þegar er komið. Bretar og Hollendingar munu ekki verða þakklátir lengur en í 5 mínútur þótt við sýnum þeim þann vinargreiða að láta íslensk heimili borga skuldir Landsbankans.
Lánveitingar í þakklætisskyni myndu duga skammt ef skuldsetning vegna ICESAVE rýrir lánshæfi og fælir á sama tíma skynsama fjárfesta frá landinu.
Íslensk heimili hafa enga skyldu og engan hag af því að látið sé undan ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga um að þau axli skuldir Landsbankans.
Það er með ólíkindum að ríkisstjórn Íslands íhugi að skrifa undir þennan samning.
1.8.2009 | 18:00
Eva Joly: Ísland - það sem læra má af efnahagshruninu
MÖRGUM þjóðhöfðingjum og ríkisstjórnum, allt frá G8 til G20, verður gjarna tíðrætt um að héðan í frá verði ekkert eins og það var áður. Heimurinn hafi breyst, kreppan hafi jafnvel gerbreytt honum; afstaða okkar og vinnubrögð varðandi lagaumhverfi fjármálastarfsemi, alþjóðasamskipti eða þróunarsamvinnu verði því, að þeirra sögn, einnig að þróast. En því miður ganga fjölmörg dæmi þvert gegn þessum fagurgala þeirra. Staða Íslands nú í kjölfar bankahrunsins og þjóðnýtingar þriggja stærstu bankanna þar (Kaupþings, Landsbankans og Glitnis) er sennilega eitt skýrasta dæmið um þetta. Ísland, þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.
Sáralítil umræða í Evrópu
Ég fékk áhuga á Íslandi þegar ég var fengin til að starfa sem ráðgjafi vegna réttarrannsóknar á orsökum bankahrunsins, sem er rót þess vanda sem landið glímir nú við. Umfjöllunarefni mitt nú varðar hins vegar ekki þá rannsókn; það er mun víðtækara en hún. Auk þess er ég ekki á neinn hátt talskona íslenskra stjórnvalda, en þau bera vitaskuld umtalsverða ábyrgð á þessu öllu saman. Sú stjórn sem sat þegar bankahrunið varð neyddist raunar til að segja af sér, enda hafði almenningur risið upp og mótmælt þeim hagsmunaárekstrum og klíkuskap í stjórnkerfinu sem eru undirrót allra ófara þeirra. Þar sem ég er snortin af örlögum þessarar grandvöru og elskulegu þjóðar og finnst sárlega skorta umræðu um hlutskipti hennar í evrópskum fjölmiðlum, langar mig bara að vekja athygli almennings á því hversu miklir hagsmunir eru í húfi í þessu máli - gríðarlegir hagsmunir sem afmarkast síður en svo af strandlengju Íslands. Ábyrgðarlaus afstaða sumra ríkja, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart hruni íslenska efnahagskerfisins sýnir að þau eru ófær um að draga lærdóm af hruni þess samfélags sem Ísland var holdgervingur fyrir - þ.e. samfélags óhefts markaðsfrelsis, einkum frjálsra fjármálamarkaða, sem þessir sömu aðilar tóku þátt í að móta.
Skáldskapur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Tökum fyrst kröfur Bretlands og Hollands. Hrun íslensku bankanna snertir þessi lönd beint, enda tóku þau dótturfyrirtækjum bankanna og útibúum opnum örmum þrátt fyrir að yfirvöld þessara sömu landa hafi að einhverju leyti verið vöruð við þeirri hættu sem vofði yfir bönkunum. Nú krefjast þau þess að Ísland greiði þeim himinháar upphæðir (Bretlandi meira en 2,7 milljarða evra og Hollandi meira en 1,3 milljarða evra), og það á 5,5% vöxtum. Löndin telja að Íslandi beri að gangast í ábyrgð fyrir innlán í Icesave, netbankaútibúi Landsbankans sem bauð mun hærri vexti á innlánum en keppinautarnir. Það voru Hollendingar og Bretar sem ákváðu einhliða að upphæð innistæðutryggingarinnar ætti að vera ekki aðeins 20 þúsund evrur fyrir hvern reikning, rétt eins og kveðið var á um í evrópskum og íslenskum lögum- nokkuð sem þegar var ógerlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að standa við, en hún hafði tilkynnt mjög fljótlega eftir að bankarnir voru þjóðnýttir að aðeins væri hægt að ábyrgjast innlán á Íslandi -, heldur að upphæð 50.000 til 100.000 evrur, jafnvel hærri. Raunar var gripið til hneykslanlegra þvingunarráðstafana vegna þessa. Bretland greip þannig strax í októberbyrjun til afar róttækra aðgerða: frysti innistæður á reikningum Landsbankans og einnig Kaupþings, sem þó hafði nákvæmlega ekkert með Icesave að gera, og beitti til þess lögum um baráttu gegn hryðjuverkum. Með þessu setti Bretland Íslendinga, bandamenn sína í NATO, í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við al-Qaeda... Upp frá þessu virðist Bretland hafa lagst með öllum sínum þunga gegn því að alþjóðasamfélagið grípi til nokkurra ráðstafana sem komið geta Íslandi að gagni fyrr en það hefur haft sitt fram. Gordon Brown gaf þannig í skyn í breska þinginu að hann »ynni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum« til að ná fram kröfum sínum gagnvart Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti því að fresta því að lána Íslandi og setti afar hörð skilyrði fyrir veitingu lánsins. Það á við um þau markmið að ná jafnvægi í fjárlögum á Íslandi í síðasta lagi árið 2013, markmið sem ekki er gerlegt að ná, en kemur engu að síður til með að leiða til gríðarlegs niðurskurðar í grundvallarmálaflokkum á borð við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, o.s.frv. Afstaða Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja var lítið skárri. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók strax í nóvember skýra afstöðu með Bretlandi þegar forseti hennar lét að því liggja að aðstoð myndi ekki berast frá Evrópu meðan Icesavemálið væri enn ófrágengið; raunar má segja að Barroso, sem þá var allur með hugann við eigin kosningabaráttu og dauðhræddur við að styggja helstu stuðningsmenn sína, Breta, hafi þá eins og fyrri daginn algerlega verið búinn að missa stjórn á atburðarásinni. Sama má segja um Norðurlöndin, sem þó eru ötulir talsmenn alþjóðasamstöðu, en afreka það nú helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland er beitt - nokkuð sem dregur úr trú manna á raunverulegan vilja þeirra til þess að veita Íslandi stuðning.
Bresk stjórnvöld bera líka ábyrgð
Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðilega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave - að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála - og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra. Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafn miklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti - nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar »frammistaða« annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi... Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?
Ætla Evrópa og AGS að koma Íslandi á vonarvöl?
Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum. Samningurinn um Icesave, sem Alþingi greiðir atkvæði um á næstunni, myndi þýða aukna skuldsetningu Íslands. Hlutfallslega er um að ræða upphæð sem er sambærileg við það að Bretar tækju á sig 700 milljarða sterlingspunda skuld eða að Bandaríkjamenn tæku á sig 5600 milljarða dollara skuld. Það er heldur ekki raunhæft að Ísland geti skilað hallalausum fjárlögum innan fimm ára á sama tíma og fjárlagahalli flestra ríkja eykst gríðarlega. Þar fara fremst í flokki stórveldi heimsins, ekki síst Bretland og Bandaríkin. Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann að vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu... Afleiðingin: Íslendingar, sem langflestir eru vel menntaðir, fjöltyngdir og í nánum tengslum við Norðurlöndin þar sem þeir aðlagast auðveldlega, eru þegar farnir að flýja land. Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi. Lega Íslands er hernaðarlega mikilvæg og landið ríkt af náttúruauðlindum. Ef svo fer sem horfir mun aldurssamsetning íbúanna breytast og ungt, menntað fólk flytja úr landi. Þeir sem eftir verða munu eiga meira undir þeim sem hæst býður. Engum dylst aukinn áhugi Rússa á svæðinu.
Lausnir eru til
En það eru til aðrar lausnir. Aðildarlönd Evrópusambandsins hefðu þannig getað hugað að leiðum sem gerðu þeim kleift að axla ábyrgð í málinu, koma betra skipulagi á fjármálamarkaðina, jafnvel taka á sig að minnsta kosti hluta skuldarinnar vegna þess að þeim láðist að sinna hlutverki sínu sem eftirlitsaðilar gagnvart bönkunum - nokkuð sem er síður en svo bannað samkvæmt evrópskum lögum. Þau hefðu getað boðið Íslandi, sem hefur auðvitað enga reynslu í málum sem þessum, aðstoð í þeirri rannsókn sem er ætlað að leiða í ljós hvað gerðist og greina ástæður hrunsins að fullu. Evrópuríkin hefðu getað notað þetta tilefni og efnt til umræðu um hvernig megi kljást við alþjóðlega glæpastarfsemi, einkum fjármálaglæpi með beitingu evrópskra laga. Eins hefðu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og forstjóri hans geta notað þetta tækifæri til að endurskoða rækilega þau skilyrði sem sjóðurinn setur fyrir lánveitingum. Það er hægt gera þau raunhæfari, hugsa þau betur og til lengri tíma og taka meira tillit til félagslegra þátta. Þannig hefði fyrsta skrefið verið stigið í átt að nauðsynlegum og löngu tímabærum umbótum á fjölþjóðlegum stofnunum sem hafa lykilhlutverki að gegna í alþjóðasamstarfi. Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, missti hér af gullnu tækifæri til þess að láta loks verkin tala.
Viðbrögð Evrópuþingsins
Það mun augljóslega kosta mikinn tíma og orku að halda þessari umræðu lifandi, og það þarf að vera vel á verði - einkum á Evrópuþinginu þar sem búast má við miklum umræðum um þetta efni á næstu mánuðum. Svíum, sem nú eru í forsæti í Evrópusambandinu, virðist nefnilega ekkert sérlega mikið í mun að setja fjármálageiranum skýrari lagaramma. Andstæðingar ríkisafskipta eru ráðandi í þeim nefndum Evrópuþingsins sem fjalla um efnahagsmál og eru Bretar þar fremstir í flokki. Það er því ljóst að þeir sem ráða ferðinni hafa ekkert lært, heldur á að halda áfram á sömu braut. Við þurfum því að krefjast þess að alþjóðasamfélagið veiti svör við því hvernig koma eigi í veg fyrir hrun og hörmungar eins og Ísland lenti í. Það á ekki að líðast að alþjóðasamfélagið yppi öxlum og láti sem engra breytinga sé þörf og beiti lönd eins og Ísland þrýstingi af fullkomnu miskunnarleysi.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)