Eftirfarandir grein er eftir Friðrik Daníelsson en mér þótti hún svo áhugaverð að ég varð að skella henni hér inn í heild sinni.
TIL þess að land eða svæði með sérstakan gjaldmiðil geti sameinast öðru gjaldmiðilssvæði þurfa ákveðin skilyrði að vera fyrir hendi.
Hreyfanlegt vinnuafl og ríkissjóður
Vinnuafl verður að vera hreyfanlegt og geta flust milli svæðanna auðveldlega í takt við atvinnuframboð. Eða, í öðru lagi, að launþegar (og þá fyrst og fremst verkalýðssamtök) geti samþykkt kauplækkanir þegar þjóðartekjur minnka. Eða, í þriðja lagi, verða löndin að hafa sameiginlegan sjóð sem flytur fjármagn greiðlega til þess lands innan svæðisins sem verður fyrir efnahagsþrengingum. Ekkert af þessum skilyrðum er uppfyllt hvað varðar Ísland og evrusvæðið. Hreyfanleiki vinnuafls takmarkast af fjarlægð, kostnaði og menningarmun milli Íslands og evrulanda. Kauplækkanir verða ekki samþykktar af stéttarfélögum á Íslandi. Evrópusambandið hefur ekki sambandsríkissjóð (eins og þjóðríki hafa ríkissjóði) sem veitir miklu fé til sinna aðildarlanda. Sömu hagsveiflur
Fjórða og veigamesta skilyrðið, sem eitt og sér mundi duga til þess að tvö svæði geti notað sama gjaldmiðil, er að hagsveiflur svæðanna séu svipaðar. Ástæðan fyrir þessu er að hagsveiflur kalla á aðgerðir í peningamálum gjaldmiðilssvæðisins til að milda áhrif sveiflunnar. Þegar tekjur minnka þarf gengið að lækka svo dragi úr eyðslu gjaldmiðilssvæðisins út á við. Þegar tekjurnar hækka má gengið hækka, lífskjörin batna og hægt að fjárfesta til framtíðar eða draga úr verðbólgu. Þegar eyðsla fer úr hófi fram er hægt að minnka fjármagn í umferð. Þegar kreppa skellur á er hægt að auka fjármagn í umferð; lækka vexti og gefa út peninga til þess að auka viðskipti og atvinnu. Þessar aðgerðir getur hvert land innan sama gjaldmiðilssvæðis ekki framkvæmt fyrir sig heldur verður peningamálastjórnkerfi svæðisins að framkvæma þær. Það þýðir t.d. að einstakt land getur ekki blásið lífi í atvinnulífið af eigin rammleik ef það lendir í efnahagslægð heldur þarf að fá peninga lánaða frá sameiginlegum seðlabanka svæðisins (eða fá fé úr ríkissjóði ríkjasambandsins sem ekki er til í ESB) og steypa landinu þannig í skuld. Peningastjórntækið lykillinn
Peningamálastjórnunin er mikilvægasta hagstjórntæki hvers gjaldmiðilssvæðis og gerir kleift að minnka slæm efnahagsáhrif sveiflna sem oft stafa af óviðráðanlegum breytingum á erlendum mörkuðum eða framleiðsluaðstæðum. Land sem afsalar sínum gjaldmiðli afsalar um leið hagstjórninni og sjálfstæðri efnahagsstefnu. Peningamálastefna ESB byggist á að halda verðbólgu í skefjum frekar en að efla atvinnuþróun. Stöðugleiki í verðmæti útflutnings, og þar með í gengi gjaldmiðils og verðlagi, er ekki hér á landi, hefur ekki verið og verður ekki í nánustu framtíð. Þannig stöðugleiki skapast með fjölbreytni og stærð efnahagslífsins. Sérstakur íslenskur gjaldmiðill hefur aftur á móti gert að verkum að hægt hefur verið að halda útflutningsatvinnuvegunum og þar með almannasjóðum gangandi þrátt fyrir sveiflurnar. Hefði Ísland þurft að nota erlenda mynt hefðu stórir hlutar atvinnulífsins lent í þurrð en erlendir bankar og stórfyrirtæki hirt hreyturnar. Verðbólga ekki það versta
Margir halda að verðbólgan sé rót alls ills. Svo er ekki þó óðaverðbólga sé slæm. Enn aðrir halda að verðbólgan sé gjaldmiðlinum að kenna. Svo er ekki, þar er við hagsveiflurnar og hagstjórnina að sakast. Hafa verður í huga að verðbólga er fylgifiskur uppbyggingar en ekki hemill á hana. Verðbólga getur orðið yfir 20% á ári tímabundið án þess að hafa sérlega neikvæð áhrif á efnahagsþróunina. Það verður áfram meiri verðbólga hérlendis en á evrusvæðinu. Vanhugsuð barátta við hana getur gert mikinn skaða og hefur reyndar þegar gert hér, sbr. háa stýrivexti. Sterkur gjaldmiðill tvíeggja
Upptaka gjaldmiðils stórríkja, eða festing verðgildis þjóðargjaldmiðilsins við hann, hefur gefist illa minni þjóðum með fábreyttari atvinnuhætti og allt aðrar hagsveiflur en stórríki. Argentína festi sinn gjaldmiðil við dollar og fór í þrot. Lettland festi sinn gjaldmiðil við evru og er þess vegna í miklum vandræðum núna í kreppunni. Ísland var aftur á móti með eigin gjaldmiðil þegar kreppan skall á. Það gerði að verkum að útflutningsatvinnuvegir lifa enn vegna þess að verðgildi krónunnar lækkaði (og fyrirtækin fá fleiri krónur til þess m.a. að borga kaupið) og þau geta áfram selt afurðirnar, þrátt fyrir verðfall og sölutregðu, án þess að tapa fé og fara í þrot. Þá fyrst er óyfirstíganleg vá fyrir dyrum ef þau fara í þrot. Þjóðargjaldmiðill
Þátttaka Íslands í myntbandalagi gæti komið til greina í framtíðinni þegar myntbandalög þróast og þegar fjölbreytni atvinnuvega og hagsveiflurnar hér verða líkari því sem gerist í nálægum löndum. Upptaka evru á næstu árum mundi leiða til þess að Íslendingar misstu stjórn á eigin hagkerfi og atvinnuvegina úr höndum sér. Forsenda þess að Ísland verði áfram sjálfstætt og fullvalda er því að það hafi áfram sérstakan þjóðargjaldmiðil. Það þýðir líka að hér verður að vera betri peningamálastjórn en verið hefur síðustu 15 árin, byggð á langtímahagsmunum þjóðarheildarinnar.
Athugasemdir
Ég er eiginlega alveg bit - takmarkanir á hreyfanleika vinnuafls? Það eru 3 tímar héðan til Póllands og það hefur verið gífurlegur hreyfanleiki á vinnuafli undanfarin ár. Menningarmunur á milli okkar og Evrulanda? Stafrófið okkar er latneskt, tungumálið germanskt, trúarbrögðin nánast sömu og í Vestur Evrópu og 90% Íslendinga tala ensku. Ef það er menningarmunur á okkur og Evrulöndum, hverjum erum við þá menningarlega lík? Verkalýðsfélögin eru þegar búin að samþykkja launalækkanir, þ.e. þau hafa samþykkt að fresta launahækkunum sem þýðir að launin fylgja ekki vísitölu, sem þýðir í raun launalækkun. Við erum með helminginn af viðskiptum okkar við Evrulönd og þess vegna er og verður fylgni á milli þessara hagstjórnarsvæða - það hefur aldrei verið skýrar í dag þegar kreppan í Evrópu hefur valdið því að fiskverð hefur hrapað sem veldur auknum samdrætti hjá okkur. Síðan á verðbólgutímum áttunda áratugarins hefur enginn stjórnmálamaður af viti lagt til að fella gengið vísvitandi til að styðja við útflutningsatvinnuvegina. Þeir vita það fullvel að þar með hrinda þeir af stað atburðarás sem þeir hafa enga stjórn á. Þessi rök, sem hafa verið einna mest notuð sem réttlæting fyrir krónunni heldur því ekki vatni. Fullyrðingin um að með Evru hefði stór hluti atvinnulífsins lent í mikilli þurrð: Lítið í kringum ykkur: Stærsti hluti atvinnulífsins er í mikilli þurrð í dag - með krónuna! Það er klaufalega valið dæmið með Lettana og tenginguna við Evruna. Flestir hagfræðingar eru á því að þeir væru í mun verri stöðu án þessarar tengingar.
Kjartan Jónsson, 1.5.2009 kl. 01:37
Frábær grein hjá Friðriki, segir það sem segja þarf um málstað sem er nánast orðinn tabú, nefnilega að það er ekki slæmt heldur gott fyrir litla þjóð með sérstætt hagkerfi að stýra eigin gjaldmiðli.
Jói Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 02:45
Góð grein, klassísk hagfræði og skynsemi. Annað en óraunhæft "gleðipillu"-trúboð ónefndra stjórnmálaflokka.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 10:50
Ég segi eins og Kjartan. Þessi grein er full af rangfærslum, vægast sagt. Ef þetta væru staðreyndir þá væru þjóðir ekki að taka upp sameiginlega mynt og menn ekki að ræða í alvöru aðild Íslands að evrunni.
Það er hreint hlægileg mótsögn hjá greinarhöfundi að telja upp kosti þess að hafa krónuna núna í þessu hruni, til að koma hjólunum af stað aftur með auknu streymi í krónum talið hjá útflutningsgreinunum, vegna veiks gengis. Það að við erum með krónu er einmitt rót þess vanda sem við erum í, án hennar hefðum við ekkert lent í þessu. Stærsti vandinn hér, ásamt því að vera rót bankahrunsins, er að verið var að taka lán í stórum myntum en tekjur voru í krónum. Seðlabanki gat bara prentað krónur. Allan gjaldeyri þarf að kaupa fyrir verðlitla krónu. Stærsti vandi okkar, lang stærsti, er gjaldeyriskreppa. Þetta er því furðuleg grein.
Um 70% fyrirtækja eru að auki skuldsett í erlendri mynt, þær skuldir hafa tvöfaldast á stuttum tíma m.v. tekjur þeirra og því eru þau velflest tæknilega gjaldþrota. Einmitt út af krónunni og falli hennar.
Það að segja verðbólgu nauðsynlega er líka furðulegt. Vestur Þýskaland varð úr algeru hruni eftir stríð að stórveldi, efnahagsundri. Þar var fyrst byrjað að nota sjálfstæðan seðlabanka sem hafði bara eitt markmið, að halda verðbólgu niðri. Nú er það stefna Seðlabanka Evrópu. Þessir hagfræðingar Evrópu eru því skv. greininni bara kjánar sem gera ekkert með stefnu sinni annað en að halda öllu niðri, nema atv.leysi, því er haldið upp skv. rökum greinarhöfundar. Það er heldur ekkert greiðara milli t.d. Grikklands og Finnlands en Íslands og Belgíu. Þetta er furðuleg grein og dæmir sig sjálf. Bara eitthvað hræðslubull. Að ekkert geti vaxið nema með hárri verðbólgu og stórum verðb.skotum? Að stór mynt geti ekki hentað smárri þjóð?
Það er kannski ekki skrýtið að enginn málsmetandi hagfræðingur eða forstjóri virtra fyrirtækja tali svona, heldur þvert á móti benda á nauðsyn evru. Gæti það verið vegna þess að þeir vita um hvað þeir eru að tala en greinarhöfundur ekki?
S.H. (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 11:09
Kjartan og S.H eruð þið semsagt að meina að Samfylkingin er eingöngu að vinna fyrir baugsfyrirtækin og sækir þersvegna svona stíft í ESB af því að þeir skulda svo mikið í erlendum lánum???ekki er það okkur að kenna að þeir komu sér í þessa skuldasúpu!!!væri ekki nær að hugsa um fólkið í landinu en að hugsa um þessi ofurskuldsettu fyrirtæki.Nær væri að hlúa að fyrirtækjum sem skapa atvinnu í landinu og ýta undir skapandi atvinnu.Mjög góð grein eftir Friðrik
Marteinn Unnar Heiðarsson, 1.5.2009 kl. 11:22
S.H. og Kjartan,
Það er mikill misskilningur að "málsmetandi hagfræðingar" tali ekki á sömu nótun og greinarhöfundur. Af umræðunni á hér á eyjunni af dæmi mætti hins vegar ætla annað - samkvæmt því hefur fastgengi enga galla en allar hagfræðibækur sem um málið fjalla útskýra einnig gallana sem greinarhöfundur ræðir. Ef þið tækjuð nú niður ESB gleraugun þá gætuð þið eflaust horft á Evrópu eins og hún birtist. Heimurinn ekki alveg svona svartur og hvítur eins og Samfylkingin boðar. Hér er t.d. hörð gagnrýni, á evrusamstarfið og því spáð hruni, inni á sjálfu Evrópuþinginu.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 11:39
Mjög góð og þörf grein Friðriks inn í umræðu dagsins. Hér er fjallað um málið lið fyrir lið, nokkuð sem ESB sinnar hafa ekki getað gert fram til þessa og rök þeirra innantóm.
Takk fyrir greinina,
Tómas Ibsen Halldórsson, 1.5.2009 kl. 12:48
Það er alrangt í þessari grein að halda því fram að verðbólga sé fylgifiskur uppbyggingar. Verðbólga er ekki orsök heldur afleiðing. Afleiðing þenslu á peningamagni í umferð. Að segja það að 20% verðbólga sé ekki endilega slæm finnst mér sína það að viðkomandi hefur ekki skilning á peningahagfræði. Verðbólga er eignaupptaka/dulin skattlagning. Þeir aðilar í samfélaginu sem bera ábyrgð á aukingu á peningamagni eru stjórnmálamenn (til að tryggja sér endurkjör) og bankamenn (með útlána margföldun til að tryggja sér óréttlátan hagnað). Þessa sérhagsmuni niðurgreiðir síðan almenningur í formi verðbólgu. Í þessu sambandi má nefna að 2,5% verðbólgumarkmið seðlabankans er algjörlega galið ef haft er í huga á á 10 árum er um að ræða nærri því 30% eigna- og kaupmáttar rýrnun hjá almenningi. Evra og dollar hjálpa okkur ekki, þar er ekki síðri eginaupptaka að eiga sér stað. Það eina sem hægt er að gera til að reisa við krónuna er að tengja hana við raunveruleg verðmæti. Það er ekki hægt að reka gjaldmiðil í neinu landi til lengdar sem ekki er tengdur raunverulegum verðmætum. Þess vegna er nú svo komið að skilgreina krónuna sem ákveðna þyngd af gulli er það eina sem hægt er að gera til þess að auka tiltrú fjárfesta á henni. Að auki þarf síðan að setja endapunkt við frekari aukingu á peningamagni um alla framtíð. Þetta mun í einni svipan strykja gengið og til framtíðar mun verðbólga hverfa.
Egill (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 17:19
Ég verð að taka undir gagnrýni þeirra Kjartans og S.H.
Þessi umræða um að hagkerfin þurfi að sveiflast í sama takti og vinnuafl að vera sveigjanlegur ef gjaldmiðillinn á að vera sameiginelgur, var í hæstum hæðum fyrir 20 árum síðan, þegar það var rætt í pólitík og fræðiheimi í ESB-löndum hvort upptöku Evru væri skynsamleg. Það má gefa mótrök sem sýna á einfaldan hátt hversu afstæð þessi sjónarmið eru:
Ef þessi krafa er haldin uppi án tillits til landamæra þá hefðu flest lönd, alla vega þau stóru, átt að hafa fleiri gjaldmiðla, því vinnuaflið er frekar ósveigjanlegur t.d. í Þýskalandi og á Ítalíu eins og ég veit best. Hins vegar áttu stóru viðskiptakjarnar á borð við París, Barcelona, Mílano, Frankfurt, London, Rotterdam, Kaupmannahöfn, o.s.fr.v... miklu meira sameiginlegt og sterkari viðskiptasambönd sín á milli en flestar þessara borga við grannhéruðin sín. Samt áttu þau lönd þjóðargjaldmiðil hvert fyrir sig (sem voru annaðhvort tengd þýsku marki eða með frekar hárri verðbólgu). Með sömu rök átti að hafa Reykjavíkur-og-Akureyrar krónu, Fjarðar (sjávar)krónu og landsbyggðarkrónu með sveigjanlegu gengi.
Hitt þarf líka að hafa í huga: Ísland hefur þegar tekið þátt í myntsamband, sem fauk í sundur á 3ja áratug 20asta aldar (samnorræna krónan). Þar (og víðar) sýndi sig að myntsamband virkar ekki ef lönd taka ekki saman og samræma reglur og lagaleg og hagfræðileg grundatriði þeirrar umgjörðar sem fyrirtæki vinna í. ESB er með slíka umgjörð (löggjöf og reglugerðir frá 'skriffinskubjálkni' sem er afleiðing afsals hluta sjálfstæðis aðildarríkjanna) og það er munurinn á ESB og 'venjulegu' myntsambandi.
Fyrir lítið land eins og Ísland er eitt annað í boði, það er einhliða upptaka einhvers gjaldmiðils sem menn treysta. Menn þurfa að treysta því algerlega þannig að þeir þora að gefa úr höndum helstu verkfæri peningamálastjórnunar án þess að geta haft tryggt áhrif á hana og vona bara að þessi nýi gjaldmiðill veiti þeim nóg mikið stöðugleika og vaxtarmöguleika.
Úr þessu má lesa að íslensk yfirvöld hefðu átt að leggja línur í þessu máli á tímum velmegunar og stöðugleika (línan sem þau lögðu - staka, fljótandi krónan - hefur bara misheppnast gjörsamlega). Núna verðum við hér á fróni að taka sársaukann sem fylgir hruninu og upptaka annars gjaldmiðils er ekki raunhæf fyrr enn efnahagurinn er kominn nokkurn veginn í jafnvægi. En yfirvöld ættu að gera einmitt núna allt til þess að vera viðbúin þegar tækifæri gefst að nýju. Umsókn um ESB aðild væri möguleiki sem þýddi m.a. aðgang að aðlögunarsjóðum ESB.
En það er náttúrulega líka hægt að hugsa sér aðrar lausnir, t.d. að þrauka til framtíðar með krónunni sem engir trúir lengur á (ég vil benda á að í raun erum við komin með Evru hvort sem er, þar sem verðlag í kr. fylgir verð í Evrum sinnum sveiflandi gengi býsna vel), að Ísland verði í kjölfar úrskurðað gjaldþrota og AGS verði með beinum afskiptum af ríkisfjármálum í nokkur ár. Kostur þessara leiðar væru náttúrulega að hægt væri að kenna öllum hinum um hvernig ástandið er.
Jens Ruminy, 1.5.2009 kl. 18:00
Ég vil benda á nýlega grein mína, sem ég nefni:
1. Efnahagslausn með tvöföldu peningakerfi !
Þar kemur fram það mat mitt, að okkar bezta lausn er "fastgengi undir stjórn Myntráðs".
Álit mitt á verðbólgu kemur til dæmis fram í greinunum:
2. Sannleikurinn um "hagstjórn" Seðlabankans.
3. Myntráð Íslands: er Seðlabankinn ekki bara ágætur ?
1. http://altice.blog.is/blog/altice/entry/866047/
2. http://altice.blog.is/blog/altice/entry/802899/
3. http://altice.blog.is/blog/altice/entry/798154/
Loftur Altice Þorsteinsson, 1.5.2009 kl. 21:49
Þetta er góð grein hjá Friðriki samherja mínum í L-lista fullveldissinna.
Axel Þór Kolbeinsson, 1.5.2009 kl. 23:39
Tek ofan fyrir þér herr Kollege Friðrik,
Þú skilur það sem þú ert að tala um. Það sama er ekki hægt að segja um samtök heildsala sem Dr. Villi talar fyrir og marga aðra evruspekinga sem ég kalla svo.
Halldór Jónsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 10:26
Hvað er hreyfanleiki vinnuafls?
"Það eru aðeins 3 tímar héðan til Póllands" segir Kjartan í fyrstu athugasemd. Það er líka hægt að komast á 3 tímum frá Chicago til Phoenix í Arisona. En hreyfanleiki vinnuafls er ekki aðeins mældur með klukkunni.
Ef fjölskylda þarf að flytja frá Chicago til Phoenix fer hún í umhverfi þar sem talað er sama tungumál, menningin er sú sama og lítið mál fyrir börn að skipta um skóla. Flytjist fjölskylda frá Íslandi til Póllands er málið snúnara. Ekki að það sé slæmt að kynnast nýju landi, tungumáli og menningu, en það setur hreyfanleikanum skorður. Þetta hefur sýnt sig innan Evrópusambandsins þegar atvinnuleysi er í einu landi en vantar vinnufúsar hendur í öðru. T.d. Portúgal vs Holland.
Það þýðingarmesta kemur fram í lokaorðum greinar Friðriks, að peningamálastjórn verður að vera betri en síðustu 15 árin, byggð á langtímahagsmunum þjóðarheildarinnar.
Haraldur Hansson, 2.5.2009 kl. 13:55
Gengisfellingar-hugmyndin er algjörlega úrelt og raunar löngu dauð í heimi hagfræðinnar. Hún var í gangi á millistríðs-árunum og leiddi til kapphlaups þjóða við að fella gengið meira en aðrir. Afleiðingin var óðaverðbólga og efnahagsleg upplausn. Með gengisfellingu er verið að lækka verðmæti allra launa og allra verðmæta í landinu.
Ef skoðað er nýlegt dæmi um Svíþjóð og Finnland, þá eru Svíar að lækka sín verð á trjávörum, með gengisfellingu. Finnar gætu líka lækkað sín verð til samræmis ef þeir vildu. Þetta gætu þeir gert á margvíslegan hátt, til dæmis með niðurgreiðslum eða lægri launum. Af þessum tveimur kostum er gengisfelling Svíanna verri, vegna þess að gengisfellingin leiðir beint til verðbólgu. Hjá okkur Íslendingum eru áhrif gengisfellinga þó miklu verri vegna þess hversu háðari við erum innflutningi en Svíar.
Árið 1944 komu Vesturlönd á Bretton Woods samkomulaginu, til að losna úr fáránleika gengisfellinganna. Þetta samkomulag var tvöfalt kerfi Myntráðs, þótt Seðlabankar stjórnuðu fyrirkomulaginu. US Dollar var festur við gullfót ($35 á únsuna) og aðrir gjaldmiðlar festir við USD, með vikmörkum þó. Þetta kerfi var við lýði til 1971/1973 og gafst mjög vel.
Gengisfellinga-vitleysan er á ensku nefnd "beggar thy neighbour policy". Ein þjóð er að koma sínum efnahags-vandamálum yfir á aðra, aðallega með breytingum á gengi gjaldmiðils, tollum eða kvótum. Ef allar þjóðir taka upp á þessu, eru afleiðingarnar skelfilegar og fyrirsjáanlegar.Allar þjóðir verða að gera ráð fyrir efnahagssveiflum, á sama hátt og öll fyrirtæki, heimili og einstaklingar. Það að prenta verðlausa peninga sem lausn á efnahagsvanda er heimskulegt og skaðlegt. Allir verða að safna til mögru áranna og þetta stendur meira að segja í Biblíunni. Hvað eru menn þá að hrópa eftir neyðarsjóðum frá öðrum löndum. Allar þjóðir eiga sjálfar, að gera ráðstafanir vegna fyrirsjánlegra atburða.
Þeir sem eru fylgjandi ríkisrekstri á veigamiklum sviðum, fylkja sér um Seðlabankann og peningastefnu hans "torgreindu peningastefnuna" (discretionary monetary policy). Við hinir kjósum "fastgengi undir stjórn Myntráðs" og að setja peningakerfið á sjálfstýringu. Þannig ráða markaðsöflin vöxtum og framboði á peningum. Það er barnaskapur að halda að "handstýrt flotgengi" undir stjórn Seðlabanka geti leitt til efnahagslegs stöðugleika. Það er 100% öruggt að slíkt kerfi endar með gengishruni.
Ef andstæðingar ESB-aðildar halda til streytu svona úreltum hagfræði-kenningum, getur afleiðingin ekki orðið önnur en að ESB-sinnum er færður sigur á silfurfati. Það er ekki bara að verðbólga (afleiðung gengisfellinga) veldur efnahagslegri hrörnun, heldur verður hún einnig banabiti lýðræðisins.
Loftur Altice Þorsteinsson, 2.5.2009 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.