ESB gefur sér falleinkun í stjórnun fiskveiða

pcp2_2Á vefsíðu ESB um stjórnun fiskveiða má finna vinnublað sem telur upp helstu ágallana við sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. fram að 88% af fiskistofnum eru ofveiddir, þar af eru 30% stofna að hruni komnir. Auk gegndarlausrar ofveiði eru önnur helstu vandamál offjárfesting í skipum, óhóflegt brottkast, ólöglegar veiðar og almennur taprekstur í greininni svo eitthvað sé nefnt.

Fiskveiðistefna ESB leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hefur síðan þá verið endurskoðuð á 10 ára fresti  nú síðast árið 2002. Þær úrbætur sem þá voru lagðar til hafa enn ekki komist í framkvæmd nema að litlu leyti.

Það hefur aldrei vantað vilja hjá Brussel til að innleiða góða fiskveiðistefnu. Árangurinn hefur hins vegar vantað.

Þótt ekki hafi enn tekist að koma úrbótum frá 2002 í framkvæmd er nú lagt í að ræða frekari úrbætur sem skuli innleiða árið 2012. Stefnumiðin hljóma eins og áður mjög vel, en í ljósi reynslunnar er vissara að fóstra efasemdir um árangurinn.

Fyrir þá sem vilja lesa sér til er upplagt að lesa Grænbókina Reform of the Common Fisheries Policy sem kom út þann 22. apríl sl. (28 bls.)

Nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að ef Íslendingar ganga án tafar í ESB geti þeir haft mikil áhrif á þær úrbætur sem gerðar verða á fiskveiðistefnu sambandsins árið 2012. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þótt við gætum viðrað skoðanir okkar munu raunveruleg áhrif á stefnu ESB fara algerlega eftir íbúafjölda landsins. Ísland mun ekki ná neinu í gegn sem ESB finnst ekki góð hugmynd hvort sem er.

Jafnvel þótt farið yrði að ráðum Íslendinga er ekki víst að það myndi duga. Getuleysi ESB til að framfylgja eigin fiskveiðistefnu í gegnum tíðina vekur ekki traust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Góður pistill Frosti. Svo má benda á að Bretar hafa verið í Evrópusambandinu og forvera þess í næstum 40 ár og hafa meira eða minna allar götur síðan reynt að ná fram endurbótum á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins en ekkert gengið. Þvert á móti hefur stefnan þróast í aðrar áttir en Bretarnir hafa viljað í átt til meiri miðstýringar frá Brussel o.s.frv. sem síðan hefur skilað sér í því hörmulega ástandi sem sjávarútvegur í ríkjum Evrópusambandsins er í dag.

Varla þarf að taka fram að Bretar eru ein stærsta þjóðin innan sambandsins og með vægi og möguleika á áhrifum í samræmi við það. Þeir hafa þannig t.a.m. 78 fulltrúa á Evrópusambandsþinginu á meðan við fengjum í mesta lagi 5 ef við værum þar innanborðs í dag.

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2009 kl. 07:38

2 identicon

Algjört gjaldþrot sjávarútvegsstefnu ESB er eitthvert skýrasta dæmið um innbyggt getuleysi svona miðstýrðra apparata til þess að geta stjórna einhverjum hlutum farsællega. 

Ekki vantar ESB sérfræðingana og undirnefndirnar og umhverfis- og fiskifræðingana og hvaðeina. 

ESB Sérfræðingarnir reyna endalaust að búa til eitthvert kerfi og að hægt sé að reikna út alla skapaða hluti. Þeir setja umhverfismál, byggðamál, haffræi og fiskifræði, félagsfræði og atferlisfræði og svo hagsmunamat þrýstihópana allt í einn pott og hræra svo í og ætla að koma til móts við allt og alla og halda aftur og aftur virkilega að það sé hægt.

En naglasúpan er samt alltaf jafn andskoti óæt og niðurstaðan er alltaf miklu verri en enginn !

Íslenskir sjómenn og útvegsmenn myndu aldrei, aldrei þrífast í svona fáránlegu tilskipanakerfi skriffinnanna !

Víst má margt segja um ýmsa vitleysuna hér heima.

En ég held að það sé engum blöðum um það að fletta sérfræðingaveldi ESB skrifffinnanna myndi toppa það allt saman margfallt.   

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 08:19

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kvótakerfið okkar er ekki með öllu ónýtt. Það eru þó tveir ágallar...misskiptings auðsins og hitt að erfitt er að tryggja að allur aflinn berist að landi (smáfiskur og þau 60% af fisknum sem aldrei koma að landi). Ég reyndi að víkka út hugmyndir Péturs Blöndal, bestu hugmyndar sem komið hefur fram um kvótakerfið, með grein hér.

Haraldur Baldursson, 30.4.2009 kl. 08:47

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heldurðu að EBé-dindlunum standi ekki nákvæmlega á sama um þetta, Frosti?

Þeim finnst mjög ópent að leiða nokkurn tímann hugann að slori, þeir ætla að lifa á einhverju allt öðru, styrkjum og bara "skjólinu" af Evrópubandalaginu – og hugsa sjaldan upp fyrir Ártúnsbrekku.

Og heldurðu að þeim sé ekki sama um það, að við Íslendingar höfum á hvern mann 300 sinnum meiri tekjur af sjávarútvegi en hver Frakki hefur?

Eins kemur þessu liði hreint ekki við, að hver starfsmaður í sjávarútvegi og landbúnaði á Íslandi skaffar 12 sinnum meiri gjaldeyristekjur heldur en hver meðalstarfsmaður í öðrum atvinnugreinum (næði mælingin aðeins yfir starfsmenn í sjávarútvegi, væri munurinn langtum meiri).

Þess vegna áttar þetta fólk sig vitaskuld ekkert á því, hve hættulegt það er að láta innlima landið í þetta yfirríkjabandalag sem leyfir engin frávik frá sjávarútvegsstefnu sinni og auðvitað ekki frá Rómarsáttmálanum sem ætlast til fulls atvinnufrelsis allra EBé-borgara í öllum EBé-löndum.

Það eru hundruð skipa í spænskum og frönskum höfnum, sem liggja verkefnalaus, og tugþúsundir sjómanna sem í atvinnuleysi knýja á stjórnvöld sín að útvega sér meiri kvóta. En fjölmenningarlegum evrókrötum á Íslandi virðist ekki koma það við. Þeir eru í hjarta sínu nú þegar orðnir EBé-borgarar.

Jón Valur Jensson, 30.4.2009 kl. 10:39

5 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Þetta hljómar bara allt saman eins og íslensk peningamálastjórnun eða hvað ?

Arnar Sigurðsson, 30.4.2009 kl. 15:38

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Svona bara að velta því fyrir mér hvort að við ættum ekki að benda þeim á að taka alls ekki upp okkar kerfi? Því að frá því að kvótakerfið hér var tekið upp hafa nær allir stofnar nema síld minnkað. Nú t.d. Þorskur úr eitthvað um 250 til 300 þúsund tonna sem eru veidd niður í 120 þúsund tonn.

Jón Valur hefur þú farið og kannað þetta með skipin í höfnunum?Þettta er svona svipað og hér kannski? Hér eru hafnir fullar af bátum og skipum sem hafa ekkert að gera. Það hefur fækkað gríðarlega í sjómannastétt hér. Megnið af kvótanum er tekinn af verksmiðjuskipum sem við köllum frystitogara. Mikið af þessum "skipum" eru nú ekki meira en rétt rúmlega trillur. Sé þá ekki koma hingað.

Síðan hefur engin veiðireynslu hér nema við og hægt er að setja reglur sem ganga út á að allur afli sem veiddur er við landið sé landað á Íslandi og veiddur af mönnum sem hér búa.

Minni á að við erum nú þegar með stór útgerð frá Þýskalandi og gætum allt eins snúið þessu við og keypt upp fiskvinnslur víða um Evrópu. T.d. á Spáni.

Finnst í raun engu skipta hver á þessi fyrirtæki sem veiða ef að tryggt er að þau borga hér skatta og laun.

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.4.2009 kl. 19:33

7 identicon

Það sem er einnig hægt að lesa úr þessu er að við erum íhaldsamari þegar kemur að kvóta og að þar með væri ekki mikil hætta á því að evrópusambandið myndi vilja minnka veiði á Íslandi, sem jú bara Íslendingar fá að veiða.

Egill (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 22:48

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Enginn má við margnum, Magnús Helgi.

Það eru tugþúsundir sjómanna atvinnulausar á Spáni og í Frakklandi. Þú getur látið stærilátlega yfir möguleikum ríkra útrásar-útgerðarmanna okkar á því að leggja eitthvað undir sig, en það er valt að treysta á spilaborgir, eins og í ljós kom í bankakreppunni. Þá er betra að eiga einn fugl í hendi en að leita tveggja í (reglugerða)skógi Evrópubandalagsins.

Við vitum hvað við höfum. Höldum fast í það! Gerum ekki ráð fyrir, að allir í kringum okkur séu meinlausir! Atvinnulausir eiga að vita það eins og aðrir, að sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær. Þess vegna skaltu ekki gera ráð fyrir, að áðurnefndir sjómenn á Spáni og Frakklandi sæki ekki á, þar sem þeir sjá möguleika til að hala inn verulegan afla! Treystu ekki mönnunum, svikulan lífsanda hafa þeir í nösum sér.

Bretar voru nokkuð góðir (en alls ekki fullkomnir) vinir okkar í Seinni heimsstyrjöld og í NATO í byrjun, en annað kom svo í ljós, þegar farið var að útvíkka landhelgina upp úr 1950. Látum því ekki glepjast af neinu tali um "vinaþjóðir". Hver reynist sjálfum sér næstur í viðskiptum þjóða, það er jafnan lexían af mannkynssögunni.

Svo höfum við sjálf, óbreyttir Íslendingar, ákaflega lítið upp úr því, að þessir útrásarmenn séu að græða eitthvað erlendis. Hvenær gerast þeir ríkisborgarar þar? Og greiðir ekki Björgólfur Thor mestalla skatta sína í Bretlandi?

Við eigum því ekki að miða stefnu lýðveldisins við við hagsmuni Samherjamanna í Þýzkalandi eða útrásarmanna í öðrum EBé-löndum, heldur við þá atvinnuvegi, sem stundaðir eru hér á landi, greiða hér laun og skatta, útsvar í bæjarsjóð, hafnargjöld og fleira, nota mikla þjónustu í landi, járnsmiða, rafvirkja, skipasmiða, matvælaverzlana, tölvufyrirtækja, skipaskoðunarmanna, olíufyrirtækja, uppskipunarmanna, netagerðarmanna, vélsmiðja, frystihúsa, umboða með alls kyns búnað sem notaður er í brúnni og vélarrúmi á stærri skipum o.s.frv.

Afleidd störf af hverri 15 manna eða 21 manns áhöfn skuttogara eru afar mörg, og fjölskyldur þeirra eru vel stæðar og skila miklu út í samfélagið, það styrkir t.d. byggingariðnaðarmenn á hverjum stað.

Sjávarútvegurinn skaffar 12-falt meira af gjaldeyri á hvern starfsmann en aðrir atvinnuvegir í landinu. Reyndar er landbúnaðurinn talinn með sjávarútvegi í þessum tölum; væri sá síðarnefndi athugaður einn sér, mætti segja mér, að sjávarútvegur hali inn 15–20 sinnum meiri tekjur á hvern meðalstarfsmann en aðrar atvinnugreinar. (Tilfæri heimild, sé þess óskað.)

Og þetta vanvirða þeir, sem vilja láta innlima okkur í Evrópubandalagið og gera það í einhverjum spákaupmennsku-stíl, vogandi sjálfu fjöreggi þjóðarinnar fyrir nokkrar gulrætur sem freista þeirra suður í Evrópu!

En nú hverf ég að því að horfa á mjög góðan viðræðuþátt þeirra Ingva Hrafns Jónssonar, Óla Björns Kárasonar og Björns Bjarnasonar um Evrópubandalagsmálin á ÍNN-sjónvarpsstöðinni.

Jón Valur Jensson, 1.5.2009 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband