AGS lánin til óþurftar

thorlindurÞórlindur Kjartansson hagfræðingur vakti athygli á því í vikuni að frekari AGS lán væru gagnslítil. Ég mæli sterklega með grein hans "Ólán í láni" sem birtist á Deiglunni. Hér eru nokkrir punktar úr henni:

1. Ef við tökum það ekki mun erlend skuldastaða ríkisins áfram vera mjög góð í samanburði við önnur lönd, þótt innlend skuldastaða verði verulega slæm.

2. Ef við tökum það þá stendur ekki til að nota það til þess að verja gengi krónunnar, þótt vafasamt sé að treysta stjórnmálamönnum til að standast þá freistingu.

3. Lánaloforðið hefur verið notað til þess að þrýsta á Íslendinga að gangast undir hrikalega ósanngjarna samninga um Icesave skuldbindingarnar og með því að fá ekki lánið ættum við að geta rétt úr bakinu í þeirri deilu.

4. Lánaloforðið hefur haft í för með sér að ekki hefur verið unnt að lækka vexti - og í ofanálag hafa verið sett hér gjaldeyrishöft sem virka eins og fótlóð á hina þreyttu fætur íslensks athafnalífs. Hvernig stuðlar það að "endurreisn íslensks efnahagslífs?" má spyrja.

5. Niðurstaða þess að taka lánin munu líklega verða til þess að með einum eða öðrum hætti (til dæmis með innspýtingu fjár í bankana eða gervi-gengishækkunum) mun stærri hluta kostnaðar af gjaldþroti íslensku einkabankanna verða velt af erlendum áhættufjárfestum og yfir á íslenska skattgreiðendur.

Aðspurðir hafa fleiri hagfræðingar tekið undir sjónarmið Þórlinds.

Eyjan.is leitaði álits Jóns Steinssonar, lektors í hagfræði við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og hafði hann meðal annars þetta að segja:

Ég held að það sé alltof mikið gert úr mikilvægi þess að við byggjum upp stóran gjaldeyrisvaraforða við núverandi aðstæður. Eins og Þórlindur bendir á hafa stjórnvöld þráfaldlega tekið fyrir það að þennan gjaldeyrisvaraforða eigi að nota til þess að styðja við gengi krónunnar. En til hvers er hann þá? Jú, hann skapar ákveðið öryggi varðandi ýmsa erlenda fjámögnun á næstu misserum. En hættan er - eins og Þórlindur bendir á - að stjórnmálamenn og/eða Seðlabankinn freistist til þess að sóa honum í vitleysu eins og stórkostleg gjaldeyrisinngrip til þess að halda í falskt gengi.

Í viðtali við Fréttastofu Stöðvar 2 sagði Jón Daníelsson hagfræðiprófessor við London School of Economics meðal annars þetta:

Ef við setum þetta í samhengi, þá eru þessi lán hærri upphæð en allur Icesave-pakkinn. Ef við höfum ekki efni á að taka Icesave á okkur, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að við höfum ekki heldur efni á að eyða þessum peningum í að styrkja krónuna. Þetta vita allir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum.

Gjaldeyrisvaraforði, sem ekki má eyða, hefur engan tilgang.

Hin hlutlausa fréttastofa RÚV náði greinilega ekki sambandi við Þórlind Kjartansson, Jón Daníelsson né Jón Steinsson vegna málsins en tók hinsvegar viðtal við Vilhjálm Egilsson doktor í hagfræði og framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Spurning RÚV virðist hafa verið sú hvort "gjaldeyrisvarasjóður af þessu tagi sé óþarfur eða hafi ekki tilgang". Vilhjálmur gat auðvitað ekki svarað öðru en að betra væri að hafa stóran gjaldeyrisvarasjóð. Sjá umfjöllun RÚV um málið.

Í tilefni af þessu ritaði Ólafur Arnarson, hagfræðingur og MBA pistil á Pressuna og kemst að eftirfarandi niðurstöðu:

Þess vegna er óhætt að fullyrða að við þurfum ekki að ganga frá Icesave og fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum til að byggja hér upp gjaldeyrisvarasjóð.

Sá sjóður verður vitagagnslaus og mun ekkert gera annað en að ala á falskri öryggistilfinningu þeirra, sem ekki skilja alþjóðlega fjármálamarkaði.

Þetta er allt mjög merkilegt því fram til þessa hefur það verið viðtekinn stóri sannleikur að við þurfum að taka gríðarleg erlend lán frá AGS og víðar til að málin gangi upp.

Reynist það á misskilningi byggt þá kallar það að sjálfsögðu á endurmat á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og það tafarlaust. 

Hvernig skyldi ríkisstjórnin bregast við?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þessa stórgóðu samantekt!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 05:38

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta Frosti.  Ég er líka með grein Ögmundar í fréttablaðinu hér í tölvunni minni.  Hún kemur inn á þetta sama.

Þar segir Ögmundur;

Eru þau Steinunn og Þorsteinn sammála Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að þessi þrjú hundruð þúsund manna þjóð þurfi 5,2 milljarða Bandaríkjadala forða, sem kemur til með að kosta okkur upp undir 20 milljarða kr. árlega í nettóvexti? Gæti dugað helmingi minna? Er ef til vill meira um vert í þröngri stöðu að leggja höfuðáherslu á lækkun vaxta og fara hægara í sakirnar með slökun gjaldeyrishafta? Ég sakna þess að fréttaskýrendur reyni að taka þátt í gagnrýninni umræðu og velti vöngum yfir valkostum Íslands.

 

Það sem hryllir mig mest er að ráðamenn að þessum eina manni undanteknum ætla sér að keyra vitleysuna í gegn með góðu eða illu, og hvers vegna?  Ætli þar spili ekki inn í stolt þeirra sjálfra, eins og það skipti nokkru máli fyrir þjóðina þó þeir hafi lofað upp í ermina á sér með að vinna að því að fá alþingi til að samþykkja ríkisábyrgð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.8.2009 kl. 11:02

3 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Góð samantekt. Auðvitað kostar það peninga að taka lán og að taka lán sem eiga svo bara að liggja óhreyfð og ónotuð á einhverjum reikningum, hljómar eins og hagfræðileg fásinna.

Mér þykir gott að heyra að Jón Daníelsson er ekki hrifinn af óþarfa lántökum. Mér hefur fundist eins og að allar þessar lántökur væru til þess eins að þeir sem studnuðu fjárglæfrastarfsemi fyrir bankahrunið gætu haldið áfram að flytja fé úr landi í krafi reglna um "frjálst" fjárhagsstreymitil og frá landinu. Það hefur sýnt sig að það verður aldrei nema í aðra áttina. Því miður getum við ekki gefið íslenskum viðskiptajöfrum, eða auðvisum, æskilegt frjálsræði með fé. Þeir kunna ekki með slíkt að fara og bera eigin hagsmuni í brjósti meira en samkennd með þjóð sinni.

Kannski Steingrímur ætti að hugleiða að segja BLESS við AGS. Hann varaði jú við samskiptum við sjóðinn meðan hann var í stjornarandstöðu, þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart þó hann sæi sig um hönd í því máli.....

Ómar Bjarki Smárason, 10.8.2009 kl. 11:03

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Á hverjum degi birtist nýr spámaður sem ætlar að frelsa okkur undan okinu og við föllum fram í tilbeiðslu. Á morgun kemur annar og svo annar.....

Finnur Bárðarson, 10.8.2009 kl. 14:29

5 identicon

Glæsileg samantekt....er einmitt ekki nauðsynlegt að skoða þetta mál miðað við núverandi kreppuaðstæður á Íslandi og við það breytta efnahagsumhverfi sem er að birtast allsstaðar í heiminum. Á þessu má sjá að leita á til "gamalllra og gildra" ráða um hvað eigi að gera í slíkum aðstæðum.....en nú er einfaldlega ekki sá raunveruleika sem áður var og þessi ráð dugðu eitt sinn vel til.....leita þarf nýrra leiða og nota nýja framtíðarhugsun.

Karen Elísabet Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 17:57

6 Smámynd: Finnur Bárðarson

Mæali með "gömlum gildrum" eins og Karen segir

Finnur Bárðarson, 10.8.2009 kl. 19:02

7 identicon

já ég átti nú við lýsingarorðið gildur...að vera í gildi....en gamlar gildrur er einmitt það sem ríkisstjórnin er nú að hneppa okkur í.

Karen Elísabet Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 19:43

8 Smámynd: Haraldur Baldursson

Finnska leiðin
Þetta minnir á umræðuna um Finnsku-Leiðina....Jón Baldvin vitnaði gjarnan í hana, allt þar til íslensk kona (man ekki nafnið) kom fram og þeytti þeirri þvælu út um gluggan....
Skurðgoð
Það er eins og það komi sífellt fram ný skurðgoð, sem beygja sig þarf og bugta fyrir. Tiltrúin að við þurfum stóran gjaldeyrisvarasjóð er eitt slíkt skurðgoð. Takið eftir að það er engin skýring gefin sem skiljanleg er....það er ástæða fyrir að hún er ekki skiljanleg, það er af því að hún er óskiljanleg

Myndum okkur sjálf skoðanir...við erum ekkert verr til þess fallinn
Látum ekki misvitra menn ráða okkar skoðunum, ef við sættum okkur ekki við svörin og skurðgoðin, fellum þau þá ! Flugfreyjur, jarðfræðingar og jafnvel hagfræðingar virðast ekkert betur til þess fallnir en við hin.

Við borguðum tryggingarnar...en eigum samt að borga skaðann
Annað dæmi um skurðgoð, er Icesave samningurinn. Reglurnar eru skýrar, en umræðunni var stolið. Nýtt skurðgoð var þröngvað inn á okku....nú skyldum við trúa því að við bærum ábyrgð á einkareknum bönkum, jafnvel þó við hefðum greitt með vaxtamun innlána og útlana það fé sem lagt var til hliðar í trygginasjóði (já við borguðum það sjálf). Við áttum því að verða tryggð.

Haraldur Baldursson, 10.8.2009 kl. 20:23

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Haraldur: Þú ert væntanlega að tala um Sigurbjörgu Árnadóttur sem var búsett í Finnlandi þegar kreppan skall á þar og næstu ár á eftir. Hún var m.a. fréttaritari útvarps þar í landi á þessum tíma en er núna búsett á Íslandi og reyndi að ráð íslenskum stjórnvöldum heilt í kjölfar efnahagshrunsins sl. haust með að vara ákaft við „finnsku leiðinni“.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 20:27

10 Smámynd: Haraldur Baldursson

Já Rakel nákvæmlega. Það var mikil þögn sem fylgdi frá ESB-sinnum í smá stund þar til þau áttuðu sig á að það skurðgoð var ekki á stallinum lengur.

Haraldur Baldursson, 10.8.2009 kl. 21:52

11 Smámynd:

Góður pistill og þarfur. Það er skelfilegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin virðist ekki hlusta á nein andmæli við sína fjármálastefnu, hversu vel ígrunduð sem þau eru. Að fá hana til að endurmeta stöðuna virðist jafn vonlaust og að grípa Dettifoss í fötu.

, 10.8.2009 kl. 22:23

12 identicon

já. Fatta núna plottið.  Við endurfjármögnun Landsvirkjun og önnur ríkisfyrirtæki bara með góðum íslenskum krónum! :)

Maðurinn er snilli.

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 23:32

13 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Jósep,

Auðvitað kemur að afborgunum og endurfjármögnun erlendra lána ríkisfyrirtækja. Það ætti að vinna í þeirri fjármögnun tímanlega en það er full langt gengið að taka lán upp á hundruði milljarða núna strax. Kostnaðurinn af því að taka slík lán fyrirfram hleypur á milljörðum og er óþarfur.

Frosti Sigurjónsson, 11.8.2009 kl. 09:48

14 identicon

Þakka þér fyrir þessa grein Frosti, mjög athyglisverð. Gagnrýnin og rökstudd umræða er alltaf af hinu góða og það er skylda okkar að kryfja þessi mál til grunna og spyrja "hvers vegna" í hverju máli en ekki gleypa við því sem matreitt hefur verið ofan í okkur af stjórnvöldum eða spunameisturum þeirra.

Í mínum huga er ljóst að ríkið þarf að taka erlent lán til að greiða fyrir hallarekstur þessa og næstu ára. Að auki þarf að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og það verður að gera með fjárstuðningi ríkisins líkt og Bandaríkjamenn eru að gera. Ég hef fjallað um nauðsyn þess áður, sjá http://mbj.blog.is/blog/mbj/entry/911860.

Ég er hins vegar sammála því sjónarmiði að kostnaður og þau skilyrði sem þjóðinni eru sett við AGS lánið eru algerlega óásættanleg og slík að nauðsynlegt sé að endurskoða þessa leið sem valin hefur verið. Oftar en ekki hafa lán frá AGS dýpkað kreppu hjá þeim ríkjum sem farið hafa AGS leiðina í stað þess að grynnka hana.

Það er athyglisvert í þessu samhengi að skoða hvaða leið Bandaríkjamenn hafa valið til að spyrna við fótum gegn kreppunni. Þeir eru mjög skuldugir nú þegar, en velja að spíta fjármagni inn í atvinnulífið og hafa ekki leitað til AGS. Þær þvinganir sem landið stendur frammi fyrir nú vegna Icesave gera það að verkum að AGS lánið verður að endurskoða, hvað þá ef ekki á að nota það strax. Ísland þarf að skoða rækilega hvaða leiðir eru færar, því nú nokkrum mánuðum eftir hrunið eru eflaust aðrir möguleikar í stöðunni en þeir sem menn höfðu á síðasta ári.

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband