30.6.2009 | 14:58
Þennan samning verður að fella

Í dag birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein um Icesave málið eftir hagfræðinginn Jón Daníelsson.
"Það blasir við að afdrifarík mistök voru gerð af íslensku samninganefndinni. Bretar og Hollendingar hafa án efa teflt fram mjög reyndum samningamönnum."
ICESAVE-vandinn varð þannig til að íslenskir bankar stálu í raun frá sparifjáreigendum í Evrópu: Þeir tóku við peningum sem þeir hafa ekki borgað aftur. Það virðist hafa verið með fullu samþykki íslenskra yfirvalda. Bankarnir sjálfir, stjórnmálamenn og embættismenn fullyrtu að íslenska ríkið stæði að baki innistæðunum og tóku öllum efasemdum um annað fjarri. Það fór ekki leynt, hvorki í íslenskum fjölmiðlum né erlendum. Hvað sem líður allri lagalegri óvissu, höfum við Íslendingar því siðferðislega skyldu til að viðurkenna ábyrgð okkar. Nema menn vilji vera álitnir þjófsnautar um aldur og ævi.
Bretar og Hollendingar deili ábyrgðinni
En ábyrgðin er ekki einvörðungu okkar. Veruleg brotalöm var á eftirlitskerfi Evrópusambandsins, og Fjármálaeftirlit Bretlands og hollenski seðlabankinn sinntu eftirlitshlutverki sínu ekki sem skyldi. Virðast raunar hafa þagað gegn betri vitund.Bretar og Hollendingar hafa beitt gífurlegri hörku við að knýja fram fyllstu ábyrgð Íslendinga á Icesave-skuldbindingunum. Framan af nutu þeir til þess óskoraðs stuðnings annarra Evrópuríkja, sem stafaði af einkar vályndri stöðu evrópskra fjármálamarkaða sl. haust, en þær aðstæður hafa nú breyst.
Þegar íslensku bankarnir hrundu í október, var mikil óvissa um fjármálastöðugleika í Evrópu. Stórir bankar riðuðu til falls og annað var óhugsandi fyrir Evrópuþjóðir en láta Íslendinga gangast við tryggingaskuldbindingum sínum. Ella hefði almenn vantrú getað skapast á tryggleika evrópskra bankainnistæðna og bankaáhlaup siglt í kjölfarið. Af biturri reynslu þekkja menn hvernig allir bankar, góðir sem lélegir, geta hrunið líkt og spilaborg í einu vetfangi við slíkar aðstæður.
Þessi staðreynd var ástæðan fyrir hinni hörðu afstöðu Evrópulandanna, en sem fyrr segir eru þær forsendur ekki lengur fyrir hendi. Fjármálaóstöðugleiki virðist að mestu horfinn og regluverk Evrópu hefur verið aðlagað því, sem nú er kallað íslenska vandamálið. Eftir situr ábyrgð íslenska ríkisins gagnvart evrópskum sparifjáreigendum, allt að 20.887 evrur á hvern og einn reikning. Hollenska og breska ríkið hafa þegar greitt fjárhæðina út og ábyrgðin er því gagnvart þessum ríkjum. Það mun hafa úrslitaáhrif á framtíð íslenska hagkerfisins hvernig um skuldina semst. Heildartalan nemur um 3,4 milljörðum punda, eða 734 milljörðum króna.
Milli feigs og ófeigs
Íslenska hagkerfið stendur á krossgötum. Líklegast er að niðurstaðan verði annaðhvort slæmt jafnvægi eða gott jafnvægi, svo gripið sé til hugtaka úr tungumáli hagfræðinnar. Millivegurinn er ósennilegur, en iðulega er afar mjótt á mununum hvorum megin hryggjar mál falla.Í góða jafnvæginu skapast væntingar um að ástandið muni batna, tekjur og eyðsla fólks og fjárfestingar aukast, sem eitt og sér leiðir til meiri væntinga og betri stöðu. Í vonda jafnvæginu missir fólk og fyrirtæki hins vegar trúna á hagkerfið og framtíðina, fyrirtæki halda að sér höndum, og tiltækt fjármagn leitar til útlanda. Búast má við að bæði einstaklingar og fyrirtæki flytji út, sem enn eykur vandamálið og vantrúna.
Íslendinga þarf ekki að bera mikið af leið til þess að lenda í slæmu jafnvægi. Niðurstaða Icesave-mála getur ráðið úrslitum um það og því er það algjört grundvallaratriði fyrir framtíð Íslands og Íslendinga að Icesave-samningurinn verði eins hagstæður og unnt er.
Gallar Icesave-samningsins
Það eru tvö grundvallarvandamál við fyrirliggjandi samningstillögu ríkisstjórnarinnar: annars vegar form samningsins og hins vegar samningskjörin.
1. Vextir eru 5,5% á ári sem í sjálfu sér eru ekki óeðlileg kjör, en nemur þó um 40 milljörðum króna á ári. Vandinn er að svo virðist sem íslenski tryggingasjóðurinn eigi forgangskröfu í þrotabú Landsbankans, en aðeins fyrir höfuðstólnum, ekki vöxtunum. Sé þessi skilningur réttur munu þeir falla á íslenska ríkið í heild sinni. Ljóst er að um er að ræða gríðarlega fjárhæð, væntanlega tugi milljarða á ári. Hjá þessu vandamáli mætti hæglega komast með því að gera bankann sjálfan að lántaka, en láta tryggingasjóðinn og ríkið ábyrgjast skuldbindinguna. Krefjast verður þess að samningnum verði breytt á þá lund áður en á hann er fallist af Alþingi.
2. Íslendingar hafa gengist undir það með samningum að greiða innistæðueigendum í Hollandi og Bretlandi innistæður upp að 20.887 evrum. Bresk og hollensk yfirvöld tóku ákvörðun um að greiða umfram lágmarkið. Sú ráðstöfun þeirra má ekki verða til þess að réttur okkar til endurheimtu raskist. Skilanefndin virðist þó telja svo vera. Væri skilningur hennar réttur fengju tryggingasjóðir ríkjanna þriggja sama hlutfall upp í kröfur sínar. Ákvörðun Hollendinga og Breta, sem Íslendingar fengu engu um ráðið og er umfram hina samevrópsku skyldu þeirra yrði þannig til þess að rýra endurheimtu Íslendinga. Það getur ekki verið rétt niðurstaða, hvað þá réttlát. Mér fróðari menn um gjaldþrotarétt fullyrða við mig að greiðsla tryggingasjóðsins sé í raun fyrirframgreiðsla upp í úthlutun úr þrotabúi Landsbankans og tryggingasjóðurinn eigi rétt til endurheimtu þess sem hann greiðir, áður en aðrir tryggingasjóðir eða innistæðueigendur fá nokkuð í sinn hlut. Innistæðueigandi eigi þann rétt einan að fá sér greiddar 20.887 evrur úr tryggingakerfinu og nægi eignir bankans til greiðslu þeirrar fjárhæðar, eigi hann enga kröfu á tryggingasjóðinn.
3. Samningurinn samsvarar því, miðað við höfðatölu, að Bretar samþykktu 700 milljarða punda og Bandaríkjamenn 5,6 trilljónir dollara. Ég fæ ekki séð að þær auðsælu þjóðir tækju slíkar byrðar á sig við bestu kringumstæður, hvað þá í miðri kreppu. Það er algerlega óþolandi að íslenska ríkið taki þetta á sig í heild sinni. Þessar grannþjóðir okkar verða að horfast í augu við einstaklega erfiða stöðu okkar og burði þjóðarinnar til þess að standa undir skuldbindingunum án þess að hér verði örbirgð og landauðn. Sérstaklega á það þó við fyrir þær sakir að þær eiga ríkan þátt í því hversu ömurlega er komið fyrir okkur.
Þingið verður að fella samninginn
Það er veruleg og augljós hætta á að samkomulag leiði Íslendinga í slæma jafnvægið skyldi Alþingi verða það slys á að samþykkja samninginn óbreyttan. Þess vegna verður að breyta samkomulaginu. Það þarf að sníða af því lagalega agnúa og tryggja sem bestar endurheimtur, það er öllum fyrir bestu. Það verður líka að gæta þess að fjárhæðin sem fellur á Ísland verði ekki svo há að hagkerfið nái aldrei að slíta þá skuldahlekki af sér og öðlist fyrri styrk.
Ríkisstjórnin skuldbatt sig á sínum tíma til samningaviðræðna um Icesave. Við það hefur verið staðið, en framkvæmdavaldið gat vitaskuld ekki skuldbundið þingið til þess að staðfesta samninginn eins og stjórnarskráin býður. Enn síður þar sem í millitíðinni hafa farið fram alþingiskosningar. Því er það Alþingi vandalaust að fella samninginn án þess að ríkisstjórnin hafi á nokkurn hátt gengið á bak orða sinna. Það verður Alþingi að gera.
Hvað er til ráða?
Samkomulagið er við breska og hollenska ríkið. Þau ríki þurfa að axla sinn hluta ábyrgðarinnar. Það geta þau gert með því að fallast á að endurgreiðslur frá Íslandi fari ekki fram úr tilteknu hlutfalli þjóðarframleiðslu eða útflutningsverðmæta. Ef vel gengur borgum við meira, en ef illa gengur minna, eða ekki neitt.Það blasir við að afdrifarík mistök voru gerð af íslensku samninganefndinni. Bretar og Hollendingar hafa án efa teflt fram mjög reyndum samningamönnum. Íslenska nefndin var hins vegar samsett af stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem fæstir hafa komið nálægt alþjóðlegri samningagerð af því tagi og virðast hafa verið einkar tregir til að að leita ráða utan Arnarhóls.
Best færi á því að fela samningagerðina bestu erlendu lögfræðingum sem völ er á, óumdeildum sérfræðingum í slíkum samningum. Ríkisstjórnin myndi hafa yfirumsjón með samningnum hugsanlega í nánara samráði við þingið en til þessa en láta erlendu sérfræðingana að mestu ráða för. Slíkir aðilar þykja kannski dýrir, en lélegur samningur er mun dýrari fyrir þjóðina. Við höfum ekki efni á að láta íslenska áhugamenn semja við erlenda atvinnumenn.
Höfundur er prófessor við London School of Economics.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2009 | 10:00
ICESAVE: Lögfræðingar skora á þingmenn

Eftirfarandi grein eftir lögfræðingana Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson birtist í mbl í dag.
Lárus er hæstaréttarlögmaður og Stefán er prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og höfundur margra viðamikilla fræðirita þar á meðal um Evrópurétt, réttarreglur og stofnanir Efnahagsbandalagsins. Skrifaði bók um EES samninginn. Grundvallarrannsóknir í Evrópurétti svo eitthvað sé nefnt.
Hér er svo greinin.
Áskorun til þingmanna
Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innist...Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið.
Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum.Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs.
Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati.
Þeir samningar sem nú hafa verið kynntir þjóðinni eru tæpast ásættanlegir. Ekki er með góðu móti unnt að réttlæta að við tökum á okkur ábyrgð sem við höfum aldrei gengist undir eða berum ábyrgð á með öðrum hætti, hvað þá að það sé gert á þeim kjörum sem um hefur verið samið.Við köllum eftir lögfræðilegum rökstuðningi fyrir þeim samningum sem búið er að undirrita.
Ákvörðunin um undirritun samninganna er stór á alla mælikvarða. Hún er m.a. stór í því ljósi að ekki liggur fyrir hve mikill hluti heildarfjárhæðarinnar, 650 milljarða króna að viðbættum háum vöxtum, kemur í hlut Íslendinga að greiða eða hvort innistæður njóti forgangs fram yfir aðrar kröfur samkvæmt neyðarlögunum. Það er engan veginn hægt að ganga út frá því að það ákvæði neyðarlaganna standist. Það liggur hins vegar fyrir að kröfuhafar allra gömlu bankanna munu láta á þetta reyna og breytir umræddur samningur þar engu um. Ef þetta forgangsákvæði laganna stenst ekki verður greiðslubyrði íslenska ríkisins margfalt meiri en ætla mætti samkvæmt kynningu á samningnum.
Samninganefnd Íslands hefur skilað sínu verki. Forsendan í starfi hennar virðist hafa verið sú að okkur bæri skylda til að greiða og því ekki annað að gera en að semja um greiðslukjör. Þessi nálgun er ekki í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var þann 5. desember sl. á Alþingi né þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. Í þingsályktuninni ályktar Alþingi aðeins að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld á grundvelli tiltekinna viðmiða. Í þeim viðmiðunum er hins vegar ekkert að finna sem bendir til að Alþingi hafi litið svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt.
Í kynningu nefndarinnar á samningnum kemur ekki fram hvers vegna rökum, sem leiddu til þess að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða, hafi verið hafnað í samningaviðræðunum. Ekki liggur heldur fyrir hvers vegna alþjóðlegir dómstólar voru ekki fengnir til að skera úr um deiluna svo sem eðlilegt hefði verið í samskiptum ríkja. Hafi þau sjónarmið ekki verið höfð að leiðarljósi í samningaviðræðunum að Ísland væri ekki greiðsluskylt var fyrirfram lítil von til þess að ná viðunandi samningum.
Nú er komið að Alþingi Íslendinga að taka afstöðu til málsins. Ef til eru lögfræðileg rök fyrir þeim niðurstöðum sem samninganefndin hefur samið um, þá verður að kynna þau. Það er nauðsynlegt að um þau sé rætt og að skipst sé á skoðunum um þau. Jafnframt verður að greina frá því hvers vegna dómstólaleiðin var ekki valin. Hins vegar er ljóst að ef ekki er upplýst um röksemdir samninganefndarinnar eru þingmenn í jafnmikilli óvissu um það á hverju hún byggist og aðrir landsmenn. Á hverju eiga þeir þá að byggja sína afstöðu?
Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verða þingmenn að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt.
Það er algjörlega á valdi Alþingis að ákveða hvert framhald þessa máls verður óháð því hvað núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir kunna að hafa sagt eða gert.
Við skorum á þingmenn á Alþingi Íslendinga að krefjast þess að öll rök fyrir þeim samningi sem gerður hefur verið, hvort sem þau eru lögfræðileg eða pólitísk, verði kynnt þingi og þjóð og að ákvörðun verði síðan tekin í framhaldi af því.
Þjóðin hlýtur að spyrja: treysta þingmenn sér til að taka ákvörðun um að skuldsetja hana um 650 milljarða kr. auk hárra vaxta, án þess að skýr og afdráttarlaus rökstuðningur liggi að baki?
Lárus Blöndal
Stefán Már Stefánsson,
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
2.6.2009 | 22:13
Sífellt fleiri vilja minna ESB
Ný skoðanakönnun, unnin af Gallup fyrir Heimssýn, leiðir í ljós að ríkisstjórn Íslands er á miklum villugötum í sínum áherslum. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar eða 95% telur frekar eða mjög aðkallandi að leysa fjárhagsvanda íslenskra heimila og 91,5% telja að ríkisstjórnin eigi að leggja áherslu á að sinna vanda fyrirtækja.
Ríkisstjórninni gengur illa að vinna í þessum brýnu verkefnum en leggur því meiri orku í að hefja samningaviðræður við ESB. Meirihluti aðspurðra eða 44,3% telur hins vegar að ríkisstjórnin eigi að leggja frekar litla eða mjög litla áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Íslensk stjórnvöld eru samt ekki þau einu sem eru algerlega úr takti við kjósendur sína í evrópumálum. Nýleg skoðanakönnun unnin fyrir The Economist í Bretlandi (sjá súlurit) sýnir að stuðningur við ESB hefur aldrei verið minni og meirihluti þjóðarinnar vill ganga úr ESB eða taka upp fríverslunarsamning við ESB.
Evrópumál | Breytt 3.6.2009 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)