11.2.2011 | 11:43
Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn

Í Evrópusambandinu er lagasetning í höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem er skipuð 27 fulltrúum sem eru ekki kosnir, heldur tilnefndir af aðildarríkjum. Framkvæmdastjórnin ein hefur vald til að leggja fram lagafrumvörp og hún hefur auk þess allt framkvæmdavald. Þrískipting valdsins er því ekki fyrir hendi.
Evrópuþingið hefur ekki vald til að leggja fram lagafrumvörp. Þingið hefur aðeins eftirlit með framkvæmdastjórninni og samþykkir lagafrumvörp hennar. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum, og þarf hreinan meirihluta þingmanna til að stöðva frumvarp. Til að lýsa vantrausti á framkvæmdastjórnina þarf ⅔ þingsins.
Lýðræðishalli
Í Evrópusambandinu er sérstakt orð yfir þann áhrifamissi sem kjósendur mega þola þegar ákvarðanataka flyst frá þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel. Orðið er lýðræðishalli.
Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar ef embættismönnum, en ekki af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þróunin hefur frá upphafi verið sú að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel. Lýðræðishallinn fer því vaxandi.
Niðurstöður könnunar meðal íbúa Evrópusambandsins (*1) virðast styðja þetta. Þannig töldu 56% svarenda rödd sína skipta máli í landsmálum, en hinsvegar töldu aðeins 34% rödd sína skipta máli í Evrópumálum.
Fjarlægð eykst milli kjósenda og fulltrúa
Þegar ákvarðanir flytjast frá þjóðþingum til Brussel, þá eykst um leið fjarlægð milli kjósenda og þeirra sem véla um ákvarðanir og löggjöf. Það verður því mun erfiðara fyrir kjósendur að ná sambandi við kjörna fulltrúa sína, eða safnast saman og mótmæla.
Einnig verður erfiðara fyrir fulltrúa sem lifir og hrærist í Brussel að setja sig í spor fjarlægra kjósenda.
Lýðræðið virðast vera til trafala
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur rekið sig á það að íbúum aðildarríkjanna er ekki fyllilega treystandi til að kjósa yfir sig meiri samruna og samþjöppun valds í Brussel. Það olli töfum á samrunanum, þegar ný stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Í stað þess að taka mark á vilja kjósenda, lagði framkvæmdastjórnin fram nýjan sáttmála (Lissabon) sem fól í sér nánast sömu breytingar og stjórnarskráin sem kjósendur höfðu hafnað.
Lissabon sáttmálinn var hins vegar ekki settur í þjóðaratkvæði, heldur var hann samþykktur af þjóðþingum aðildarríkjanna. Aðeins Írland lagði hann í dóm kjósenda sem sögðu nei. Þar sem það var rangt svar, var fræðslan stórefld og Írar látnir kjósa aftur.
Minnkandi þátttaka í kosningum til Evrópuþings
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins hefur farið minnkandi frá upphafi og er nú komin niður í 43%. Áhugaleysi kjósenda skýrist kannski af því hve Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið og kjósendur geta ekki kosið fulltrúa í hana.
Frumkvæðisréttur fólksins er til málamynda
Í Lissabon sáttmálanum kom inn ákvæði (*2) um að ein milljón íbúa Evrópusambandsins geti skorað á framkvæmdastjórnina að leggja fram frumvarp að lögum um tiltekið málefni.
Þess er krafist að undirskriftir safnist frá 0.5% kjósenda, sem koma frá að minnsta kosti þriðjungi aðildarríkja.
Vandinn er sá að það krefst mikilla fjármuna að safna milljón undirskriftum frá svo mörgum ríkjum og engir styrkir eru í boði til þess.
Jafnvel þótt takist að safna undirskriftum þá er samt erfiðasti hjallin eftir, því framkvæmdastjórnin hefur algert sjálfdæmi um hvort hún tekur málið á dagskrá eða ekki.
Þannig söfnuðust meira en 1,2 milljón undirskriftir til stuðnings þeirri tillögu að Evrópuþingið hætti sínu kostnaðarsama flakki milli Brussel og Strasburg. Forsetar Evrópuþingsins létu sér fátt um finnast og höfnuðu því að tillagan yrði rædd í þinginu.
Vaxandi gjá á milli leiðtoga og íbúa
Skoðanakannanir á vegum Evrópusambandsins (*1) sýna vaxandi andstöðu almennings við flutning ákvarðana frá aðildarríkjum til Brussel. Á sama tíma vinna leiðtogarnir að sífellt nánari samruna og miðstýringu. Þetta veit ekki á gott.
Kannanir staðfesta einnig að þeim fer fækkandi sem finnst sambandið standa fyrir lýðræði, hlutfallið lækkaði úr 26% í 19% milli árana 2009 og 2010. Aðeins 50% íbúa telja skilvirkni lýðræðis viðunandi í Evrópusambandinu, en það er lækkun úr 54% frá því ári áður. (*1)
Niðurstaða
Evrópusambandið er ekki lýðræðislegt, allavega ekki í þeim skilningi að þar sé farið að vilja íbúanna eða fylgt góðri venju um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit er staðreyndin sú að Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn sem þróast hröðum skrefum til meiri miðstýringar, þvert gegn vilja íbúanna.
Heimildir:
(*1) Könnun Eurobarometer frá því í Maí 2010, var birt í Nóv 2010
http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb73/eb73_vol1_fr.pdf
(*2) Frumkvæðisréttur:
http://ec.europa.eu/dgs/secretariat_general/citizens_initiative/index_en.htm
10.2.2011 | 11:48
Viðtalið við Lárus Blöndal

Fréttablaðið birti þann 5. febrúar viðtal við Lárus Blöndal undir fyrirsögninni Dómsmál margfalt áhættusamara. Margt er undarlegt í þessu viðtali en það hefst þannig:
Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi kunna að fá bakþanka vegna þeirra vaxtakjara sem þau hafa boðið Íslendingum í Icesave-deilunni. Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefnd Íslands um Icesave, segir það umfram hans væntingar að náðst hafi saman um þau vaxtakjör sem Íslendingum bjóðast í samningnum.Lárus áréttar að íslenska samninganefndin líti þannig á að Bretar og Hollendingar taki þátt í fjármagnskostnaði með Íslendingum. Þeir kynni málið hins vegar þannig heima fyrir að þeir séu að fá endurgreitt lán.Undir þeim formerkjum lítur mjög sérkennilega út að þeir skuli samþykkja að fá endurgreitt lán með 2,64 prósenta vöxtum meðan lán sem Írum bjóðast eru með 5,8 prósenta vöxtum. Þetta getur augljóslega valdið vandræðum og Lee Buchheit [formaður samninganefndar Íslands] hefur haft af því áhyggjur hvernig þetta muni þróast þegar fleiri lönd þurfa fjárhagslega fyrirgreiðslu,
Það er afar sérstakt að Lárus skuli minnast á þá vexti sem Írum bjóðast á láni frá Bretum og Evrópusambandinu. Kjörin á þeim björgunarpakka hafa einmitt verið harðlega gagnrýnd. Raunverulegur fjármögnunarkostnaður er líklega undir 3% en samt eru Írar látnir borga 5,8% í einhverju allt öðru skyni en að bjarga þeim úr vanda.
Ólíkt Icesave þá er ljóst að ef Írar taka lán á þeim kjörum, þá er engin vafi á að þeir skuldi andvirðið. Í Icesave málinu er hins vegar deilt um hvort okkur beri yfir höfuð að ábyrgjast skuld einkabankans. Flestir telja meiri líkur en minni á því að við myndum vinna slíkt mál. Í raun er undarlegt að við skulum fallast á að greiða nokkra vexti þegar skylda okkar er ósönnuð.
Fljótt, fljótt skrifum uppá - áður en þeir sjá að sér
Lárusi og Bucheit tókst að semja um verulega lækkun vaxta og voru aðalrök þeirra að deila mætti um hvort krafan væri lögleg. Ef nokkra vexti ætti að greiða ættu þeir í mesta lagi að endurspegla útlagðan fjármagnskostnað viðsemjenda, ekkert umfram það. Viðsemjendur féllust á þessi góðu rök. En í viðtalinu við Fréttablaðið viðrar Lárus áhyggjur af því að Bretar og Hollendingar kunni nú að sjá eftir því.
Lárus og telur, að eftir því sem vikurnar líði aukist hættan á að Bretum og Hollendingum detti í hug að betra sé að komast út úr málinu frekar en að búa til fordæmi sem aðrar þjóðir gætu vísað í.
Ætli Bretar og Hollendingar hefðu gert slíkan samning ef þeir teldu hann ekki ásættanlegan? Væru þeir ekki nú þegar búnir að koma sér út úr samningnum ef þeir vildu?
Þetta með fordæmisgildi samningsvaxta v. Icesave kröfu, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sé lögvarin, hlýtur að teljast frekar langsótt. Evrópusambandið ákveður vexti í björgunaraðgerðum á pólitískum grundvelli þar sem allt önnur sjónarmið ráða ferð og Icesave skiptir þar engu máli.
Annar snúningur ekki í boði?
Lárus er svartsýnn á að hægt sé að ná betri samningi.
Það kæmi mér mjög á óvart ef Bretar og Hollendingar væru tilbúnir til að setjast niður aftur,
Það er eflaust rétt hjá Lárusi að samninganefndirnar hafa lokið sínu starfi og hafa því ekkert fleira um að ræða að óbreyttu. Það þýðir hins vegar ekki að þjóðin getir ekki sett skilyrði fyrir sínu samþykki.
Lárus telur að ef Alþingi samþykki ekki samninginn muni viðsemjendur fara dómstólaleiðina. Það getur reyndar vel verið, enda standa þeir þá ekki frammi fyrir öðrum valkosti. Lárus gleymir alveg þeim möguleika að bjóða viðsemjendum okkar upp á einhvern valkost við dómstólaleiðina.
Það sem vantar: Valkostur fyrir Breta og Hollendinga
Samninganefndin gerði sitt besta en niðurstaðan er samt óásættanleg fyrir Íslendinga. Líklega átti samninganefnd viðsemjenda erfitt með að hemja sig í kröfunum, en það þýðir samt ekki að yfirvöld í Bretlandi og Hollandi vilji halda niðurstöðu nefndarinnar til streitu. Samninganefnd er eitt og yfirvöld annað.
Það er óhjákvæmilegt að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en núverandi samningsdrögum verður að öllum líkindum hafnað ef þau verða lög fyrir þjóðina. Ef Alþingi vill í raun vinna að lausn Icesave deilunnar á það tvo kosti.
- Beita landsmenn hræðsluáróðri og blekkingum í þeirri von að þeir samþykki vondan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða
- Setja fyrirvara við samninginn sem gerir áhættuna viðráðanlega og líklegt væri að landsmenn samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Verði leið 2. farin munu Bretar og Hollendingar hafa samþykktan samning í höndunum - góðan valkost við dómstólaleiðina. Það er auðvitað ekki víst að þeir myndu fallast á útkomuna, en það er alveg eins líklegt. Þeir gætu líka prúttað eða farið hina margumræddu dómstólaleið sem er þó ólíklegast.
Ef þeir velja dómstólaleiðina er það samt ekki endanleg niðurstaða. Dómsmál tæki langan tíma og mörg tækifæri gæfust til að taka upp viðræður á ný.
Ef við töpum málinu, sem er ólíklegt, er heldur ekki víst að við töpum því illa. Minnstar líkur eru á slæmu tapi.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)