5.8.2009 | 00:39
Guðbjartur og Sigmundur ósammála um ICESAVE í Kastljósinu
Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndarmaður sátu fyrir svörum í Kastljósi. Tilefnið var ICESAVE málið og hvort ný samantekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefði einhver áhrif á afstöðu manna.
Guðbjartur sem er kennari að mennt og þingmaður Samfylkingar vildi ekki meina að neitt nýtt eða markvert kæmi fram í áliti Hagfræðistofnunar og hún væri alls ekki gagnrýnin á spá Seðlabankans. Skoðun hans er því áfram sú að "þjóðin geti staðið undir þessu" og "Ekkert sem bendir til að við ráðum ekki við þetta".
Sigmundur sem er viðskiptafræðingur að mennt með doktorsgráðu í skipulagshagfræði og þingmaður Framsóknarflokksins var alveg á öndverðum meiði. Hann taldi skýrsluna innihalda mjög harðorða gagnrýni á spá Seðlabankans um þróun efnahagsmála. Þjóðin ráði ekki við að greiða þetta nema lífskjör verði skert mjög verulega til margra ára.
Það kom einnig skýrt fram í þættinum hve sannfærður Guðbjartur er um að samþykkt ICESAVE muni efla traust á Íslandi og auðvelda frekari fjármögnun.
Sigmundur var þessu alveg ósammála og finnst líklegra að aukin skuldsetning þjóðarinnar myndi fæla lánveitendur frá landinu og rýra traust á hagkerfinu.
--
Ég er sammála Sigmundi Davíð. Þjóðin getur ekki risið undir erlendum skuldum ef ICESAVE er bætt við það sem þegar er komið. Bretar og Hollendingar munu ekki verða þakklátir lengur en í 5 mínútur þótt við sýnum þeim þann vinargreiða að láta íslensk heimili borga skuldir Landsbankans.
Lánveitingar í þakklætisskyni myndu duga skammt ef skuldsetning vegna ICESAVE rýrir lánshæfi og fælir á sama tíma skynsama fjárfesta frá landinu.
Íslensk heimili hafa enga skyldu og engan hag af því að látið sé undan ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga um að þau axli skuldir Landsbankans.
Það er með ólíkindum að ríkisstjórn Íslands íhugi að skrifa undir þennan samning.