25.8.2009 | 00:19
11 ástæður fyrir þingmenn til að hafna ICESAVE
Hér eru tíundaðar nokkrar af fjölmörgum ástæðum fyrir alla þingmenn til að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave samninginn.
1. Það er ekki lagaskylda að veita ríkisábyrgð
Tryggingasjóður er sjálfseignarstofnun og það stendur hvergi í lögum að hún skuli hafa ríkistryggingu. Íslensku lögin um tryggingasjóð innistæðna voru innleidd á Íslandi skv. tilskipun Evrópusambandsins og þeim framfylgt eins og átti að gera. Æðsti dómstóll sambandsins, Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dómi 222 árið 2002 að ekki megi ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
2. Það er ekki siðferðileg skylda þjóðarinnar að axla skuldir einkabanka
Íslenskur almenningur var síst af öllum einhver gerandi í útrás og hruni Landsbankans. Eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig ekki en það á líka við um eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Hollandi.
Skattar af innistæðum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi runnu til þessara landa. Innistæðurnar voru fjárfestar að mestu í Breskum og Hollenskum fyrirtækjum.
Innistæðueigendur voru ekki grunlausir, þeir máttu vita að háum vöxtum fylgir alltaf meiri áhætta.
Bresk stjórnvöld sköpuðu Landsbankanum (og Íslensku þjóðinni) gríðarlegt tjón með setningu hryðjuverkalaga.
3. Hótanir eru ótrúverðugar enda höfum við ekki brotið nein lög
Bretar og Hollendingar eiga ekki að komast upp með að kúga okkur með hótunum einum saman. Það er allt of ódýr sigur. Látum þá standa við hótanirnar og sjáum hvort alþjóðasamfélagið styður í raun ólögmæta kúgun á smáþjóð.
Kynnum málstað okkar, fjölmiðlar heimsins munu hafa mikinn áhuga á honum.
4. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Mikið er gert úr því að fjármálaráðherrann sé þegar búinn að undirrita samninginn. Íslensk stjórnvöld verði því ómerk orða sinna ef Alþingi samþykkir ekki ríkisábyrgðina. Þetta er auðvitað rangt. Viðsemjendur okkar gera sér einmitt fulla grein fyrir því að samningurinn tekur ekki gildi án samþykkis Alþingis.
Fjármálaráðherra getur ef hann telur þörf á beðið viðsemjendur og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sagt af sér. Það er ekki of seint.
5. Við getum ekki fengið verri samning þótt við semjum upp á nýtt
Fjölmargir lögfræðingar og ráðgjafar, bæði innlendir og erlendir, hafa fært vönduð rök fyrir því að Icesave lánasamningurinn sé meingallaður og óþarflega ósanngjarn í garð Íslands. Það sé mjög nauðsynlegt að semja upp á nýtt og lítil hætta á að útkoman yrði verri en sú sem nú liggur fyrir.
6. Fyrirvararnir eru haldlausir við borgum samt
Sú leið hefur verið reynd að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Það hefur verið stórundarlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana berjast af heift gegn því að settir séu fyrirvarar sem eitthvað bit er í. Maður hefði haldið að það væri hlutverk Breta og Hollendinga.
Fyrirvarar við ábyrgðina breyta því miður ekki samningnum sjálfum sem er jafn meingallaður eftir sem áður. Samningurinn bannar einmitt alla fyrirvara við ábyrgðina og nú er talinn vafi á að þeir haldi fyrir breskum dómstólum.
Jafnvel þótt fyrirvararnir haldi þá má ekki gleyma því að við munum borga megnið af fjárhæðinni þrátt fyrir að okkur beri engin skylda til þess samanber lið 1.
Fyrirvörunum hefur verið lýst sem "tærri snilld" en fyrirvarinn um að ekki skuli greitt nema hagvöxtur sé góður tekur alls ekki á þeim möguleika að hér getur orðið góður hagvöxtur án þess að hér sé nokkur afgangur af viðskiptum við útlönd. Þá munum við ekki eiga gjaldeyri til að greiða af samningnum. Krónan mun falla.
Ekki er heldur skýrt hvað verður um eftirstöðvar lánsins árið 2024. Svo er eitthvað haldlaust orðagjálfur um að aðilar skuli ræða saman ef kemur í ljós að ekki var skylt að ríkistryggja tryggingasjóð innistæðna.
Þingmenn eru að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að Bretar og Hollendingar muni láta hundruð milljarða af hendi til Íslands í teboði. Fyrirvarar verða að vera skýrir annars eru þeir marklausir.
7. Við getum ekki borgað
Fyrst hélt ríkisstjórnin því fram að skuldbindingin yrði í versta falli 30-100 milljarðar. Síðan hefur komið í ljós að líklega gæti talan orðið allt að 1000 milljarðar með vöxtum. Ríkisstjórnin situr samt föst við sinn keip, þjóðin skal borga skuldir Landsbankans.
Skuldabyrði þjóðarinnar er mjög mikil nú þegar, en verði Icesave bætt við þá eru þetta orðnar drápsklyfjar sem þjóðin mun ekki rísa undir. Landið verður þá skuldaþræll. Allur arður af auðlindunum mun renna til erlendra lánadrottna, Breta og Hollendinga um ókomin ár. Þær þjóðir eru reyndar ekki óvanar því að halda nýlendur.
8. Krónan mun veikjast, lánakjör versna og fjárfestar forðast landið
Eftir því sem líkur hafa aukist á því að Icesave skuldin verði samþykkt því meira hefur krónan veikst. Ástæðan er sú að ríkið mun þurfa að selja 1000 milljarða af krónum til að kaupa erlendan gjaldeyri. Þetta er ótrúleg fjárhæð og þetta mun draga úr styrk krónunnar í mörg ár eða áratugi. Afleiðingin er sú að erlend lán íslenskra fyrirtækja og einstaklinga munu haldast mun hærri en ella til langframa. Tjónið af því mun verða talið í amk hundruðum milljarða.
Lánakjör ríkisins munu að sjálfsögðu versna þegar Icesave skuldin bætist við. Lánshæfi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar mun versna líka enda geta þau ekki verið metin traustari en ríkissjóður.
Efnahagsbati og styrking krónunnar mun því verða hægari og landið verða minna áhugavert fyrir fjárfesta ef Icesave er samþykkt. Þeir munu leita annað.
9. Hærri skattar munu fæla burt gott fólk og fyrirtæki
Verði Icesave samþykkt mun ríkið þurfa að draga meira úr útgjöldum og þjónustu en leggja meiri skatta á fyrirtæki og einstaklinga en annars. Þau fyrirtæki sem geta munu færa sig úr landi, fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi munu stýra hagnaði sínum til landa þar sem skattar eru lægri.
Eignafólk og hálaunafólk mun verða að greiða verulega hærri skatta en ella hefði verið. Ríkt fólk og fólk í hálaunastörfum á auðveldast með að flytjast til annarra landa. Þótt aðeins 5% þjóðarinnar færu úr landi þá er hætt við að 15- 20% af skatttekjum Ríkisins myndu hverfa með þeim.
Hugsanlega er Íslandi mun meiri hætta búin af fólksflótta vegna Icesave en af þeim aðgerðum sem Bretar og Hollendingar haft í hótunum með.
10. Þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, með eða án fyrirvara, verða ábyrgir
Ríkisstjórnin lætur að því liggja að þetta sé allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna og nú sé of seint að gera eitt eða neitt í málinu. Það er ekki of seint. Samningurinn tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgðina, þetta vita Bretar og Hollendingar.
Það er varla hyggilegt fyrir nokkurn þingmann að leggja slíkar drápsklyfjar á þjóð sína án þess að sýnt hafi verið mjög rækilega fram á með óyggjandi hætti að hin leiðin sé mun verri. Kannski er skynsamlegt og rétt að spyrja þjóðina álits fyrst.
11. Það ber að kanna hug þjóðarinnar í svona stóru máli
Það hafa komið fram afar sterkar vísbendingar um að meirihluti þjóðarinnar vilji hafna þessum Icesave samningi og þingmenn ættu að sjálfsögðu að taka tillit til þess í svona stóru máli.
Skoðanakönnun Gallup frá því í ágúst sýndi að 68% þjóðarinnar er á móti því að samþykkja ICESAVE samninginn.
Þótt það teljist ekki vísindaleg könnun, þá má geta þess að á Facebook hafa 16.416 notendur skrifað undir áskorun til forsetans um að staðfesta ekki frumvarpið. Þar er líka hópur sem ber yfirskriftina: "Við neitum að greiða skuldir sem við berum ekki ábyrgð á (Icesave málið)" en í hann hafa skráð sig 37.018 einstaklingar, líklega meirihluti þeirra Íslendinga sem nota Facebook.
Þingmenn og einkum þeir sem eru í ríkisstjórn, verða að rifja það upp fyrir hverja þeir eru að vinna. Þeir hafa ekkert umboð frá þjóðinni til að láta hana axla skuldir einkabanka. Þjóðin mun seint fyrirgefa þingmönnum sem bregðast henni í svona stóru máli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað að senda ICESAVE reikinginn í Valhöll !
Þar er fyrirbæri til húsa sem ber alla ábyrgð á ICESAVE, fyrirbærðið heitir sjálfstæðisflokkurinn ! Í þessu fyrirbæri eru einstaklingar skráðir sem bera alla ábyrgð á ICESAVE !
Gott hjá þér að hafa þetta í huga !
Þú ert ekki félagi í þessum ICESAVE flokki er það ?
JR (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 00:39
Ég er ekki félagi í neinum flokki. Held samt að Samfylkingin beri líka ábyrgð á því hvernig fór, var ekki bankamálaráðherran úr þeim flokki. En fortíðin skiptir í raun engu núna.
Ákvörðunin sem á að taka núna er það sem máli skiptir. Hún þarf að vera rétt. Getum rifist seinna um aðdragandann.
Þingmenn verða að segja nei við Icesave frumvarpinu.
Frosti Sigurjónsson, 25.8.2009 kl. 00:49
"JR" þessi virist ekki vita, að ENGINN HÉR á að borga Icesave-skuldir Landsbankans nema sjálfseignarstofnunin Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem ríkið ber ENGA ábyrgð á, eftir að hann komst á koppinn árið 2000.
Telji einhver, að Fjármálaeftirlitið eigi að bera þarna ábyrgð (umfram t.d. fjármálaeftirlit Breta og Hollendinga, sem áttu nú að hugsa vel um hagsmuni þegnanna þar!), þá er því til að svara, að þá væri eins hægt að segja, að Fjármálaeftirlitið ætti að bera ábyrgð á töpuðu fé íslenzkra lífeyrissjóðs-eigenda og hluthafa í bönkum og öðrum fyrirtækjum! Þessi leið til að tala um hlutina er einfaldlega loðin þvæla, – við eigum að binda okkur við það eitt, hvað telst bein peningaleg ábyrgð stofnana, fyrirtækja, ríkis og þjóðar, og þá er alveg ljóst, að það er ekki fyrir hendi nein lagaskylda fyrir okkur til að borga Icesave-skuldir einkabanka.
Frábær samantekt hjá þér, Frosti. Kærar þakkir, og ég vona, að sem flestir mæli með þessu við þingmenn. Hér eru netföng þeirra allra:
atlig@althingi.is, alfheiduri@althingi.is, arnipall@althingi.is, arnij@althingi.is, arnithor@althingi.is, asbjorno@althingi.is, asmundurd@althingi.is, arj@althingi.is, birgir@althingi.is, birgittaj@althingi.is, birkir@althingi.is, bjarniben@althingi.is, bgs@althingi.is, bjorngi@althingi.is, einarg@althingi.is, gudbjarturh@althingi.is, glg@althingi.is, gudlaugurthor@althingi.is, gudmundurst@althingi.is, gunnarbragi@althingi.is, helgih@althingi.is, hoskuldurth@althingi.is, illugig@althingi.is, johanna@althingi.is, jb@althingi.is, jong@althingi.is, jrg@althingi.is, katrinja@althingi.is, katrinj@althingi.is, kristjanj@althingi.is, klm@althingi.is, lrm@althingi.is, liljam@althingi.is, magnusorri@althingi.is, margrett@althingi.is, oddnyh@althingi.is, olinath@althingi.is, olofn@althingi.is, petur@althingi.is, ragna.arnadottir@dkm.stjr.is, rea@althingi.is, ragnheidurr@althingi.is, marshall@althingi.is, sdg@althingi.is, ser@althingi.is, sii@althingi.is, sij@althingi.is, siv@althingi.is, skulih@althingi.is, sjs@althingi.is, svo@althingi.is, svandiss@althingi.is, tryggvih@althingi.is, ubk@althingi.is, vbj@althingi.is, vigdish@althingi.is, thkg@althingi.is, thorsaari@althingi.is, tsv@althingi.is, thrainnb@althingi.is, thback@althingi.is, ogmundur@althingi.is, ossur@althingi.is
Og netfang forseta Íslands: forseti@forseti.is
Jón Valur Jensson, 25.8.2009 kl. 02:09
Ég tek ofan fyrir ábendingum þínum fyrr og nú Frosti. Þú ert alvöru Íslendingur...
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 03:02
það eru margar ástæður firir því EN EIN DUGAR ÞAÐ ER ÞJÓÐIN SEM HEFUR SAGT NEI VIÐ ÞESSU. VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA
Jón Sveinsson, 25.8.2009 kl. 09:02
Hvert orð satt sem hér ritað. Flott samantekt hjá þér Frosti.
Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 09:17
Frábær röksemdarfærsla.
Ekki má heldur gleyma því, að með því að samþykkja ríkisábyrgð á þessa bankaskuld, þá er Alþingi að setja fordæmi fyrir alla einkabankastarfsemi í landinu til framtíðar. Ef og þegar nýjir einkabankar fara í nýja útrás, þá verður búið að festa ábyrgð almennings á Íslandi við þessa banka, um leið og þeir opna fyrsta útibúið erlendis.
Ríkisábyrgðina má ekki samþykkja.
Axel Jóhann Axelsson, 25.8.2009 kl. 09:19
Jón Frímann, það kemur sannarlega á óvart að þú viljir að þjóðin axli þessar Icesave byrðar fyrir Bjöggabankann. Það ber þjóðinni alls ekki að gera. Við þurfum að standa á rétti okkar þótt Bretar, Hollendingar (og Steingrímur) reyni að hræða okkur.
Frosti Sigurjónsson, 25.8.2009 kl. 09:34
Frosti
Hvernig sérð þú fyrir þér að við endurreisum banka og efnahagskerfið á Íslandi ef við neitum að semja um Icesafe skuldna. Hversu langan tíma heldu þú að það taki að koma atvinnulífinu af stað aftur og svo fr.
Þessum spurningum átt þú eftir að svara. Vona að þú hafir svör við þessu því þá er kannski hægt að styðja þín sjónarmið.
Hanna (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 09:52
Takk fyrir þessa athyglisverðu punkta, Frosti.
Vonandi að mönnum takist að koma þessu máli upp úr flokkspólitísku skítkasti og lyfta umræðunni á hærra stig.
Ábyrgð hrunstjórnarinnar er auðvitað mikil, en mér finnst hæpið að hún hafi haft heimild til að skuldbinda ríkið með þessum hætti.
Þrándur (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 10:10
Hanna, verður ekki fyrst að sýna fram á með rökum hvernig það að axla þessa Icesave milljarða gerir það auðveldara að endurreisa hér banka og atvinnulíf.
Frosti Sigurjónsson, 25.8.2009 kl. 10:17
12. Ríkisábyrgðina verður aldrei hægt að fjármagna löglega
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ríkinu aðeins heimilt að innheimta skatta hafi verið lagaheimild til þess þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Þegar greiðsluskylda innstæðutryggingasjóðs vegna IceSave myndaðist var hinsvegar engin heimild í lögum til þess að skattleggja íslenskan almenning fyrir því sem vantar upp á að sjóðurinn standi undir skuldbindingum sínum. Tryggingasjóður innstæðueigenda er sjálfseignarstofnun án ríkisábyrgðar skv. tilskipun EB 94/19 um innstæðutryggingar, og ríkisábyrgð er ekki hægt að setja á afturvirkt nema í trássi við stjórnarskránna. Hvort sem Alþingi vill skrifa upp á ábyrgðina eða ekki, þá er því einfaldlega ekki heimilt að brjóta stjórnarskránna og mun því aldrei geta staðið við slíka ábyrgð með löglegum hætti.
(Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi beiti sér fyrir því að hámarka endurheimtur af eignum Landsbankans og sjá til þess að þær gangi upp í skuldbindingar tryggingasjóðs gagnvart innstæðueigendum.)
Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2009 kl. 11:21
Guðmundur, þetta er frábært ef rétt reynist. Er ríkisstjórnin tilbún til að brjóta stjórnarskrána?
Frosti Sigurjónsson, 25.8.2009 kl. 11:41
Það yrði því miður ekki í fyrsta skipti. Ég ætla hinsvegar ekki að borga þennan skatt ef til þess kemur að hann verði lagður á, ég tel mér einfaldlega ekki bera nein skylda til þess.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2009 kl. 11:46
Svona aðeins til að svara Hönnu, þá vil ég meina að við eigum að setja Icesave á ís. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að borga það sem okkur ber að borga, en að sama skapi eigum við ekki að borga það sem okkur ber ekki að borga. Þetta mál er svo hraðsoðið að það vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort við yfir höfuð eigum að borga. Ef þetta er svona klingjandi klárt, eins og Bretar, Hollendingar og Steingrímur J. vilja meina, þá væri ekkert að því að fara vandlega yfir málið, er það?
Varðandi endurreisnina á bönkunum. Þá vil ég benda á að ríkistjórnin og Alþingi eru á kolrangri leið með það. Að endurreisa bankana á gömlu forsendunum (sem er það sem verið er að gera) er bara ávísun á sama ruglið eftir um 10 - 15 ár. Fari svo að áhættufjárfestarnir erlendu fái svo bankana gefna, þá erum við að horfa uppá megin stoðir alls atvinnulífs í erlendum höndum á næstu mánuðum, skiptir þá engu hvort um er að ræða sjávarútveg, landbúnað eða bara allan iðnað yfir höfuð. Svo er það hugmyndafræðin um að bjarga bönkunum svo þeir geti "bjargað" okkur. Slíkt bull á sér ekki nokkur rök, enda geta bankar ekki "bjargað" neinum. Það eina sem þeir koma til með að gera er að auka enn við skuldir þegar yfirskuldsettra einstaklinga og fyrirtækja. Bankar setja aldrei fjármagn í umferð án þess að lána það gegn vöxtum.
Ég hef bent á leiðir til að bjarga okkur út úr þessu ástandi og mæli til þess að þeir sem virkilega eru tilbúnir til að hlusta á eitthvað annað en bullið í IMF og Steingrími, að lesa það sem ég hef skrifað. Það þarf að horfa út fyrir boxið, koma með nýja hugsun. Ég fullyrði að við getum verið laus úr þessu ástandi á nokkrum mánuðum ef hugmyndirnar sem ég set fram verða teknar í gagnið.
Eitt varðandi lánin sem við fáum ekki ef við höfnum Icesave. Þessi lán á ekki að nota í neina verðmætaskapandi starfsemi. Þau eiga að liggja óhreyfð á bankareikningi í BNA til styrkingar krónunni. Þetta er eins heimsk framkvæmd og hugsast getur. Krónan styrkist ekki nema með aukinni verðmætasköpun og eign. Ef við tökum trilljón dollara í lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða, þá eigum við vissulega þessa trilljón dollara á reikningi, en þegar svo horft er til þess að á baki við þessa trilljón dollara er trilljón dollara skuld, þá er reikningsdæmið einfaldlega svona eign - skuld = 0 þegar svo litið er til þess að vaxtagjöldin eru hærri en vaxtatekjurnar, þá kemur í ljós að við erum komin í mínus strax við móttöku lánanna, þ.e. við erum í neikvæðri eignarmyndun eða því sem kallað er tap. Þegar svo á þetta bætist sú staðreynd að við erum líklegast ekki að standa undir vaxtagreiðslunum, hvað þá afborgununum, þá getur maður ekki annað en sagt jibbí og húrra fyrir heimskunni. þannig að það væri þjóðarblessun ef útlendingarnir vildu ekki lána okkur þennan pening. Dettur mönnum virkilega í huga að það verði eitthvað eftir af lánstrausti til að fá fjármögnun á verðmætaskapandi verkefni!!!
Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 12:05
Gleymdi mér í textanum áðan, en ég ætlaði að þakka Frosta fyrir pistilinn og áhugavert að fá textann frá þýskalandi. Spurning hvort þú sendir hann bara ekki á alla þingmenn, en netpóstföngin þeirra eru á vef Alþingis. Þetta þarf að fara sem víðast.
Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 12:07
Þið eruð alveg útá túni í þessu máli (nema Jón Fríman)
Ísland mun samt borga þó það neiti að borga. Hvað heldur fólk að það kosti að verða vikið úr EES eða að settir verði refsitollar í ísland.
Með samningum er verið að tala um að borga á sem hagkvæmast hátt. Allt og sumt. Það er það sem samningarnir snúast um. Borga á sem hagkvmastan hátt. Nú Sjallar td. ætluðu að borga þetta síðasta haust á mun óhagkvæmari hátt. Engin mótmæli þá. Ekki nein. Sjallar fögnuðu mun óhagkvæmari borgunarskilmálum síðasta haust.
Í rauninni er þetta Sjallaskattur. Skattur sem settur er á vegna óstjórnar og vitleysu eftir einræðistímabil þeirra.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.8.2009 kl. 14:10
Jón Lárusson: Takk fyrir gott innlegg. Það alveg rétt hjá þér að við þurfum ekki þessi AGS lán og við eigum í raun ekki að taka nein erlend lán í þeirri stöðu sem við erum og síst af öllu til að halda uppi fölsku gengi á krónunni. Þannig gæti landið orðið vaxtaþræll að eilífu.
Ómar Bjarki: Okkur verður ekki vikið úr EES þótt við viljum semja betur við Breta og Hollendinga. Við höfum ekki brotið nein EES lög. Það verður engin samstaða um refsitolla á Ísland.
Þú segir að "samningarnir gangi út á að borga á sem hagkvæmastan hátt." Vextirnir eru samt 5.5% sem er afar óhagkvæmt.
Þeir þingmenn sem samþykkja þennan samning eru ábyrgir og geta ekki velt þeirri ábyrgð á neinn annan.
Frosti Sigurjónsson, 25.8.2009 kl. 15:15
Takk fyrir góðann póst Frosti, og fleiri.
Ég reyndar veit ekki alveg hvað telst rétt eða rangt í þessu, ætla ekki að þykjast vita að við eigum ekki að borga, en vissulega fer lítið fyrir rökum þess eðlis að við séum greiðsluskyld. Það er einna helst hræðsluáhróður sem hvetur til að greiða ICESAVE auk stakra blindfullra þingmanna.
Mér finnst ekki vera tímabært að taka þessa ákvörðun, best að setja þetta á ís um stundarsakir, skoða málið eftir ca eitt ár, enda stendur ekki til að greiða neitt af þessu á þeim tíma.
Þórður Bragason, 25.8.2009 kl. 15:46
Hér talar enn forstjórinn Frosti Sigurjónsson, sem hefur allar sínar tekjur í Evrum, og vill að hér sé allt í kalda koli sem lengst, svo hann fái sem flestar íslenskar krónur fyrir evrurnar sínar, og geti lifað hér eins og kóngur...
Lesandi (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 16:24
Góðir punktar Frosti. Sorglegt hvernig þetta mál hefur þróast og hversu máttlaust og algerlega vanhæft fólk ræður för.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 16:31
Sæll Frosti,
Mjög fín samantekt. Það eru allir sammála um að íslendingar eigi að greiða allar skuldir okkar en þetta eru bara ekki okkar skuldir heldur einkafyrirtækisins Landsbankans.
Ríkisstjórnin er undir þrýstingi frá AGS að greiða. Þetta hefur verið staðfest og kemur m.a. fram í nefndaráliti fjárlaganefndar með frumvarpinu um ríkisábyrgð á Icesave.
Ég hef bent á að kostnaður við AGS lánið sé of mikill, meðal annars m.t.t. þessa Icesave máls. Leita verður annarra lausna ef taka á lán á annað borð.
Að auki hef ég bent á að Icesave málið er í kolröngum farvegi. Fara verður fram á að kröfuhafar sendi kröfur sínar fyrst til innheimtu í þrotabúið, þá í Tryggingasjóð innistæðueigenda og ef lágmarksupphæðin hefur ekki innheimst, þá fellur mismunurinn niður enda tóku innistæðueigendur áhættu þegar þeir lögðu peningana sína inn á Icesave þrátt fyrir aðvaranir heima fyrir. Miðað við hvernig ríkisstjórnin, með viðskiptaráðherra í fararbroddi, fullyrðir að eignir þrotabúsins muni fara langt upp í skuldina þá ætti ekki að vera nein hætta á öðru en að kröfuhafar fái lágmarksupphæðina greidda.
ÍSLENSKUR ALMENNINGUR Á EKKI AÐ VERA MILLILIÐUR MEÐ ÞEIRRI ÁHÆTTU OG ÞEIM KOSTNAÐI SEM ÞVÍ FYLGIR.
Það er að auki mjög athyglisvert að fylgjast með því að yfir höfuð eru það vinstri menn sem eru fylgjandi því að gangast í þessar ábyrgðir og hægri menn alfarið á móti (þó þetta mál gangi reyndar þvert á flokka pólitík). Ég velti fyrir mér hverju sætir, af hverju eru vinstri menn svo áfjáðir í að láta AGS, Breta og Hollendinga kúga sig til að borga annarra manna skuldir. Af hverju standa vinstri menn ekki með alþýðunni í þessu máli sem er hróplegt óréttlæti.
Að lokum þetta, það er með ólíkindum hvernig þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar tala. Þeir hika ekki við að klína hruninu á Sjálfstæðisflokkinn þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn þegar hrunið átti sér stað og stýrt viðskiptaráðuneytinu (yfirmaður fjármálaeftirlitsins) sem átti að hafa eftirlit með bönkunum og starfsemi þeirra (m.a. Icesave). Þeir bera svo sannarlega ábyrgð á þessu líka.
Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 17:36
Frosti, það er nú bara eins og Kristinn H. Gunnarsson segir að "vilji Íslendingar ekki hlíta reglum EES-svæðisins verður allur EES-samningurinn í uppnámi."
Það þarf nú engann stjarnfræðing til að finna út að með því að hafna því að fara eftir EES reglum - er Ísland jafnframt að segja sig EES samstarfinu ! Þetta er nú ekki flókið.
Ef að Ísland ætlar að segja: Umm já við ætlum bara að hirða ágóðann af EES en ætlum a gefa frat í skuldbindingar og ábyrgð !
Það auðvitað hefur sínar afleiðingar - enda datt Sjöllum það ekki í hug síðasta haust og sömdu á afar óhagkvæmum kjörum sem Svavar og ndriða tókst að knýja fram betri lausnir á.
Nei, eg skal segja ykkur það, að þessi icesaveumræða í sumar er einhver hin vitlausasta umræða - líklega frá ýðveldisstofnun. Líklega.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.8.2009 kl. 17:57
Ég get alveg verið sammála Ómari þegar hann segir að það þurfi að fara eftir EES reglunum, annars er EES samningurinn úti. Það er hins vegar akkúrat málið að það er ekki komið á hreint hver skylda okkar er í þessu máli. Það eru deildar meiningar um það hvort við þurfum, samkvæmt EES directivinu, að gangast í þessa ábyrgð eða ekki. Sumir segja við eigum að borga á meðan aðrir segja við eigum ekki að borga. Ég er á mót þessari Icesave ábyrgð vegna þess að ég tel málið ekki nægjanlega vel unnið, ég er hins vegar ekki á móti því að við stöndum við þær skuldbindingar sem okkur ber að standa við.
Það sem á að gera, er að taka tíma í að fara yfir þetta mál gaumgæfilega og fá þetta á hreint. Það ætti ekki að taka meira en eitt ár eða svo og ég get bara ekki fyrir mitt litla séð hvers vegna ekki má bíða með að ganga frá þessu þangað til búið er að ganga almennilega úr skugga um að okkur beri að greiða þetta.
Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 18:16
Svo eru það allir þessir hliðarþættir sem falla þarna undir, eins og tildæmis það að samþykkja kröfu Breta um að falla frá öllum kröfum um bætur vegna hugsanlegs skaða sem við höfum orðið fyrir vegna hryðjuverkalaganna. Hvers vegna megum við ekki fara í mál við þá og fá fram okkar rétt í þeim efnum, við eigum hins vegar að borga þeim fullar bætur. Er þetta ekki spurning um gagnhvæmt réttlæti.
Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 18:19
Jón Helgi skrifar "Sorglegt hvernig þetta mál hefur þróast og hversu máttlaust og algerlega vanhæft fólk ræður för". "The Peter Principle- Way things allways go wrong" er bók sem útskírir það sorglega sem þú skrifar um
Annars þurfum við ekki að skilja blekkinguna, það er nóg að vita af henni og lifa með henni.Þannig getum við haft meiri stjórn á okkar lífi.
Better to life whit IT, than in IT
Alexander (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 18:20
Þið eruð allir meira og minna staurblindir á hvað raunverulega er að ske á Íslandi.
Það þarf ekki samsæriskenningarmenn til þess að halda því fram lengur. Það er búið að lyggja morgunljóst fyrir lengi.
Flestir sem hér tjá sig nota Laga og viðskiptafræðiþekkingu sína. (sem er mismikil) en gleyma hinu stóra aðalatriði í málinu.
Nefnilega því að ÞAÐ ER VERIÐ AÐ GERA EFNAHAGSLEGA ÁRÁS Á ÍSLAND.
IMF Er ekkert annað en handbendi þeirra fyrirtækja sem eiga orðið heiminn.
Drullist til að fara að vakna svo ég þurfi ekki að skamma ykkur fyrir heimsku þegar allt er komið hér í rjúkandi rúst.
Að láta þvinga sig til að borga eitthvað sem er augljóst að við ráðum ekki við að borga. Er hrein og bein heimska.
HEIMSKA manna sem þykjst vera að standa við skuldbindingar Íslands ! Frekar skulum við éta svið og fisk og kartöflur í 2-3 ár og eiga landið okkar skuldlaust.
Afar ykkar og Ömmur börðust fyrir þessu landi. Núna ætla margir að gefa það frá sér og er slett sama því þeir fá pítsu í matinn.
OG talandi um tímapressu.
TÍMINN MUN BARA SANNA AÐ REGLUVERKIÐ ER MEINGALLAÐ Í EVRÓPU. ÞESSVEGNA ER ÞEIM SVONA Í MUN AÐ LÁTA OKKUR SKRIFA UNDIR SEM FYRST.
Már (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 18:34
Jón, nei að eru ekki "deildar meiningar"
Þetta "deildar meiningar" er angi af þessari vitleysisumræðu nú í sumar.
Sumari hinnar vitlausu umræðu, eins og kallaðist síðan á Íslandi. Sumarið 2009.
Það eru ekki "deildar meiningar" þó 2-3 sjallafræðingar stundi orðhengils og útúrsnúningahátt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.8.2009 kl. 18:39
Takk fyrir pistilinn Frosti
Ég held að það sé kominn tími til þess að þjóðin krefjist þess að fá að sjá samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Það er eitthvað absúrd við framgang mála sem ég tel að geti skýrst af leynilegu innihaldi hans.
Engin þjóð á að þurfa að búa við leynivaldhafa.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.8.2009 kl. 23:21
Takk fyrir frábæran pistil Frosti.
Ég er búinn að lesa mig í gegnum athugasemdir sem hafa komið og eru flestar mjög góðar.
Ég spyr ykkur fróðari menn sem hér hafa sett athugasemdir inn á færslu Frosta, um hvort Íslendingar geti ekki greitt í þeim gjaldmiðli sem gildandi er hjá hinum íslenska tryggingasjóð? Tryggingasjóðurinn er staðsettur hér á Íslandi og hefur fengið allar greiðslur til sín í Íslenskum krónum.
Á IceSavesamningurinn ekki að snúast um að tryggingasjóðurinn greiði lágmarksskuldbindingar sínar skv. EES reglum, og þá með sínum gjaldmiðli.
Á Alþingi ekki að samþykkja Ríkisábyrgð á þessum samningi, þannig að hann taki gildi? Ríkið og Seðlabanki getur tekið ákvörðun um að prenta peninga einungis til að greiða Bretum og Hollendingum í íslenskum krónum.
Samningur við Breta og Hollendinga (IceSave samningur) á að snúast um það að Bretar og Hollendingar setji þessa peninga ekki í umferð í neinu hagkerfi í heimingum, heldur geymi þá fyrir Íslendinga á sömu vöxtum og þeirra lán bera í fyrirliggjandi samningi hjá Alþingi.
Með sölu á eignum Landsbankans þá koma greiðslur til tryggingasjóðsins( vonandi 70-95 %, eins og sumir halda) og þá geta þjóðirnar farið að gera upp dæmið. Bretar og Hollendingar greiðir íslendingum til baka þá upphæð í Íslenskum kronum sem þeir hafa ávaxtað fyrir Íslenska Ríkið og við greiðum Bretum og Hollendingum þær greiðslur sem þeim ber skv. fyrirliggjandi samningi.
Er þá ekki verið að jafna út alla vexti úr dæminu og eignir LÍ greiða að mestu þær skuldbindingar sem falla á tryggingasjóðinn. Styrking / veiking á milli GENGI PUNDS, EVRU og Íslenskrar krónu gæti mögulega verið hagstætt einhverja þjóðina.
Á IceSavesamningur á milli þjóðanna ekki að snúast um þessa útfærslu á endurgreiðlum til Hollendinga og Breta.
Ég veit að það er einungis prinsippsmál fyrir Breta og Hollendinga, að geta sagt við sínar þjóð, að Samningur hafi verið gerður við Íslendiga um IceSave á viðundandi hátt. Þetta er ekki peningalegt stórmál fyrir Breta, heldur prinsippmál fyrir pólitíkina.
IceSave skuldir Landsbanka Íslands í Bretlandi jafngilda eins árs innheimtu á stöðumælasektum í Bretlandi. (ég held að samanburður sé réttur)
Samningur um IceSave á að snúast um þessa útfærslu eða eins og ég hef reifað málið. Vaxtagreiðslur eiðast á milli landa. (ENGIN VAXTABYRÐI, eða 300 milljarðar hverfa) Eignir Landsbankans greiðir skuldirnar. Íslendingar brjóta ekki LÖGGJÖF ESB varðandi um BLÁTT BANN um RÍKISÁBYRGÐ fyrir tryggingasjóð innistæðueiganda.
Ef allt fer vel gæti verið möguleiki á að Bretar og Hollendingar breyti höfuðstól Íslensku krónanna sem þeir hafa eftir að hafa greitt vextina til Ísland á móti vöxtum í IceSamningi í gjaldeyrisskiptasamning á milli þjóðanna. Semja þarf þá til framtíðar um losun þeirrar upphæðar í langtímaviðskipti.
Allir kátir og ánægðir.
Spurningin er hvort ég sé með einhverjar ranghugmyndir um þessa útfærslu.
Eggert Guðmundsson, 25.8.2009 kl. 23:59
Ég gleymdi að segja að við þurfum að hafna samningnum fyrst og leggja nýja tillögu fyrir ráðamenn Breta og Hollendinga.
Spurningin er einnig hvort það sé ekki rétt hjá mér að tryggingasjóðurinn geti greitt með Íslenskum krónum skv. ESS/ESB löggjöf/reglum.
Eggert Guðmundsson, 26.8.2009 kl. 00:15
Enn ein hugmynd.
Lífeyrissjóðir Íslenskrar alþýðu staðgreiðir til Breta og Hollendinga og ríkið ábyrgist endurgreiðslu til lífeyrissjóðanna með vöxtum. Alltént þá munu vextirnir koma til íslendinga en ekki til Breta og Hollendinga.
Spurningin er hvort lífeyrissjóðirnir treysti ríkinu og endurheimtum úr eignum Landsbankans?
Eggert Guðmundsson, 26.8.2009 kl. 02:08
VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA NEITT, Eggert, sú er staðreynd mála.
Tryggingarsjóðnum ber einum að sjá um það. Honum leyfist að taka lán, en okkur ber engin skylda til að lána honum það. Bankarnir geta það, enda er hann á þeirra könnu. En það er út í hött að tala um, að þeir fari að lána honum marga tugi milljarða, hvað þá meira.
Og jú, það er rétt hjá þér: tryggingasjóðurinn getur greitt með íslenskum krónum skv. ESS/ESB löggjöf/reglum.
Nú er pistill minn, INNOCENT ICELAND WILL RESIST AND RISE AGAIN, kominn HÉR á vef The Economist.
PS. Það kemur mér EKKI á óvart, að EB-málpípurnar Jón Frímann og Ómar Bjarki Kristjánsson skuli fremja pólitískt harakiri á sjálfum sér með því að veitast hér að réttindum og varnarrétti íslenzkrar þjóðar. Aldrei hefur mér sýnzt þeir standa með okkar framtíðarhagsmunum hvort sem er.
Jón Valur Jensson, 26.8.2009 kl. 03:33
Góður pistill og comment, þó með undantekningum: Ómar og Jón Frímann: Þið eruð alveg útá túni í þessu máli eins og Ómar komst sjálfur að orði. Jón Frímann: ". . ljósi þess að fjárfestar hafa yfirleitt forðast lönd sem borga ekki skuldir sínar, og Ísland er ekki í neinni ofur-stöðu sem land." Hvaða skuldir OKKAR ætli hann meini? Og Ómar: "Það þarf nú engann stjarnfræðing til að finna út að með því að hafna því að fara eftir EES reglum - er Ísland jafnframt að segja sig EES samstarfinu ! Þetta er nú ekki flókið." Geta þeir ekki bara lesið EEA/EU directive 94/19/EC? Við lagalega skuldum ekki ICESAVE og lögin segja líka að EKKI MEGI gera ríkissjóði landanna ábyrga fyrir banka-skuldum. Það er líkl. búið að svara þessum 2 mönnum þúsind sinnum og alltaf koma þeir og heimta að alþýða landsins borgi skuldir Bjögganna.
Elle_, 26.8.2009 kl. 09:50
Vefþjóðviljinn orðaði borgunarfíkn ríkisstjórnarinnar mjög ágætlega þegar hann skrifaði:
Geir Ágústsson, 26.8.2009 kl. 16:06
Þetta er það allra ógeðslegasta og ósanngjarnasta sem nokkur ríkisstjórn hefur gert sinni þjóð frá upphafi.
AÐ það skuli eiga samþykkja þessi þrælalög á okkur er til skammar.
Ég er stoltur íslendingur, verði þetta samþykkt þá er ég farinn hér af landinu og mun breyta mínum ríkisfangi þegar ég get það í nýju landi. íslending tel ég mig vera. Ekki ef þetta ógeð verður samþykkt. Þá FOKKJÚ Steingrímur og Jóhanna.
Arnar (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 11:03
Dómur C‑222/02 frá Evrópudómstólnum finnst mér merkilegur fyrir þá sök að gallað eftirlit opinberrar stofnunar með innláns-stofnunum er ekki talið skapa skaðabótaskyldu. Þarna er því gengið lengra í að fría aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins við ábyrgð á innistæðu-trygginga-kerfunum, en ég hafði talið mögulegt.
Dóm-textinn er hafður það flókinn að almenningur á erfitt með að skilja hann, líklega að yfirlögðu ráði. Ég þýddi fyrri-hluta af dóms-niðurstöðunni og bið þá sem nenna að yfirfara þýðinguna, að gagnrýna hana.
Þessi ákvæði 3.2-3.5 varða aðild innláns-stofnana að innistæðu-trygginga-kerfum og greiðsluskyldu til þeirra. Dómurinn segir því að heimilt sé að setja reglugerð um stofnun sem hefur eftirlit með innistæðu-trygginga-kerfum, þannig að eingöngu sé gætt heildar-hagsmuna og að einstaklingar geti ekki krafist skaðabóta þótt þetta fyrirkomulag valdi þeim tjóni. Þetta er minn skilningur, en hver er þinn ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 27.8.2009 kl. 22:47
Dómur C-222/02 fjallar um allt annað en Frosti gefur í skyn að hann geri. Meira að segja er hann að hluta þveröfugur, þ.e. þýska ríkið var dæmt í undirrétti til að greiða innistæðueigendum 20.000 EUR tryggingu með vísan til Evrópureglna þrátt fyrir að það hefði látið undir höfuð leggjast að innleiða innistæðutilskipunina tímanlega og með réttum hætti. Síðan snerist dómsmálið um það hvort innistæðutilskipunin gæfi innistæðueigendum rétt til að krefjast frekari skaðabóta úr hendi þýska ríkisins (þ.e. greiðslu innistæðu umfram tryggingu) vegna þess að eftirlitsstofnanir þess hefðu brugðist.
Öll framkvæmd innistæðutryggingakerfis á EES til þessa hefur snúist um aðeins eitt: að innistæðueigendur fái undantekningalaust trygginguna greidda og engar refjar. Það hefur ekkert ríki komist hjá því að greiða tryggingu og enginn vafi hefur verið tekinn til greina af Evrópudómstólnum. Fordæmi fyrir því að evrópskir innistæðueigendur standi eftir án tryggingar eru því engin.
(Nú munu menn nefna eyna Mön en gleyma því að hún er ekki aðili að EES. Þrátt fyrir það greiddi ríkisstjórn Manar út innistæðutryggingu vegna Kaupþings á Mön. Þeir hafa reynt að sækja þetta til baka til Bretlands en ekki fengið.)
Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 01:00
Hefur nokkur heyrt nefnt, að Hæstiréttur hafi snúið við úrskurði Héraðsdóms ? Auðvitað hefur það oft skeð og eftir dóm Hæstaréttar hefur Héraðsdómurinn enga merkingu. Þetta skeði einmitt með dóm C-222/02, sem fyrst fór fyrir Bundesgerichtshof (undirréttur) og síðan fyrir fullskipaðan Evrópudómstóllinn (European Court of Justice).
Evrópudómstóllinn fjallaði eðlilega um undirstöðu-atriði málsins, en ekki bara um hvort almannahagsmunir á sviði innistæðu-trygginga gengu framar einkahagsmunum, sem var efni dómsmálsins. Þannig komst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu varðandi ábyrgð aðildar-ríkjanna:
Og síðan varðandi almannaheill-einkahagsmuni, sem er eðlilega samhljóða niðurstöðu dómsins:
Dómurinn staðfestir þannig Tilskipun 94/19/EB og allar aðrar yfirlýsingar frá Evrópusambandinu, um að ekki má gera ríki Evrópska efnahagssvæðisins ábyrg fyrir greiðslum úr innistæðu-trygginga-kerfunum. Skylda ríkjanna er hins vegar fólgin í að koma trygginga-kerfunum á legg, í samræmi við Tilskipun 94/19/EB. Þetta var gert hérlendis og það hefur enginn ábyrgur aðili dregið í efa.
Það er áhugavert rannsóknarefni, hvers vegna sumir einstaklingar leggja sig í lima við að rangtúlka augljósar reglur Evrópuréttar. Þessar reglur styðjast við traustar forsendur, sem varða samkeppnisreglur Evrópusambandsins, tryggingafræðilegar staðreyndir og stjórnarskrárbundin fyrirmæli. Samt hamast þessir kjánar við, að réttlæta beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendskum hagsmunum og efnahags-hernaði Breta og Hollendinga gegn Íslendskri þjóð.
Loftur Altice Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 14:42
Á íslensku er hin umdeilda 24. forsenda tilskipunar 94/19 svona (sjá hér):
Í enskunni er notað "may" (ekki t.d. "shall") þannig að verið er að tala að hluta í viðtengingarhætti, þ.e. verið er að lýsa þeirri undantekningu að ríki þurfi ekki nauðsynlega, samkvæmt tilskipuninni, að vera ábyrg fyrir innistæðutryggingakerfinu, ef þau hafa tryggt (með öðrum hætti) að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu. Sem sagt, ríki getur séð til þess að til sé sjálfstætt kerfi sem skilar sínu - t.d. einhvers konar tryggingakerfi sem bankarnir reka sjálfir, hugsanlega með samstarfi við tryggingafélög - og þá gerir tilskipunin ekki kröfu um að ríkið sé þar eftir sjálft ábyrgt fyrir skuldbindingum kerfisins.
Íslenska kerfið stóð hins vegar ekki sjálfstætt undir neinum skuldbindingum sem heitið gat, enda aðeins fjármagnað með 1% innistæðna, mælt eftir á. Ríkið hafði því ekki uppfyllt það skilyrði að koma á kerfi sem tryggði að innstæðueigendur fengju bætur og tryggingu, og var því sjálft ábyrgt. Engar líkur eru á að annað hefði komið í ljós, ef þetta hefði farið fyrir dómstóla. Og málið sem dómur C-222/02 fjallar um er dæmi um það, þar sem þýska ríkið þurfti að standa við tryggingarupphæðina, jafnvel þótt það hefði ekki komið tímanlega á neinu tryggingakerfi whatsoever.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 16:52
Er ekki ótrúlegt hversu langt vinir Breta teygja sig til að snúa út úr málflutningi Íslendinga ? Hér fyrir neðan getum við séð á nokkrum tungumálum að EKKI er heimilt að gera aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins ábyrg fyrir greiðslu innistæðu-trygginganna. Hér er EKKI verið að tala um neina "undantekningu", heldur eru fyrirmælin afdráttarlaus.
Þeir sem vilja lesa meira um Tilskipun 94/19/EB, ætti að líta hingað:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/923672/
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/908389/
Loftur Altice Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 20:46
...EF þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum SEM [...] TRYGGJA AÐ INNSTÆÐUEIGENDUR FÁI BÆTUR og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.
Feita letrið er vitaskuld aðalatriðið.
Orðalagsspurningin snýst um það hvort ríkin séu alltaf ábyrg, þótt þau hafi sett upp nægilega skothelt kerfi án ríkisábyrgðar. Og það er ljóst að ríki sem hafa innan sinna vébanda skothelt kerfi sem greiðir út trygginguna refjalaust, þurfa ekki sjálf að veita slíku kerfi ríkisábyrgð. Um það snýst þessi grein og ekki annað.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.8.2009 kl. 12:41
Ég get ekki betur séð en að það þurfi einmitt dómstóla til að skera úr um hvort Loftur eða Vilhjálmur hafi rétt fyrir sér. Hvers vegna var það ekki gert? Hvers vegna sýndi vinstristjórnin þann undirlægjuhátt að gangast í ábyrgðir fyrir mál sem er jafnumdeilt og þetta er?
Að sjálfsögðu hefði átt að leysa þetta mál fyrir dómstólum eða gera þá kröfu að almenningur á Íslandi gerðist ekki milliliður í innheimtu og greiðlsu þessarar skuldar. Setja átti kröfuna beint í þrotabúið, svo í Tryggingasjóð innistæðueigenda ef lágmaksupphæðin væri ekki greidd.
Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 03:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.