10.9.2009 | 17:16
Er lýðræði á Íslandi?
Ef það kallast lýðræði að setja á svið gjörning þar sem kjósendur setja stafinn X við framboðslista á fjögurra ára fresti en hafa samt ekki minnstu áhrif á afdrif mála, þá er lýðræði á Íslandi. En það er langt frá því að vera fullkomið.
Sigurvegarar kosninga fá umboð til að stýra landinu. Þeir virðast geta notað umboðið til að þverbrjóta gefin kosningaloforð og í raun farið beint gegn vilja kjósenda. Stjórnvöld fá frítt spil í allt að fjögur ár nema gerð sé bylting í millitíðinni.
Kjósendur hafa fá úrræði önnur en byltingu sem er mikið vesen. Þeir láta því frekar óstjórnina yfir sig ganga.
Þetta form lýðræðis hefur eflaust þótt mikið framfaraskref á sínum tíma. En það er óralangt síðan og við búum nú að allt öðrum möguleikum tæknilega. Hvers vegna hefur þá lýðræðið staðið í stað allan þennan tíma?
Þeir sem bíða eftir því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að því að gera lýðræðið eitthvað virkara geta búið sig undir að bíða mjög lengi. Stjórnmálamenn vilja meiri áhrif, ekki minni. Enda hafa ekki verið gerðar neinar umbætur til að gera fyrirkomulagið lýðræðislegra, ef eitthvað er, þá hefur valdið færst fjær kjósendum.
Þetta gamaldags lýðræði hefur ekki reynst þjóðinni sérlega vel. Stjórnvöld hafa alla tíð legið undir ámæli fyrir hagsmunapot, samkrull við valdaklíkur og sérhagsmunaöfl sem vilja skammta sér sérstöðu og auðæfi sem auðvitað koma frá þjóðinni sjálfri. Nægir að nefna sambandið, kolkrabbann og síðast en ekki síst bankana.
Núna eru stjórnvöld að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Milljarðaskuldir fyrirtækja eru skrifaðar niður, reglurnar eru óljósar og upplýsingar um hverjir fá hvað afskrifað eru algert trúnaðarmál. Hér er mikil hætta á ferðum. Þjóðin þarf að vita hvað er að gerast.
En ríkisstjórnin hefur öll völd og hún notar þau óspart. ESB og Icesave voru bókstaflega keyrð í geng þvert á vilja þings og þjóðar. Stjórnin þverneitaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort sótt yrði um inngöngu í annað ríkjabandalag. Endanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verður svo aðeins ráðgefandi fyrir þingið. Fleira mætti nefna í sama dúr, niðurstaðan er að þjóðin hefur engin völd.
Sættir þjóðin sig við svona lýðræði?
Vonandi ekki, enda engin ástæða til. Við erum nefnilega í ágætri aðstöðu til að þróa lýðræðið á næsta stig. Þjóðin er lítil, vel menntuð og tæknivæðing með því besta sem gerist. Við getum vel breytt þessu til betri vegar ef við bara nennum því.
Nú þegar eru nokkrir hópar af dugnaðarforkum byrjaðir að vinna að endurbættu lýðræði. Ég vona að þeim vinnist verkefnið hratt og vel. Hvet alla til að leggja þeim lið.
Lýðræði er ekki raunverulegt nema kjósendur sjálfir ráði því hvort þeir taka afstöðu til einstakra mála eða hvort þeir láta kjörinn fulltrúa sinn taka ákvörðun fyrir sína hönd.
Meira:
http://www.lydveldisbyltingin.is
http://www.skuggathing.is/
http://www.lydraedi.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hefur þú velt því fyrir þér hver fylgist með úrslitum prófkjöra hjá flokkunum? Þar er nefnilega valdaránið framið.
Anna María (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 20:08
Auðvitað sættum við okkur ekki við svona gervilýðræði. Auðvitað höldum við áfram að breyta samfélaginu en það gerist ekki nema VIÐ komum kröfunni áfram og höldum vöku okkar.
kv, ari
Arinbjörn Kúld, 10.9.2009 kl. 22:13
Frosti, það er engin leið að ganga í ESB nema breyta stjórnarskránni og um það verður að sjálfsögðu kosið í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur aldrei staðið neitt annað til. Ekki láta bullmálflutning Sjálfstæðisflokksins villa þér sýn, það var aldrei heil brú í honum enda var hann bara undansláttur til að gera mönnum mögulegt að segja nei við aðildarviðræðum (sem flokkurinn hafði áður gefið í skyn að hann ætlaði í, og boðaði til landsfundar með Evrópuþema, sem aldrei varð úr).
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.9.2009 kl. 23:17
Fulltrúarlýðræði, snýst í raun og veru um, að framkalla það ástand, að þeir sem hafa áhuga á völdum, þurfi að keppa um þau völd með þeim hætti, að sannfæra hópa almennings um að kjósa sig eða þau samtök sem þeir tilheyra.
Þetta er í raun og veru aðferð, til að deila völdum á milli aðila, sem hafa áhuga á að öðlast völd - annars vegar - og - hins vegar - nægilegar bjargir til að koma sér á framfæri.
--------------------------------------
Við verðum að muna, að hagsmunir allra skipta máli, ekki þó jafnt, en þó allra einhverju.
Það þarf því að taka tillit til hagsmuna, því annars er hætta á að þeir segi sig úr lögum við samfélagið.
Að sjálfsögðu, er hættulegra að aðilar sem ráða yfir miklum björgum, taki sig til að grafa undan samfélaginu, með virkum hætti, en ef aðilar sem hafa lítið á bak við sig, gera slíkt.
Þannig, er það, að ekkert fyrirkomulag, getur mögulega virkað, þ.s. tilraun væri gerð til að koma á fullkomu jafnræði, sbr. hina útópísku hugmynd um sæliríki kommúnista.
Samfélagið, verður því alltaf miskipt, sumir verða alltaf áhrifameiri en aðrir; og ekkert fyrirkomulag, getur mögulega virkað, sem gerir annað en að, taka meira tillit til þeirra sem hafa yfir miklmum björgum að ráða, en þeirra sem hafa lítið.
------------------------------
Þetta þýðir þó alls ekki, að ekki sé mögulegt, að bæta núverandi fyrirkomulag, og færa það nær því að vera lýðræðislegt.
Mér líst persónulega, mjög vel á að taka upp Svissneskt þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag, og þá að sjálfsögðu, með bindandi þjóðaratvkæðagreiðslum.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 11.9.2009 kl. 01:04
Íslenzkt lýðræði, eins og Fjórflokkurinn hefur skipulagt umgjörð þess, er afar ófullkomið. Jú, það virkar í sambandi við forsetaembættið, en jafnvel þar hafa peningarnir oft sín áhrif, m.a. sá auður sem pólitíkusar hafa hlaðið upp sem hálfgerðir lénsmenn ríkisjötunnar, og síðast keyptum við þar köttinn í sekknum.
En kosningalöggjöfin er stórgölluð, sem og kjördæmaskipanin. Skipting Reykjavíkur er að mínu mati glæpur til þess gerður að koma í veg fyrir uppgang smárra hreyfinga. Kem betur að því efni síðar. En þarfur er pistillinn, Frosti.
Jón Valur Jensson, 11.9.2009 kl. 10:36
Vestrænt lýðræði byggir á þrískptingu valds: framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Hugmyndin er að þessir þríliðir eru óháðir og samkeppni þeirra útilokar
söfnun valds á einn hóp. Þetta hefur ekki orðið reynslan.
Á Íslandi er reynslan sú að framkvæmdavaldið (ráðherravaldið) dómínerar
löggjafarvaldið (Alþingi). Dómsvald á Íslandi er veikt og algerlega háð
framkvæmdavaldinu, lagabálkur er frumstæður og honum ábótavant, hefðir fyrir sjálfstæði dómara eru engar, etc., etc. Á Íslandi er nánast einveldi, einveldi ráðherravalds og þeirra klíka sem á bak við það eru. Þetta vald er stikkfrí frá réttvísinni gegnum bæði vöntun á lögum, en einnig í skjóli laga um bankaleynd, meiðyrði, þagnarskyldu, et.c, etc.
Raddir eru uppi um breytingar á lögum til að gefa löggjafarvaldinu meira vægi og færa vald til borgaranna s.s. gegnum almennar kosningar um málefni. Ég tel þetta aldrei verða effektíft og hugsanlega gagnvirkt. Ég aðhyllist prinsippið um þrískiptingu valdsins og vil gera það virkara. Fyrst og fremst vil ég styrkja dómsvaldið.
Dómsvaldið styrkist með setningu nýrra laga um fjármögnum þess óháða framkvæmda og löggjafarvaldi, ráðningu (og afráðningu) dómara s.s. með kosningu a.m.k. til lægri stiga og stjórnlagastigi þar sem meint brot á stjórnarskrá fá meðferð. Mest um vert er að setja löggjög sem afnemur meiðyrði og bankaleynd að mestu, verndar flautublásara, kveður á um skyldur þeirra sem með fjárráð og yfirvald fara og rétt neytenda, borgara og fjárfesta til upplýsingar, etc., etc.
Það er hægt að storma niður á Austurvöll með potta og pönnur. Það má líka klína skyri á Alþingishúsið, jafnvel taka hús á Alþingismönnum og konum. En hin raunverulega bylting á Íslandi og árás á ríkjandi spillta valdaskipun gerist gegnum setningu laga og virkjun dómsstóla.
Við þurfum ekki meira vald til kosinna fulltrúa. Við þurfum meira vald til hins almenna einstaka borgara, sem gerist gegnum dómskerfið.
Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:01
Hugmyndin um þrískiptingu valdsins, er að valþættirnir þrír skarist, og þannig tempri hvorn annan.
Alþingi er mun valdameira en framkvæmdarvaldið, enda starfar það síðarnefnda í skjóli þingmeirihluta. Löggjafinn er kosinn, og hann fær síðan að velja framkvæmdarvaldið þ.e.a.s. ráðherra.
Dómsvaldið hér er óháð hinum valdþáttunum, og vel það. Hvað er það að "virkja dómstóla", þeir eru opnir öllum (ólíkt því sem myndi gerast væri dómarar kosnir, og því hræddir við að taka á óvinsælum málum).
Hammurabi, 11.9.2009 kl. 16:26
Takk fyrir góðan pistil sem endranær.
, 12.9.2009 kl. 11:45
Fínn pistill.
Dæmin um ESB og Icesave eru skýr og þau gleymast ekki. Þar voru gamlir stjórnmálamenn að endurtaka gömul þekkt leikatriði. Leikatriði sem hafa viðgengist á Íslandi lengi og eru hluti af vandamálin - ekki lausninni.
Þar fara formenn stjórnarflokkanna fremstir í flokki eins og formaður Samfylkingarinnar, og formlegur leiðtogi Íslendinga, fremstur í flokki. Jóhanna sagði m.a. við upphaf Icesave umræðunnar að stjórnin þyrfti ekkert á stjórnarandstöðunni að halda til að fá stimil Alþingis - fyrir samningi sem allir sáu síðan að var stórhættulegur og var breytt eftir mikil átök.
Framkvæmdavaldið ætlaði sér að fá stimil Alþingiis án umræðu og meira segja án þess að leggja nauðsynleg gögn fram. Sem betur fer tókst að lágmarka skaðann. Það var tæpt að það tókst að afstýra stórslysi.
Lærdómurinn af ESB og Icesave er að það þarf breytingu á stjórnarskrá og hugafari. Núverandi stjórnvöld eru af gamla skólanum og munu ekki vilja breyta því sem breyta þarf - eins og dæmin sanna.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 12:54
Ekki að það komi á óvart en Vilhjálmur Þorsteinsson bloggar hér og sem fyrr tekur að sér að vera e-r málpípa framkvæmdavaldsins. Hann gefur föðurleg ráð í anda hins alvitra og segir:
".. ekki láta bullmálflutning Sjálfstæðisflokksins villa þér sýn, það var aldrei heil brú í honum enda var hann bara undansláttur til að gera mönnum mögulegt að segja nei við aðildarviðræðum ... "
Er það undansláttur að hafa aðra skoðun en framkvæmdavaldið um nálgun og geta kosið um slíkt? Er það bull þegar stór hluti Alþingis vill aðra leið en framkvæmdavaldið? Það að geta kosið með eða á móti aðildarviðræðum, þó svo að framkvæmdavaldið vildi það ekki, er einmitt það sem þarf. Við þurfum sjálfstætt Alþingi sem framkvæmdavaldið hefur ekki í vasanum. Slíkt er ekki bullmálflutningur. Bullið er annars staðar.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 13:27
Jón, ESB og Icesave eru einmitt tvö góð dæmi um sjálfstæða ákvörðun löggjafarþingsins. Í hvorugu málinu var kosið eftir ströngum flokkslínum stjórnar vs. stjórnarandstöðu, heldur voru mörg dæmi um hið gagnstæða, sem er bara mjög gott. Ísland má gjarnan færast í átt til virkara þingræðis, sbr. Danmörku þar sem iðulega sitja minnihlutastjórnir. Það eina sem þarf til er hugarfarsbreyting, það þarf ekki endilega stjórnarskrárbreytingu til.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.9.2009 kl. 19:35
Frosti þú fylgist nú ekki með. Var það ekki minnihlutastjórn VG og Samfylkingar sem lögðu fram tillögu á þingi um að aðeins þyrfti 15% þjóðarinnar til þess að ná fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir kosningarnar í apríl fengu þessir flokkar meirihluta á Alþingi og því auðvelt að ná þessu þjóðþrifamáli fram. Fyrsta málið sem ríkistjórnarflokkarnir settu fyrir þjóðina var hvort sækja ætti um aðild að ESB. Þjóðaratkvæðagreiðslan gekk svo vel að ákveðið var að bera næsta stórmál undir þjóðina en það var Icesave samningurinn. Á þennan hátt vill ríkisstjórnin sýna vilja sinn til þess að virða vilja þjóðarinnar, enda lýðræðið sett á oddinn.
Sigurður Þorsteinsson, 14.9.2009 kl. 21:14
Ég þakka þér fyrir ágætan pistil Frosti. En það hefur lengi verið í gangi umræða um þessi mál. Þessar slóðir sem þú setur inn eins og lýðveldisbyltingin og lýðræði eru búnar að vera til síðan löngu fyrir síðustu kosningar. Reyndar held ég að ég fari rétt með að allt hafi farið af stað hjá þeim á fullu rétt eftir hrunið.
Það hafa verið allskonar umræður í gangi. Og sitt sýnist hverjum.
Einnig mætti skoða bloggið mitt:
hreinn23.blog.is og skjalið "Okkar Ísland"
Hér er 1.03 af "Okkar Ísland" skjalinu í Word .doc (skjalið í heild með viðbætum og nýjum hugmyndum á réttum stað)
http://www.mediafire.com/?ndlrvyyzjyn
Hér er 1.03 af "Okkar Ísland" skjalinu í nýrra Word .docx skrá (skjalið í heild með viðbætum og nýjum hugmyndum á réttum stað)
http://www.mediafire.com/?2yego20ndmz
Guðni Karl Harðarson, 15.9.2009 kl. 18:39
Góður pistill Frosti.
ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB - NEI við Icesave
Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is
http://fullvalda.blog.is/blog/fullvalda/
Ísleifur Gíslason, 18.9.2009 kl. 13:32
Í EU mun vera stofnannalýðræði með almennu sýndarlýðræði svo almenningur geti verið sáttur við að velja. Inn í stofnanir veljast menn hins vegar úr hópi yfirgreindra úr bestu skólum EU. Stöðugleiki um fasta hlutfallslega skiptingu á öllum sviðum myndi aldrei nást ef völdin væri í höndum minna greindra.
Valdið 1. Lýðurinn. 2. Lögin. 3 Sameiginlegar framkvæmdir. 4. Dómarar. 5. Leiðtoginn. 6. Fjármagnseigndur sem ráða öllu þegar upp er staðið því allt má kaupa. Eins og dæmin sanna almennt óháð tíma siðmenningarinnar.
Gera 1 að 6 gefur jafna valddreifingu og minnkar vægi 2 , 3, 4, 5.
Júlíus Björnsson, 19.9.2009 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.