ICESAVE - Okkur ber ekki að borga - punktur

gordon-brownÍslenska ríkinu ber ekki að ábyrgjast tryggingasjóð innistæðna. Ríkið hefur rækt allar skyldur sínar af kostgæfni um að koma á fót slíkum sjóði í samræmi við lög ESB. Þau lög kalla hinsvegar hvergi á ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðna. Hefði verið um ríkisábyrgð að ræða hefði það að sjálfsögðu verið orðað þannig í lögum ESB.

Bretar og Hollendingar kusu að ábyrgjast innistæður

Bretum og Hollendingum bar heldur ekki að borga innistæðueigendum út trygginguna en þeir ákváðu samt að gera það. Með þessu vildu þeir draga úr líkum á áhlaupi á aðra banka enda var þetta í miðju hruninu. Þetta var þeirra val og gert til að verja aðra og stærri hagsmuni.

Þessi ákvörðun skuldbatt ekki íslenska ríkið

Hvorki Landsbankinn né tryggingasjóðurinn voru á ábyrgð ríkisins. Bretar og Hollendingar vissu það vel þegar þeir greiddu innistæðueigendum trygginguna. Þeir vilja samt knýja Íslendinga til að taka á sig trygginguna ef þess er nokkur kostur og þótt engin lög kveði á um að okkur beri að verða við því.

Bresk og Hollensk yfirvöld beita þrýstingi og hótunum til að knýja sitt fram. Þau reyna að spilla fyrir því að Ísland fái lán frá vinaþjóðum eða Alþjóðagjaldeyrissjóði. Þau róa gegn því að umsókn Íslands í ESB fái jákvæðar viðtökur. Þetta er ólíðandi framkoma og í raun ofbeldi.

gay_iceland_0130Hin duglausa ríkisstjórn Íslands gætir ekki réttar okkar

Í stað þess að taka til varna, kynna okkar málstað erlendis og láta reyna á lögmæti krafna hefur ríkisstjórn Íslands bara gefist upp og gengið að ýtrustu kröfum viðsemjenda.

Icesave samningurinn verður samninganefndinni og ríkisstjórn til ævarandi skammar og það er með ólíkindum að slíkt plagg sé lagt fyrir Alþingi. Enn verra er að ríkisstjórnin hefur leynt þing og þjóð ýmsum mikilvægum gögnum um málið. Það er grafalvarlegt mál sem umboðsmaður Alþingis ætti að taka til rannsóknar án tafar.

Hagsmunir Íslands og réttlætið kalla á að þessum samningi verði hafnað einróma af þingmönnum.

En hvað gerist þá?

Lífið heldur áfram sinn vanagang.

Yfirvofandi skuldsetningu þjóðarinnar um c.a. 700 milljarða í erlendum gjaldeyri er afstýrt. Krónan mun án efa styrkjast við það. Skatta þarf ekki að hækka eins mikið og á horfðist. Þetta tvennt mun bæta afkomuhorfur íslensks efnahagslífs verulega.

Erlendir fjölmiðlar munu hafa áhuga á deilunni og við munum því fá næg tækifæri til að kynna heiminum okkar málstað. Málstaður Íslands er réttlátur og allir munu geta séð að þær byrðar sem áformað var að leggja á íslensk heimili hefðu verið óbærilegar.

Ísland verður ekki sett í viðskiptabann enda höfum við ekki brotið nein lög. Það er almenn andstaða við slíkar aðgerðir enda bitna þær ávallt á þeim er síst skyldi. Ef svo ólíklega færi að Bretar og Hollendingar settu bann á viðskipti við Ísland mætti beina viðskiptum til annarra landa í Evrópu. Slíkt bann myndi á endanum bitna meira á Breskum og Hollenskum fyrirtækjum en Íslenskum.

Lán frá AGS og vinaþjóðum munu ekki stranda lengi á Icesave málinu. Kröfuhafar Íslands víða um heim munu þrýsta á AGS að lána Íslandi svo þeir geti fengið greitt.

Er íslenska ríkið þá orðið ómerkt orða sinna?

Því hefur verið haldið á lofti að íslenska ríkið (eða fulltrúar þess) hafi gefið breskum og hollenskum yfirvöldum loforð um að íslenska ríkið myndi standa á bak við innistæðutrygginguna. Hafi slík loforð verið gefin í raun og veru þá er spurning hvort þau voru gefin undir þrýstingi frá mótaðila. Einnig er spurning hvort mótaðili mátti vita að loforðið hlyti að vera með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að lokum er spurning hvers vegna þurfti slíkt loforð yfirleitt ef íslenska ríkinu var skylt að lögum að standa á bak við tryggingasjóðinn.

Ég hef reyndar hitt kjósanda sem finnst rétt að staðið sé við öll loforð sem talsmenn þjóðarinnar gefa út jafnvel þótt talsmaðurinn hafi þar með farið langt út fyrir sitt umboð. Ef gengið sé á bak slíkum loforðum sé Ísland sem ríki búið að missa traust annarra þjóða.

Talsmaður, ráðherra eða forsætisráðherra sem gefur loforð án þess að hafa til þess nauðsynlegt umboð getur ekki skapað þjóðinni nokkra skyldu. Hér á ekki að skipta máli hvort mótaðilinn er erlent ríki eða innlendur aðili. Þetta skilja fulltrúar erlendra ríkja mætavel enda er sama fyrirkomulag hjá þeim.

Staðreyndin er sú að ef við öxlum þessa gríðarlegu og óréttmætu byrði þá aukast mjög líkur á að Ísland geti ekki staðið við fjölmargar aðrar skuldbindingar og skyldur sem við eigum með réttu að standa við. Þá verðum við örugglega ómerk orða okkar.

Íslendingar njóta trausts í útlöndum og munu gera það áfram þótt þeir neiti að láta undan þvingunum til að undirgangast óréttmætar og óbærilegar skuldbindingar. 


Hlutleysi Ríkisútvarpsins

ruv

Í lögum um Ríkisútvarpið ohf er á þremur stöðum kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Þjóðin þarf að geta treyst því að RÚV fari að lögum og sé í raun hlutlaus fjölmiðill. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að RÚV bregðist ekki trausti þjóðarinnar í þessu enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til stórmála eins og ESB og ICESAVE. RÚV má alls ekki taka afstöðu í þessum hitamálum.

Þær raddir verða nú háværari að umfjöllun RÚV um ESB og ICESAVE uppfylli ekki ákvæði útvarpslaga um óhlutdrægni. Hlutdrægni getur leynst víða t.d. í vali á fréttum, vali á viðmælendum, gildishlöðnum spurningum, tónlist, myndefni ofl.

Það er eðlilegt að fréttamenn og þáttastjórnendur RÚV hafi eins og aðrir sterkar skoðanir á ICESAVE og ESB og því er aukin hætta á að einhverjir þeirra falli í þá freistni að setja hlutina fram með hlutdrægum hætti.

Menntamálaráðherra, stjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjórar bera ábyrgð á að farið sé að lögum í þessu efni. Þessum aðilum er skylt að sjá til þess að eftirlit sé haft með því að það efni sem frá RÚV kemur uppfylli kröfur laga um hlutleysi.

Mér er ekki kunnugt um hvernig eftirlit er haft með þessu, en hafi slíku eftirliti ekki verið komið á, þá eru þessir ábyrgðaraðilar ekki að framfylgja lögum um að hlutleysis sé gætt. 

Einmitt núna, vegna þeirra aðstæða og átaka sem eru framundan, er sérstaklega mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti fyllsta hlutleysis svo það glati ekki trausti þjóðarinnar.

Núna er rétti tíminn til að láta hlutlausan aðila gera úttekt á því hvort fyllsta hlutleysis hafi örugglega verið gætt í fréttaflutningi og umfjöllun um ESB og ICESAVE málin og birta þjóðinni niðurstöðuna.


ESB og hagsmunir atvinnulífsins

Sú skoðun hefur komið fram hjá einhverjum atvinnurekendum að það verði auðveldara að ná árangri í rekstri Íslenskra fyrirtækja ef Ísland gerist aðili að ESB og hér verði tekin upp evra í framhaldinu. Þá munum við losna við þann óstöðugleika sem einkennt hefur krónuna og aðgangur að erlendu lánsfé batni. Sumir virðast jafnvel trúa því að aðildarumsókn ein og sér muni efla tiltrú erlendra fjárfesta, styrkja gengi krónu og bæta aðgang að erlendu lánsfé.

Trúverðugleiki eða hókus pókus? 

Því miður bendi allar hagstærðir til þess að Ísland muni ekki ná að uppfylla skilyrði ESB um upptöku evru fyrr en eftir mörg ár, líklega áratugi. Þetta vita erlendir fjárfestar að sjálfsögðu og því mun tiltrú þeirra ekki aukast í bráð þótt við göngum í ESB. Við þurfum að grípa til mun trúverðugri aðgerða til að vekja tiltrú fjárfesta og gæta þess að eyða ekki tíma í að elta þá hókus pókus lausn stjórnmálamanna sem ESB aðild er.

Evran of sterk fyrir Írland

Aðgangur að lánsfé er erfiður alls staðar í heiminum. Hvernig halda menn að írskum fyrirtækjum gangi að fá lán núna? Samt eru Írar í ESB og með hina rómuðu evru. Evran er bara of sterk fyrir Írland núna og þeir geta engu breytt um það. Samkeppnishæfni írsks atvinnulífs hefur minnkað í samanburði við breskt atvinnulí því gengi pundsins hefur lækkað miðað við evru. Vandamál Írlands verður auðvitað ekki leyst með því að ganga í ESB og taka upp evru. Eins og Íslendingar, þá gerðu Írar sín mistök og nú þurfa þeir að vinna sig upp úr vandanum með trúverðugum aðgerðum, eins og við. 

ESB hindrar ekki aðildarríki sín í að gera mistök og ESB leysir heldur ekki vandamálin fyrir sín aðildarríki. Þegar harðnar á dalnum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendur inn í aðildarríkið.

Krónan er samkeppnistæki

Krónan truflaði Ísland ekki í því að komast úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu á fáeinum áratugum.

Ég dreg í efa að annar gjaldmiðill hefði verið eitthvað hentugri eða við öðlast meiri lífsgæði með alþjóðlega mynt. Lönd sem hafa eigin gjaldmiðil eru nefnilega samkeppnishæfari en önnur lönd og þau geta betur mætt hagsveiflum. Þau geta frekar haldið atvinnuleysi niðri, sköttum lágum og viðvarandi afgangi af viðskiptum við útlönd ef rétt er haldið á spilunum. Joseph Stiglitz hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi skrifaði mjög áhugaverða skýrslu fyrir Seðlabankann árið 2001 sem innihélt prýðilegar ábendingar um hvernig við gætum náð árangri með eigin mynt, varið hana gegn spákaupmennsku ofl. Seðlabankinn hefði betur farið eftir þeim ábendingum. Það væri líklega trúverðugt í augum umheimsins ef við tækjum upp þau ráð núna í stað þess að tala niður krónuna sem ónýtan gjaldmiðil.

Áhættusamt að ganga inn

Það er ekki bara óþarft fyrir Ísland að ganga í ESB heldur er það líka áhættusamt. Við erum mjög fá og eigum hlutfallslega miklu meira af auðlindum, land- og hafsvæðum en aðrir íbúar Evrópu. Hagsmunir okkar eru ólíkir þeirra að því leiti að við erum aflögufær með orku, land og prótein en Evrópubúa skortir orku, vatn og prótein. Við ættum ekki að freista þeirra með því að deila með þeim löggjafarvaldi yfir landinu. Til langs tíma litið mun það bara fara á einn veg.

Tollabandalag með hverfandi hagvöxt 

Það þjónar ekki hagsmunum íslensks atvinnulífs vel að loka sig inni í tollabandalagi með þjóðum sem sjá fram á minni hagvöxt en flest önnur svæði heims. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Evrópusvæðið dregur upp dökka mynd af ástandinu í ESB næsta áratuginn. Á sama tíma er hagvöxtur í Kína 7% og ágætt ástand í Kanada. Nýlega tók gildi fríverslunarsamningur við Kanda og samningur við Kína er á leiðinni.

Fríverslunarsamningar Íslands eru ómetanlegur fjársóður 

Rétt að geta þess að fríverslunarsamningar Íslands við önnur lönd eru ómetanlegur fjársjóður sem tekið hefur áratugi að byggja upp en þeir munu allir falla niður við inngöngu í ESB og verða ekki endurvaktir þótt við segjum okkur úr sambandinu. Úrsögn úr ESB er því nánast óhugsandi, hversu illa sem okkur líkar vistin.


Kosningasvindl á Íslandi?

sjsVG undir forystu Steingríms J Sigfússonar hafa blekkt kjósendur sína fullkomlega. Ég kaus VG nær eingöngu vegna stefnu flokksins gegn aðild að ESB. Nú stendur þessi sami flokkur og Steingrímur J að tillögu um aðildarumsókn í ESB, án þess að spyrja þjóðina álits.

Varla get ég verið einn um þá tilfinningu að atkvæði mitt hafi verið misnotað í einhverskonar kosningasvindli?

Það hlýtur að vera fullkomlega ólýðræðislegt að lofa kjósendum einni stefnu en taka svo upp þveröfuga stefnu eftir kosningar. Hvaða tilgang hafa annars kosningar? Um hvað er maður að kjósa?

VG eiga að sýna þann manndóm að annað hvort segja sig úr ríkisstjórn eða fylgja þeirri stefnu sem lofað var fyrir kosningar.

Í stefnu VG stendur: 

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað.


Alþingi verður að fella ICESAVE frumvarpið

icesaveAlþingi verður að segja NEI við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á tryggingasjóð innistæðueigenda. Það finnast hvorki lagaleg né siðferðileg rök fyrir því að varpa skuldum einkabanka á saklausan almenning.  Ríkisstjórn Íslands hefur koðnað undan þrýstingi frá Bretum, Hollendingum og öðrum Evrópuþjóðum sem vildu ekki fara dómstólaleiðina vegna þess að þau hefðu tapað málinu á lagarökum. Evrópuþjóðir óttuðust að málareksturinn hefði "kollvarpað trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja" eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu:

Íslensk stjórnvöld hafa allt frá upphafi málsins haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda. Íslensk stjórnvöld bentu einnig á samábyrgð Evrópuríkja vegna þess hve regluverkið varðandi innstæðutryggingar var gallað, enda hafi því ekki verið ætlað að taka til kerfisbundins hruns meginþorra fjármálastofnana á sama tíma. Í ljósi mikilvægis málsins var leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð myndu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeildrar meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja

 

Ef íslendingar höfðu svona rangt fyrir sér og ríkinu bar að greiða það sem á vantar í tryggingasjóðinn, þá stafaði fjármálakerfinu auðvitað engin hætta af málinu þótt það væri tekið fyrir. ESB þorði greinilega ekki að taka þann slag.

Þegar kreppan skall á og bankarnir féllu kusu Bretar og Hollendingar að borga trygginguna út þótt þeim bæri ekki skylda til þess. Þetta gerðu þeir í því skyni að auka traust á bankakerfum sínum og draga þannig úr líkum á falli sinna banka. Þetta var þeirra val og eflaust skynsamlegt. En svo tóku þeir sig saman um að koma skuldinni á íslendinga og þegar lagarök þraut beittu þeir í staðinn þvingunum og hótunum.

Í stað þess að standa og berjast, guggnaði ríkisstjórnin og tók að ganga erinda Evrópu við það að leggja gríðarlegar skuldir á blásaklausa landsmenn. Varlega áætlað 2-3 milljónir á hvert mannsbarn, 12 milljónir á meðalfjölskyldu og við þetta bætast vaxtavextir. Jafnvel í mesta góðærinu voru ekki sérlega margar fjölskyldur sem voru aflögufærar um 12 milljónir. Hugsum okkur nú að ALLAR fjölskyldur leggi til 12 milljónir. Það mun augljóslega steypa þjóðinni í fátækt, jafnvel við bestu skilyrði.

Viðskiptaráðherrann hefur samt haldið því fram í blaðagrein og í þingræðu að þjóðin geti staðið undir þessu. Það er gott að vera bjartsýnn en mér er það óskiljanlegt hvernig ráðherrann getur talið sér trú um þetta. Sigmundur Davíð bendir á í sínu andsvari að þessa skuld þarf að greiða í beinhörðum gjaldeyri og hún er hrein viðbót við allt það eignatjón sem íslendingar þegar mátt þola og allar skuldirnar sem eru nú þegar að sliga fyrirtæki og heimili. 

Önnur ástæða til að fella þetta ICESAVE frumvarp er samningurinn sjálfur sem er vægast sagt mjög einhliða og óaðgengilegur fyrir Ísland. Vextirnir allt of háir og til hvers eru þessi ákvæði um aðför að eignum ríkisins hvar sem þær finnast þegar dráttur verður á greiðslu? Samningurinn gjaldfellur líka í heild sinni ef alþingi setur lög sem Bretar eða Hollendingar telja að ógni greiðslugetu okkar. Þetta þýðir að öll ný lög þurfa að samþykkjast fyrirfram af þessum þjóðum á lánstímanum. Það eitt er óþolandi niðurlæging og skerðing á fullveldi okkar sem þjóðar.

Þessi ómögulegi samningur tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgð á skuld tryggingasjóðsins. Ríkið ber enga ábyrgð á sjóðnum samkvæmt neinum lögum, nema Alþingi sé svo vitlaust að samþykkja það.

Hvað gerist hinsvegar ef Alþingi fellir málið? Lífið heldur áfram. Skuldir okkar verða viðráðanlegri. Krónan styrkist og skuldir í erlendum myntum lækka tilsvarandi. Lánshæfismat skánar. Það verður ekki slökkt á Íslandi. Bretar og Hollendingar munu vilja semja, það er þeirra hagur að ná einhverju út úr okkur. 

Alþjóðasamfélagið mun ekki fordæma smáþjóð fyrir að standa á lagalegum rétti sínum. Jafnvel þótt öll ESB lönd velji að ríkistryggja sína innlánstryggingasjóði umfram lagaskyldu þá skapar það ekki lagalega skyldu fyrir Ísland að gera það sama.

Það mun enginn fordæma Ísland fyrir að hafna samningi sem það getur ekki staðið við.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki afturkalla lánin þótt við stöndum á rétti okkar í þessu máli.

Evrópusambandið mun ekki hafna aðildarumsókn Íslands, því miður. Því við höfum ekki brotið nein lög Evrópusambandsins. Við fórum einmitt eftir lögunum í hvívetna.

Bretar og Hollendingar munu heldur ekki mótmæla inngöngu Íslands, því miður, því þeir hafa mikla hagsmuni af því að við göngum þar inn - hvernig sem þetta ICESAVE mál velkist.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband