Aukið lýðræði - Svissneska leiðin

Það er óumdeilt að Sviss býr við meira og beinna lýðræði en flest önnur ríki og þannig hefur það verið í meira en 130 ár. Á þeim tíma hafa þeir haldið áfram að þróa lýðræðisleg vinnubrögð og útkoman er sáttir íbúar og hagkerfi sem gengur eins og klukka. Svo virðist sem Svisslendingum hafi tekist að ná fram kostum fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis án teljandi vandkvæða. Um þetta má fræðast í bókinni Guidebook to Direct Democracy (útg. 2010) sem lýsir beinu lýðræði í Sviss og tekur all mörg dæmi um mál og hvernig þeim reiddi af. Ég mæli með þessari bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á nútímalýðræði. Eftirfarandi eru nokkrir punktar sem mér fannst áhugaverðir.

Í Sviss einkenndist tímabilið frá 1798 til 1848 af óreiðu og uppþotum sem þó leiddi að lokum til stofnunar þjóðríkis með beinu lýðræði sem bundið var í stjórnarskrá. Beint lýðræði var ekki hugmynd stjórnvalda heldur borgarana sjálfra sem komu saman í þúsunda tali og kröfðust þess að stjórnvöld tækju fullt tillit til vilja kjósenda í öllum málum.

Vandinn við fulltrúalýðræði er að þar fá stjórnmálamenn einkarétt á fjölda valdsviða og þeir ráða því hvað löggjafinn tekur á dagskrá. Þetta er rótin að ójafnvægi milli stjórnmálamanna og kjósenda. Kjósendur kjósa en stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir.

Beint lýðræði felur í sér að kjósendur geta tekið ákvarðanir og þeir hafa úrslitavaldið. Í Sviss starfar þingið með álíkum hætti og við þekkjum en kjósendur taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu ef eitt af þessu þrennu ber að:

  1) Þingið leggur til breytingu á stjórnarskrá.

  2) Fleiri en 50.000 kjósendur (1%) óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu innan 100 daga frá því ný lög eru samþykkt af þinginu.

  3) Fleiri en 100.000 (2%) kjósendur óska eftir því að leggja fram frumvarp að lögum ber þinginu að taka við málinu og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það kemur á óvart hversu lágt hlutfall kjósenda þarf til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, aðeins 1%. Kosturinn við að hafa hlutfallið svona lágt er að þannig er fámennum hópum kjósenda gefin uppbyggileg leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef stjórnvöld fallast ekki á sjónarmiðin þá er málinu vísað til þjóðarinnar sem hefur lokaorðið.

Það kemur líka á óvart hversu sjaldan hefur reynt á þetta. Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 1848 hafa verið sett 2200 lög í Sviss og í aðeins 7% tilfella verið óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau tóku gildi.Undanfarinn áratug hafa kjósendur fylgt stjórnvöldum að málum í 75% tilfella. Þeir sem tapa málum geta þó huggað sig við að hafa fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í öðrum lýðræðisríkjum er þessi farvegur ekki jafn greiður og afleiðingin er að óleyst mál leiða fremur til uppþota.

Óttinn við að treysta kjósendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir virðist mjög útbreiddur í öðrum lýðræðisríkjum en Sviss. Sumir stjórnmálamenn virðast jafnvel efast um að venjulegt fólk hafi nægilegan skilning á framförum og hvaða fórnir þurfi að færa til að ná þeim fram. Kjósendur muni t.d. alltaf leggjast gegn skattahækkunum. Menn hafa bent á Kaliforníufylki sem víti til varnaðar, en þar hafa tilraunir stjórnvalda til að hækka skatta verið felldar í atkvæðagreiðslum.Að einhverju leiti getur þessi munur á útkomu skýrst af mismunandi aðferðum, í Sviss sem dæmi lögð mikil áhersla á að sætta sjónarmið áður en gengið er til atkvæðis.

Í Sviss hefur komið í ljós að sé kjósendum treyst þá verða þeir ábyrgari. Í þeim Kantónum þar sem fjárlög eru skilyrðislaust borin undir íbúana eru undanskot frá skatti 30% minni en í kantónum sem gera það ekki.  

Íbúar Sviss virðast vera hæstánægðir með núverandi fyrirkomulag. Þeir sjá ekki eftir þeim tíma sem fer í að setja sig inní mál og kjósa. Í venjulegu ári er kosið fjórum sinnum og flest tengjast málin fylkinu (kantónunni). Gögn eru send til kjósenda fjórum vikum fyrir kjördag. Kjósendur geta sent atkvæði sitt inn með pósti. Prófanir á rafrænni útfærslu eru hafnar.

Aðeins kjósendur geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, en ekki stjórnvöld. Þetta er býsna veigamikið atriði því þannig er komið í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að beita þjóðaratkvæði sem vopni í pólitískum átökum.

Hið nútímalega lýðræði Svisslendinga hefur skilað þeim góðum árangri og er vissulega fyrirmynd sem við ættum að skoða mjög vandlega. Þetta kerfi nýtir kosti fulltrúalýðræðis en þó þannig að kjósendur geta stöðvað ný lög og einnig haft frumkvæði að nýjum lögum. Kjósendur hafa lokaorðið ef þeir vilja.

Þarna er kerfi sem er þrautreynt og virkar. Það er mjög freistandi að innleiða svipað fyrirkomulag hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sviss býr við allt annað stjórnarfar en Ísland og verða menn að átta sig á því að eitt verður ekki fengið án hins! Ertu tilbúinn að kasta frá þér þingræðishefð Íslendinga?

Í Sviss er kosningaþátttakan með því lægsta sem gerist enda lærir fólk fljótlega í svona kerfi að lágmarka fyrirhöfn sína með því að 1. sleppa því að mæta á kjörstað eða 2. kjósa eins og einhver sem þeir bera virðingu fyrir. Atkvæðagreiðslur eiga uppruna sinn með þrennum hætti í Sviss, þær atkvæðagreiðslur sem eiga uppruna sinn hjá almenningi eru í flestum tilfellum felldar.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 20:45

2 identicon

Nefnt hefur verið að Svisslendingar séu íhaldssamir gagnvart breytingum á lögum. Það hlýtur að vera fullkomlega eðlilegt þegar þjóðin sjálf hefur sett lögin. Þeir hafa þegar hreinsað út mikið af gallaðri lagasetningu væntanlega. Það er ekki mikil ástæða til að vera að breyta hlutum sem virka. Þau hafa stöðugleika. Það er eitthvað sem okkur íslendinga dreymir bara um. Ég tel við getum fylgt fordæmi Sviss. Fólkið ræður. Það er betra. Lækki fólkið skatta er það ákvörðun þess. Það á ekkert að vera neinar spurningar settar við það. Þjónustan er þá í samræmi, það segir sig sjálft.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 21:47

3 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Sigurlaug, það er alveg rétt að þátttaka í kosningum til þings er dræm í Sviss (54%) sem er svipað og í Bandaríkjunum en ögn meiri en í Póllandi. 

Í Ástralíu er þátttaka í kosningum 95% enda fá þeir sem vilja ekki kjósa að borga dálítið meiri skatt en hinir. Það nægir auðvitað að skila auðu til að sleppa við skattálagið.

Frosti Sigurjónsson, 17.10.2010 kl. 23:51

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég er tilbúinn að kasta þingræðsatferlinu sem tíðkast hér.

Júlíus Björnsson, 20.10.2010 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband