Ávarpið á Austurvelli

507989

Hávaðinn á Austurvelli var ótrúlegur! Hér er ávarpið sem flutt var á undan niðurtalningunni. Bestu þakkir til allra sem komu og höfðu hátt!

 

"Bara örfá orð áður en niðurtalningin hefst. Í dag hófust á Alþingi umræður um Icesave frumvarpið en það er vilji ríkisstjórnarinnar að gera þann ósóma að lögum síðar í dag.  Því verður að mótmæla.

 

Frá því þessi afleiti Icesave samningur var kynntur þjóðinni í byrjun sumars hafa stöðugt komið fram nýjar upplýsingar og sérfræðiálit, og allt hallar það í eina átt:  

 

Samningurinn er afleitur fyrir Ísland, skaðlegur íslenskum hagsmunum og síðast en ekki síst óréttlátur fyrir íslenskan almenning.

 

Enda blasa staðreyndir málsins við: Það finnast engin lög sem segja að þjóðin eigi að axla skuldir einkabanka.

 

Dómstólar hafa líka sagt sitt álit: Sjálfur Evrópudómstólinn felldi dóm árið 2002 í máli númer 222 og sagði þar að það væri beinlínis bannað að ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.

 

Þingmenn mega ekki láta hræðsluáróður eða hótanir slæva dómgreind sína.

 

Alþjóðasamfélagið mun ekki útskúfa nokkurt ríki þótt það deili við Bretland eða Holland um peninga. Þó það nú væri.  

 

Stuðningur alþjóðasamfélagsins við málstað Íslands fer stöðugt vaxandi eins og ritstjórnargreinar erlendra stórblaða bera vitni um.

 

 

Stjórnvöld hafa samt allt of lítið gert til þess að halda fram málstað Íslands erlendis. Orkan hefur farið í að karpa um fyrirvara og pína þingmenn til samstöðu um ónýtan samning.

En það er ekki of seint að hafna þessum samningi og gera betri samning.

Þingmenn verða að taka slaginn fyrir Ísland og fella þetta frumvarp!

Nýleg Gallup könnun staðfestir að stór meirihluti þjóðarinnar er á móti þessum samningi. Þjóðin stendur með Íslandi á móti Icesave samningnum. 

Með hverjum ætla þingmenn að standa?

Verkefnið á Íslandi á næstu árum er að byggja upp en það verður miklu, miklu erfiðara ef alþingi samþykkir að leggja 700 til 1000 milljarða skuld á þjóðina ofan á allt annað. Skuld sem við erum ekki í ábyrgð fyrir og samþykktum aldrei.

Að lokum. Markmiðið með þessum mótmælum hér í dag - sem verða mjög hávær - er að andmæla því óréttlæti að þjóðin sé látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra. 

 

Þjóðin er búin að taka nóg á sig í þessu hruni.

 

Svo virðist sem of margir þingmenn hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessu mikilvæga máli.

 

Við þurfum að vekja þá!  Vekja þá og hvetja til dáða fyrir land sitt og þjóð. 

 

Nú skulum við telja niður saman og vekja þingmenn með ... Hávaða á Austurvelli !!!

 

 

Tíu!  Níu! Átta! ..."


mbl.is Hávaði gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband