10.9.2009 | 17:16
Er lýðræði á Íslandi?

Ef það kallast lýðræði að setja á svið gjörning þar sem kjósendur setja stafinn X við framboðslista á fjögurra ára fresti en hafa samt ekki minnstu áhrif á afdrif mála, þá er lýðræði á Íslandi. En það er langt frá því að vera fullkomið.
Sigurvegarar kosninga fá umboð til að stýra landinu. Þeir virðast geta notað umboðið til að þverbrjóta gefin kosningaloforð og í raun farið beint gegn vilja kjósenda. Stjórnvöld fá frítt spil í allt að fjögur ár nema gerð sé bylting í millitíðinni.
Kjósendur hafa fá úrræði önnur en byltingu sem er mikið vesen. Þeir láta því frekar óstjórnina yfir sig ganga.
Þetta form lýðræðis hefur eflaust þótt mikið framfaraskref á sínum tíma. En það er óralangt síðan og við búum nú að allt öðrum möguleikum tæknilega. Hvers vegna hefur þá lýðræðið staðið í stað allan þennan tíma?
Þeir sem bíða eftir því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að því að gera lýðræðið eitthvað virkara geta búið sig undir að bíða mjög lengi. Stjórnmálamenn vilja meiri áhrif, ekki minni. Enda hafa ekki verið gerðar neinar umbætur til að gera fyrirkomulagið lýðræðislegra, ef eitthvað er, þá hefur valdið færst fjær kjósendum.
Þetta gamaldags lýðræði hefur ekki reynst þjóðinni sérlega vel. Stjórnvöld hafa alla tíð legið undir ámæli fyrir hagsmunapot, samkrull við valdaklíkur og sérhagsmunaöfl sem vilja skammta sér sérstöðu og auðæfi sem auðvitað koma frá þjóðinni sjálfri. Nægir að nefna sambandið, kolkrabbann og síðast en ekki síst bankana.
Núna eru stjórnvöld að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Milljarðaskuldir fyrirtækja eru skrifaðar niður, reglurnar eru óljósar og upplýsingar um hverjir fá hvað afskrifað eru algert trúnaðarmál. Hér er mikil hætta á ferðum. Þjóðin þarf að vita hvað er að gerast.
En ríkisstjórnin hefur öll völd og hún notar þau óspart. ESB og Icesave voru bókstaflega keyrð í geng þvert á vilja þings og þjóðar. Stjórnin þverneitaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort sótt yrði um inngöngu í annað ríkjabandalag. Endanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verður svo aðeins ráðgefandi fyrir þingið. Fleira mætti nefna í sama dúr, niðurstaðan er að þjóðin hefur engin völd.
Sættir þjóðin sig við svona lýðræði?
Vonandi ekki, enda engin ástæða til. Við erum nefnilega í ágætri aðstöðu til að þróa lýðræðið á næsta stig. Þjóðin er lítil, vel menntuð og tæknivæðing með því besta sem gerist. Við getum vel breytt þessu til betri vegar ef við bara nennum því.
Nú þegar eru nokkrir hópar af dugnaðarforkum byrjaðir að vinna að endurbættu lýðræði. Ég vona að þeim vinnist verkefnið hratt og vel. Hvet alla til að leggja þeim lið.
Lýðræði er ekki raunverulegt nema kjósendur sjálfir ráði því hvort þeir taka afstöðu til einstakra mála eða hvort þeir láta kjörinn fulltrúa sinn taka ákvörðun fyrir sína hönd.
Meira:
http://www.lydveldisbyltingin.is
http://www.skuggathing.is/
http://www.lydraedi.is