11 ástæður fyrir þingmenn til að hafna ICESAVE

Hér eru tíundaðar nokkrar af fjölmörgum ástæðum fyrir alla þingmenn til að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave samninginn.

1. Það er ekki lagaskylda að veita ríkisábyrgð

Tryggingasjóður er sjálfseignarstofnun og það stendur hvergi í lögum að hún skuli hafa ríkistryggingu.  Íslensku lögin um tryggingasjóð innistæðna voru innleidd á Íslandi skv. tilskipun Evrópusambandsins og þeim framfylgt eins og átti að gera. Æðsti dómstóll sambandsins, Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dómi 222 árið 2002ekki megi ríkistryggja innistæðutryggingasjóð. 

2. Það er ekki siðferðileg skylda þjóðarinnar að axla skuldir einkabanka

Íslenskur almenningur var síst af öllum einhver gerandi í útrás og hruni Landsbankans. Eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig ekki en það á líka við um eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Hollandi.

Skattar af innistæðum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi runnu til þessara landa. Innistæðurnar voru fjárfestar að mestu í Breskum og Hollenskum fyrirtækjum.

Innistæðueigendur voru ekki grunlausir, þeir máttu vita að háum vöxtum fylgir alltaf meiri áhætta.

Bresk stjórnvöld sköpuðu Landsbankanum (og Íslensku þjóðinni) gríðarlegt tjón með setningu hryðjuverkalaga.

3. Hótanir eru ótrúverðugar enda höfum við ekki brotið nein lög

Bretar og Hollendingar eiga ekki að komast upp með að kúga okkur með hótunum einum saman. Það er allt of ódýr sigur. Látum þá standa við hótanirnar og sjáum hvort alþjóðasamfélagið styður í raun ólögmæta kúgun á smáþjóð.

Kynnum málstað okkar, fjölmiðlar heimsins munu hafa mikinn áhuga á honum.

4. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki ríkisábyrgð

Mikið er gert úr því að fjármálaráðherrann sé þegar búinn að undirrita samninginn. Íslensk stjórnvöld verði því ómerk orða sinna ef Alþingi samþykkir ekki ríkisábyrgðina. Þetta er auðvitað rangt. Viðsemjendur okkar gera sér einmitt fulla grein fyrir því að samningurinn tekur ekki gildi án samþykkis Alþingis.

Fjármálaráðherra getur ef hann telur þörf á beðið viðsemjendur og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sagt af sér. Það er ekki of seint.

5. Við getum ekki fengið verri samning þótt við semjum upp á nýtt

Fjölmargir lögfræðingar og ráðgjafar, bæði innlendir og erlendir, hafa fært vönduð rök fyrir því að Icesave lánasamningurinn sé meingallaður og óþarflega ósanngjarn í garð Íslands. Það sé mjög nauðsynlegt að semja upp á nýtt og lítil hætta á að útkoman yrði verri en sú sem nú liggur fyrir.

6. Fyrirvararnir eru haldlausir við borgum samt

Sú leið hefur verið reynd að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Það hefur verið stórundarlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana berjast af heift gegn því að settir séu fyrirvarar sem eitthvað bit er í. Maður hefði haldið að það væri hlutverk Breta og Hollendinga.

Fyrirvarar við ábyrgðina breyta því miður ekki samningnum sjálfum sem er jafn meingallaður eftir sem áður. Samningurinn bannar einmitt alla fyrirvara við ábyrgðina og nú er talinn vafi á að þeir haldi fyrir breskum dómstólum.

Jafnvel þótt fyrirvararnir haldi þá má ekki gleyma því að við munum borga megnið af fjárhæðinni þrátt fyrir að okkur beri engin skylda til þess samanber lið 1. 

Fyrirvörunum hefur verið lýst sem "tærri snilld" en fyrirvarinn um að ekki skuli greitt nema hagvöxtur sé góður tekur alls ekki á þeim möguleika að hér getur orðið góður hagvöxtur án þess að hér sé nokkur afgangur af viðskiptum við útlönd. Þá munum við ekki eiga gjaldeyri til að greiða af samningnum. Krónan mun falla.

Ekki er heldur skýrt hvað verður um eftirstöðvar lánsins árið 2024. Svo er eitthvað haldlaust orðagjálfur um að aðilar skuli ræða saman ef kemur í ljós að ekki var skylt að ríkistryggja tryggingasjóð innistæðna.

Þingmenn eru að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að Bretar og Hollendingar muni láta hundruð milljarða af hendi til Íslands í teboði. Fyrirvarar verða að vera skýrir annars eru þeir marklausir.

7. Við getum ekki borgað

Fyrst hélt ríkisstjórnin því fram að skuldbindingin yrði í versta falli 30-100 milljarðar.  Síðan hefur komið í ljós að líklega gæti talan orðið allt að 1000 milljarðar með vöxtum. Ríkisstjórnin situr samt föst við sinn keip, þjóðin skal borga skuldir Landsbankans.

Skuldabyrði þjóðarinnar er mjög mikil nú þegar, en verði Icesave bætt við þá eru þetta orðnar drápsklyfjar sem þjóðin mun ekki rísa undir. Landið verður þá skuldaþræll. Allur arður af auðlindunum mun renna til erlendra lánadrottna, Breta og Hollendinga um ókomin ár. Þær þjóðir eru reyndar ekki óvanar því að halda nýlendur.

8. Krónan mun veikjast, lánakjör versna og fjárfestar forðast landið

Eftir því sem líkur hafa aukist á því að Icesave skuldin verði samþykkt því meira hefur krónan veikst. Ástæðan er sú að ríkið mun þurfa að selja 1000 milljarða af krónum til að kaupa erlendan gjaldeyri. Þetta er ótrúleg fjárhæð og þetta mun draga úr styrk krónunnar í mörg ár eða áratugi. Afleiðingin er sú að erlend lán íslenskra fyrirtækja og einstaklinga munu haldast mun hærri en ella til langframa. Tjónið af því mun verða talið í amk hundruðum milljarða.

Lánakjör ríkisins munu að sjálfsögðu versna þegar Icesave skuldin bætist við. Lánshæfi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar mun versna líka enda geta þau ekki verið metin traustari en ríkissjóður. 

Efnahagsbati og styrking krónunnar mun því verða hægari og landið verða minna áhugavert fyrir fjárfesta ef Icesave er samþykkt. Þeir munu leita annað.

9. Hærri skattar munu fæla burt gott fólk og fyrirtæki

Verði Icesave samþykkt mun ríkið þurfa að draga meira úr útgjöldum og þjónustu en leggja meiri skatta á fyrirtæki og einstaklinga en annars. Þau fyrirtæki sem geta munu færa sig úr landi, fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi munu stýra hagnaði sínum til landa þar sem skattar eru lægri. 

Eignafólk og hálaunafólk mun verða að greiða verulega hærri skatta en ella hefði verið. Ríkt fólk og fólk í hálaunastörfum á auðveldast með að flytjast til annarra landa. Þótt aðeins 5% þjóðarinnar færu úr landi þá er hætt við að 15- 20% af skatttekjum Ríkisins myndu hverfa með þeim.

Hugsanlega er Íslandi mun meiri hætta búin af fólksflótta vegna Icesave en af þeim aðgerðum sem Bretar og Hollendingar haft í hótunum með. 

10. Þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, með eða án fyrirvara, verða ábyrgir

Ríkisstjórnin lætur að því liggja að þetta sé allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna og nú sé of seint að gera eitt eða neitt í málinu. Það er ekki of seint. Samningurinn tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgðina, þetta vita Bretar og Hollendingar.

Það er varla hyggilegt fyrir nokkurn þingmann að leggja slíkar drápsklyfjar á þjóð sína án þess að sýnt hafi verið mjög rækilega fram á með óyggjandi hætti að hin leiðin sé mun verri. Kannski er skynsamlegt og rétt að spyrja þjóðina álits fyrst.

11. Það ber að kanna hug þjóðarinnar í svona stóru máli

Það hafa komið fram afar sterkar vísbendingar um að meirihluti þjóðarinnar vilji hafna þessum Icesave samningi og þingmenn ættu að sjálfsögðu að taka tillit til þess í svona stóru máli.

Skoðanakönnun Gallup frá því í ágúst sýndi að 68% þjóðarinnar er á móti því að samþykkja ICESAVE samninginn. 

Þótt það teljist ekki vísindaleg könnun, þá má geta þess að á Facebook hafa 16.416 notendur skrifað undir áskorun til forsetans um að staðfesta ekki frumvarpið. Þar er líka hópur sem ber yfirskriftina: "Við neitum að greiða skuldir sem við berum ekki ábyrgð á (Icesave málið)" en í hann hafa skráð sig 37.018 einstaklingar, líklega meirihluti þeirra Íslendinga sem nota Facebook.

Þingmenn og einkum þeir sem eru í ríkisstjórn, verða að rifja það upp fyrir hverja þeir eru að vinna. Þeir hafa ekkert umboð frá þjóðinni til að láta hana axla skuldir einkabanka. Þjóðin mun seint fyrirgefa þingmönnum sem bregðast henni í svona stóru máli.

 


Bloggfærslur 25. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband