Icesave III kosningabaráttan og lærdómur af henni

Sunnudaginn 20. febrúar árið 2011 kynnti Forsetinn þá ákvörðun sína að þjóðin fengi sjálf að ákveða hvort lögin um Icesave III samningana myndu halda gildi. Þar með hófst kosningabarátta milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem vildu að lögunum yrði hafnað.

Samstaða þjóðar gegn Icesave, samtökin sem staðið höfðu að undirskriftasöfnun gegn Icesave III hófust strax handa en það var á brattann að sækja. Skoðanakönnun Capacent sem birt var 2. mars, sýndi að 65% hyggðust kjósa með samningunum.

Ríkisstjórnin lagði í öflugt kynningarátak. Rökin voru þau að Icesave III samningarnir væru skárri en fyrri samningar og höfnun þeirra gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar: Lánshæfi myndi versna, gjaldeyrishöft festast í sessi, endurreisn tefjast, fjármálamarkaðir lokast, Íslandi yrði stefnt fyrir dómstólum og að öllum líkindum tapa málinu og þá yrði að borga allt í topp með hærri vöxtum.Samninganefndarmenn, þar á meðal Bucheit og Blöndal sem áður höfðu gagnrýnt fyrri samninga, mæltu nú eindregið með Icesave III. Nefndarmenn voru óþreytandi við að koma þessari afstöðu á framfæri í fjölmiðlum og á kynningarfundum víða um land. Óhætt er að segja að kynning Icesave málsins hafi verið mjög einhliða.

Advice hópurinn steig fram til að tala fyrir því að hafna bæri samningunum. Advice boðaði til blaðamannafundar 14. mars til að kynna átakið og meginrök gegn Icesave III, en enginn fjölmiðill sá ástæðu til að senda fréttamann á þann fund.

Advice hóf kynningarátak, sett var upp vefsíða með upplýsingum og greinum eftir mikinn fjölda sérfræðinga. Talsmenn Advice komu fram í fjölmiðlum og héldu erindi á fundum.

Umræðan var mjög virk meðal almennings og mikill fjöldi greina birtist í prentmiðlum, bæði með og á móti. Lögfræðingar og hagfræðingar létu ekki sitt eftir liggja í greinaskrifum.

Þegar á leið bentu skoðanakannanir til þess að forskot Já-manna færi minnkandi.Þann 24. mars steig Áfram hópurinn fram á sviðið til að styðja baráttu ríkisstjórnarinnar fyrir því að fá lögin samþykkt. Viku síðar bentu skoðanakannanir til þess að sveiflan yfir á Nei hliðina hefði hægt mikið á sér.

Þegar tvær vikur voru til kosninga hófu fjölmiðlar að fjalla um samningana og dómstólaleiðina. Þrátt fyrir verulegt flækjustig virtust kjósendur staðráðnir í að komast til botns í málinu. Heimsóknir á vef Advice.is hlupu á þúsundum dag hvern og vinsælustu greinarnar voru lesnar af meira en tíu þúsund manns. Vel yfir tíu þúsund manns horfðu á myndskeið þar sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður útskýrir dómstólaleiðina.

Þegar tæp vika var til kosninga, bentu skoðanakannanir til þess að fólk væri aftur að færast yfir á Nei vænginn, munurinn var orðinn það lítill að allt gat gerst í kosningunum.

Bæklingur frá stjórnvöldum með hlutlausu kynningarefni um Icesave lögin var borinn í hús 4. apríl.Kosið var 9. apríl.

Fyrstu tölur komu klukkan 23 og bentu til þess að þjóðin hefði hafnað lögunum. Lokatölur reyndust afgerandi: lögin voru felld með 60% atkvæða og kosningaþátttaka var 75%.

Þegar niðurstaðan lá fyrir, reið á að koma réttum skilaboðum til fjölmiðla svo niðurstaðan yrði ekki rangtúlkuð. Ríkisstjórnin flaskaði á þessu. Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við úrslitunum endurómuðu í heimspressuni:

  • "We must do all we can to prevent political and economic chaos as a result of this outcome” - Guardian
  • "The worst option was chosen and has split the country in two“ - BBC
  • ”I fear a court case very much” - Reuters

Nú eru liðnir tíu dagar frá því að lögunum var hafnað. Dómsdagsspár ríkisstjórnarinnar hafa ekki gengið eftir. Moody’s hefur tilkynnt að lánshæfismat Íslands sé óbreytt. Krónan hefur styrkst og skuldatryggingaálag lækkað. Dómsdagsspár stórnvalda rættust ekki og nú keppast ráðherrar við að eigna sér heiðurinn af því. Nær væri að þeir bæðu þjóðina afsökunar á hræðsluáróðrinum.

En hvað má læra af þessu - hverju þarf að breyta?

1. Kynningarefni til kjósenda innihaldi rökin með og móti
Í aðdraganda þjóðaratkvæðis ber innanríkisráðuneyti að dreifa bæklingi með lögunum á öll heimili. Í þetta sinn ákvað Alþingi að ganga lengra og fól ráðuneytinu að útvega einnig í bæklinginn hlutlaust kynningarefni um málið.Advice hópurinn lagði til að báðum fylkingum yrði boðið tiltekið rými í bæklingnum svo kjósendur gætu kynnt sér með- og mótrök, eins og hefð er fyrir í Sviss. Því var hafnað.Advice lagði einnig til að báðar fylkingar fengju að rýna drög að kynningarefni til að ganga úr skugga um hlutleysi þess. Því var einnig hafnað.Það virðist nauðsynlegt að setja reglur um þessi atriði til að jafna aðstöðu beggja fylkinga til að kynna sinn málstað fyrir kjósendum og tryggja að kynningarefni sem kynnt er sem hlutlaust hafi verið rýnt með hliðsjón af því.

2. Tryggja þjóðinni frest til að mynda sér skoðun
Þjóðin á sinn rétt á því að kynna sér málavöxtu, skoða rökin með og móti og mynda sér upplýsta skoðun. Þetta tekur tíma og hér reyndust 48 dagar varla duga. Upplýsingabæklingur stjórnvalda kom ekki í hús fyrr en fimm dögum fyrir kosningar.Tveir mánuðir ættu að vera lágmarksfrestur og engin vanþörf á því að binda þann frest í lög til að halda ríkisstjórnum í skefjum. Athygli vekur að skv. 4. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, skal halda þjóðaratkvæðagreiðslu innan 2 mánaða hafi Forseti beitt málskotsrétti. En hafi þingið sjálft vísað lögum til þjóðarinnar skal halda atkvæðagreiðsluna innan 3 til 12 mánaða. Hvers vegna er kjósendum ekki tryggður neinn lágmarks-umhugsunartími þegar Forsetinn vísar til hennar málum? Þetta er hneisa og þarf augljóslega að breyta. Þjóðin á alltaf að fá sinn tíma til að mynda sér upplýsta skoðun, ekki bara í þeim málum sem þinginu þóknast að leggja fyrir hana.

3. Gera þarf einhverja lágmarkskröfur til fjölmiðla um jafnvægi í miðlun
Fjölmiðlar léku stórt hlutverk í því að upplýsa kjósendur um Icesave III málið. Flestir miðlarnir tóku afstöðu með- eða á móti og hygluðu sínum málstað í hvívetna. Þrátt fyrir það, sáu þeir samt sóma sinn í því að loka ekki alveg á efni frá andstæðingum.En hvað ef miðlarnir hefðu lokað algerlega á andstæð sjónarmið? Hvað ef þeir hefðu allir haft sömu afstöðu til málsins? Hefðu kjósendur þá getað tekið upplýsta ákvörðun?Í nýjum og umdeildum fjölmiðlalögum stendur í 26. gr.: “Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.” Ekki verður séð að þetta ákvæði stuðli að jafnvægi í miðlun.Vald fjölmiðla er mikið og það er sjálfsagt að því valdi fylgi lágmarkskrafa um jafnvægi í miðlun svo lýðræðið verði síður hneppt í fjötra þeirra valdablokka sem stjórna fjölmiðlum.

4. Auglýsingar - eiga þeir ríku bara að vinna þann slag?
Pólitískar auglýsingar virka misvel á fólk en á heildina litið þá geta þær samt skipt töluverðu máli. Í þetta sinn virtust báðar fylkingar hafa nægan aðgang að fjármagni til að auglýsa. En það má vel sjá fyrir sér kosningar þar sem aðgangur fylkinga að fjármagni væri mjög ójafn.Það hlýtur að vera æskilegt að úrslit kosninga ráðist fremur af eðli máls og skoðun kjósenda en því hversu vel fylkingar geta höfðað til fjármagnsins. Auglýsingabann er ekki góður kostur, en það mætti setja eitthvað þak á auglýsingamagnið til að jafna leikinn.Uppruni fjármagns getur skipt máli. Eðlilegt er einstaklingar njóti nafnleyndar, en spyrja má hvort fyrirtæki og samtök sem leggja fram fé eigi líka að njóta nafnleyndar. Setja mætti reglu um að enginn einn aðili útvegi meira en 10% af heildarfjármögnun. Eða að þeir aðilar sem greiða meira en 20% njóti ekki nafnleyndar. Viljum við að erlendir aðilar eins og t.d. ESB eða Kína geti tekið beinan þátt í kosningabaráttu eða fjármögnun fylkinga hér á landi í aðdraganda kosninga?

5. Það þarf eftirlit með hlutleysi RÚV
Í lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið stendur “Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.” Í lögin vantar hins vegar ákvæði um hvernig eftirliti með óhlutdrægni skuli vera háttað og það eru engin viðurlög við misnotkun á RÚV hvað þetta varðar. Starfsfólki RÚV er því í raun gefið algert sjálfdæmi um það hvort það uppfylli kröfur um óhlutdrægni í sínum störfum. Þetta fyrirkomulag býður hættunni heim.Margir hafa bent á að umfjöllun RÚV hafi verið hlutdræg í Icesave málinu. Meðal þess sem bent hefur verið á er að: starfsmenn RÚV notuðu iðulega orðið “skuld Íslands” þegar “kröfur Breta og Hollendinga” bar á góma. Þegar fræðilegir álitsgjafar voru fengnir til viðtals gleymdist að fá einn frá hvorri fylkingu, og það gleymdist líka að geta þess að álitsgjafarnir voru hlutdrægir, voru jafnvel á kaupi við að halda fram sjónarmiðum stjórnvalda eða höfðu beina fjárhagslega hagsmuni af því að samningar tækjust. Þess var ekki heldur gætt að gefa talsmönnum beggja sjónarmiða jafn langan tíma. Það er augljóst að RÚV þarf aðhald og það þarf að setja lög um slíkt aðhald sem fyrst.

Enginn vill hafa reglur um alla skapaða hluti. En þegar kemur að lýðræðinu í landinu þá er nauðsynlegt að setja ríkisvaldinu, fjármagninu og fjölmiðlum skýrar reglur. Reynslan af Icesave III sýnir okkur að hér þarf að laga til og það er ekki eftir neinu að bíða. Skorum á Alþingi að gera úrbætur sem fyrst.


Icesave III undirskriftasöfnun og hvað má af henni læra

Þann 3. febrúar lauk annari umræðu um Icesave III lögin með atkvæðagreiðslu. Slæmu fréttirnar voru þær að níu af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins kusu með lögunum. Ríkisstjórnin beið ekki boðanna, þriðja umræða var sett á dagskrá eins fljótt og auðið var og lögin voru endanlega samþykkt af Alþingi 16. febrúar. Reyndar kom einnig tillaga fram um að setja lögin í þjóðaratkvæði, en hún var naumlega felld.
 
Þann 3. febrúar var andstæðingum Icesave III samninganna orðið ljóst að eina úrræðið í stöðunni var að skora á forsetann að vísa lögunum til þjóðarinnar. Allir biðu eftir því að InDefence hópurinn, sem hafði safnað undirskriftum gegn Icesave II, tæki af skarið við söfnun undirskrifta. En dagarnir liðu hver af öðrum og ekkert bólaði á InDefence.
 
En þá kom fram á sjónarsviðið nýr hópur, Samstaða Þjóðar gegn Icesave, og þann 11. febrúar var söfnun undirskrifta á vefsíðunni www.kjosum.is komin í fullan gang.
 
Ríkisstjórnin flýtti þriðju umræðu málsins og það var tekið úr nefnd án þess að ráðrúm fengist til að verða við óskum þingsins um að nánar yrði kannað hvaða fælist í svokallaðri dómstólaleið.
 
Þann 16. febrúar voru lögin borin undir atkvæði og samþykkt. Sama dag voru lögin komin til Forsetans. Allt var þetta gert með hraði til að minnka svigrúm til að safna undirskriftum gegn lögunum.
 
Forsetinn boðaði fulltrúa Kjósum.is til fundar við sig á Bessastöðum strax að morgni 18. febrúar. Þá höfðu safnast rúmlega 37 þúsund undirskriftir á aðeins einni viku. Forsetinn tók við undirskriftunum og fékk kynningu á því hvernig þeim hafði verið safnað.
 
Forsetinn kannaði áreiðanleika undirskriftanna og tilkynnti svo ákvörðun sína á blaðamannafundi sunnudaginn 20. febrúar. Þjóðin myndi kjósa um Icesave III.
 
Hvað má læra af þessu og hverju þarf að breyta?
 
1. Ákveðum með lögum fresti til undirskriftasöfnunar
Ríkisstjórnin vildi greinilega ekki að lögin færu í þjóðaratkvæði og því var henni í óhag að gefa langan tíma til söfnunar undirskrifta. Hún skar frestinn niður í 7 daga. Í Sviss taka engin lög gildi fyrr en að 100 dagar hafa liðið frá samþykkt í þinginu. Sá frestur er einmitt hugsaður til þess að kjósendur hafi ráðrúm til að bregðast við lögunum og sanngjarnan frest til að safna undirskriftum gegn þeim. Það virðist full ástæða til að takmarka vald íslenskra stjórnvalda að þessu leiti. Ég legg til að lög taki ekki gildi fyrr en að 30 dögum liðnum frá samþykkt Alþingis. Þessa reglu getur þingið sett sér strax, en síðar mætti binda hana í stjórnarskrá.
 
2. Setjum reglur um framkvæmd undirskriftasöfnunar
Engar reglur eru til um framkvæmd undirkriftasöfnunar. Þetta er óheppilegt og til þess fallið að rýra trúverðugleika slíkra safnana. Aðstandendur kjósum.is þurftu sjálfir að setja reglur um söfnunina og þótt það hafi tekist ágætlega þá má alltaf deila um útfærslur. Andstæðingar átaksins gagnrýndu útfærsluna og leituðust við að grafa þanbug undan trúverðugleika átaksins. Eðlilegt væri að Alþingi setti reglur um þetta.
 
3. Höfum eitt kerfi til að safna undirskriftum
Aðstandendur þurftu sjálfir að útvega allan búnað og leggja í ómælda vinnu við hönnun og þróun kerfis svo fólk gæti skrifað undir áskorun á kjósum.is. Fyrst áskoranir af þessu tagi eru komnar til að vera, þá er það eðlilegt hlutverk hins opinbera að útvega slíkt kerfi. Það er algerlega ástæðulaust að leggja slíkt erfiði á þá sem vilja standa að áskorun að smíða ný og ný kerfi. Auk þess er traustara að notast við kerfi sem hefur verið margreynt og þaulprófað.
 
4. Aðstaða og ráðgjöf fyrir baráttuhópa
Kjósum.is fékk engan stuðning frá hinu opinbera. Færa má gild rök fyrir því að þeir sjálfboðaliðar sem standa að slíku átaki, ættu í það minnsta að fá einhverja lágmarksaðstöðu, leiðbeiningar og jafnvel hóflega fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum til að standa straum af útlögðum kostnaði. Hafa má í huga að sjálfboðaliðar þurfa að takast á við ríkisstjórn sem hefur fjölda manns í vinnu til að halda sínum málstað á lofti. Þessi aðstöðumunur verður aldrei jafnaður, en samt er til bóta að setja reglur um einhvern lágmarksstuðning.
 
5. Ákveðum hvað þarf margar undirskriftir, það er ekki eftir neinu að bíða
Það eru engar reglur um það hve margar undirskriftir þurfi til að Forseti vísi lögum til þjóðaratkvæðis. Ef Forsetinn vill, þá er honum alveg frjálst að setja sér t.d. þá vinnureglu: að ef 15% atkvæðabærra manna skora á hann að vísa máli til þjóðaratkvæðis, þá verði hann ávallt við því. Alþingi gæti sömuleiðis sett sér sambærilega reglu hvenær sem er. En að lokum væri auðvitað traustast að slík regla væri fastsett í stjórnarskrá Íslands.
 
6. RÚV þarf að gæta betur að hlutleysi sínu
Afstaða fjölmiðla getur ráðið miklu um hvort takist að safna nægilega mörgum undirskriftum á tilsettum tíma. Ríkisfjölmiðillinn RÚV er einn öflugasti fjölmiðill landsins og sá sem þjóðin treystir einna best, ef marka má skoðanakannanir.Samkvæmt lögum er RÚV ætlað að gæta fyllsta hlutleysis. Draga má í efa að það hafi tekist hvað átak kjósum.is varðar. RÚV fjallaði sáralítið um átakið, miðað við aðrar sambærilegar safnanir, viðkvæðið var að “allir væru orðnir leiðir á fréttum af Icesave”.Þó brá svo við að þegar bloggari spratt fram og ásakaði kjosum.is hópinn um svindl þá var honum boðið í Kastljósið svo hann gæti látið illa ígrundaðar ásakanir sínar dynja á talsmanni Kjósum.is - í beinni. Ekki reyndust þessar ásakanir á rökum reistar og landsmenn voru því engu nær um neitt sem máli skipti. En hvers vegna fjallaði Kastljósið aldrei um tilvist þessa mikilvæga átaks eða efnisrökin með og móti því?
 
Látum þetta duga um söfnun undirskrifta. Í næsta pistli mun ég fara yfir kosningabaráttuna sjálfa. Baráttan hófst sama dag og forsetinn tilkynnti að Icesave III lögin færu í þjóðaratkvæðagreiðslu - og af henni má ýmislegt læra.

Rafrænar kosningar í Eistlandi

Samkvæmt öllum mælikvörðum eru Íslendingar í röð fremstu þjóða hvað tölvuvæðingu og almennt tölvulæsi varðar. Íslendingar státa líka af lengri lýðræðishefð en flestar þjóðir Evrópu. Í ljósi þess hefði alveg mátt búast við því að Ísland tæki forystu í því að innleiða rafrænar kosningar.  En af einhverjum ástæðum erum við ennþá yddandi blýanta, troðandi kjörseðlum í innsiglaða trékassa og teljandi upp úr þeim sólarhringunum saman. Kostnaðurinn við þetta úrelta fyrirkomulag hleypur á hundruðum milljóna í hvert sinn.

Eistar kusu rafrænt til þings í mars sl. en tóku fyrst upp rafrænar kosningar árið 2005 og hefur reynslan verið svo góð að aðrar þjóðir líta nú til þeirra fordæmis.

Árið 2002 voru rafræn skilríki lögleidd í Eistlandi. Allir íbúar Eistlands hafa slík skilríki og rafrænar undirskriftir gerðar með þessum skilríkjum hafa sama lagagildi og venjulegar undirskriftir. Nota þarf sérstaka kortalesara svo tölvur geti lesið skilríkin, en þeir kosta lítið. Einnig mun vera hægt að sækja auðkenni í farsíma og nota það í stað rafræns skilríkis.

Í Eistlandi fer rafræn kosning þannig fram að kjósandinn fer á vefsíðu kjörstjórnar og sækir þangað kosningaforrit. Forritið keyrir á tölvu kjósandans, les rafræn skilríki hans og birtir kjörseðil á skjánum. Kjósandinn greiðir atkvæði og það er sent yfir netið. Staðfesting um að kosning hafi tekist er birt á skjánum.

Áður en atkvæðið er sent, er það dulkóðað með lykli en auðkenni notandans er dulkóðað með öðrum lykli. Með þessu móti er kjósandanum tryggð nafnleynd og einnig er tryggt að hann geti kjósi aðeins einu sinni.

Rafræn kosning hefst 10 dögum fyrir kjördag og lýkur 4 dögum fyrir kjördag. Þetta fyrirkomulag er til að koma í veg fyrir nauðung eða viðskipti með atkvæði. Kjósandi getur kosið eins oft og hann vill rafrænt, en það er síðasta val hans sem gildir. Kjósandi getur líka farið á kjörstað og þá gildir atkvæðið sem hann greiðir þar. Með þessu móti er nánast útilokað að kjósandi verði neyddur eða keyptur til að kjósa eitthvað annað en hann vill. Kosningin er því leynileg í reynd. Innan við 2% kjósenda hafa nýtt þennan möguleika til að skipta um skoðun.

Eistar hafa nú kosið fimm sinnum með rafrænum hætti. Árið 2005 í sveitarstjórnarkosningum, árið 2007 í kosningum til þings, árið 2009 til evrópuþings, árið 2009 í sveitarstjórnarkosningum og í mars á þessu ári í þingkosningum. Hlutfall kjósenda sem kjósa rafrænt hefur farið stöðugt vaxandi, nú síðast var fjórðungur allra atkvæða greiddur með þeim hætti.

Ítarlegar rannsóknir á kerfinu og reynslunni eru fyrirliggjandi og engin vandamál gert vart við sig. Kjósendur eru almennt ánægðir með þennan valkost enda nokkuð hagræði í því að þurfa ekki að fara á kjörstað. Kerfið hefur líka margborgað sig fjárhagslega.

Það er löngu tímabært að taka upp rafrænar kosningar á Íslandi.

Heimildir:


Ættu stjórnendur að nota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi?

Flestir hafa skoðanir á pólitík og auðvitað eru stjórnendur fyrirtækja þar engin undantekning. Það kemur stundum fyrir að stjórnendur beiti vörumerki og áhrifum fyrirtækisins til að vinna sínum pólitísku skoðunum fylgi í samfélaginu. Hér er því haldið fram að slíkt sé í misnotkun á aðstöðu og geti leitt til tjóns bæði fyrir eigendur og samfélagið.

Stórfyrirtæki eru iðulega í eigu fjölmargra hluthafa. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allir eigendur hafi sömu skoðun í pólitík, hvað þá að meirihluti hluthafa sé sammála pólitískum skoðunum stjórnandans. Tillitsemi við ólíkar skoðanir hluthafa er því gild ástæða fyrir því að stjórnendur gæti hlutleysis í störfum sínum.

En tillitsemi er þó ekki eina ástæðan. Flest fyrirtæki hafa hagsmuni af því að höfða til sem flestra viðskiptavina, en ef fyrirtækið tekur afgerandi pólitíska afstöðu getur slíkt virkað fráhrindandi fyrir tiltekinn hluta viðskiptavina með tilheyrandi tapi fyrir fyrirtækið.

Dæmi eru um að stjórnendur stórfyrirtækja beiti stjórnvöld þrýstingi og hóti jafnvel að fara með fyrirtækin úr landi. Þar er illa farið með áhrifastöðu og traust eigenda.Það væri líka óheppilegt fyrir lýðræðið í landinu ef fyrirtækjum væri almennt beitt með þessum hætti. Eftir því sem fyrirtæki beita sér meira, því minni verða áhrif kjósenda.

Farsælast er að stjórnendur sneiði hjá því að blanda fyrirtækjum í pólitísk álitamál. Þeir geta að sjálfsögðu tjáð sig opinberlega um pólitík, en þá er réttast að taka fram að um persónulegar skoðanir sé að ræða, en ekki afstöðu fyrirtækisins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband