Hörð gagnrýni á Seðlabankann

GOMC2CT6

Ragnar Þórisson ritaði áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans. Háir vextir núna koma beinlínis í veg fyrir styrkingu krónunnar. Greinin í heild:

AÐ PENINGASTEFNUNEFND Seðlabankans hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum í 12% er alveg út í hött enda blæðir íslenskum fyrirtækjum og heimilum á meðan sparifjáreigendur og erlendir jöklabréfaeigendur hlæja og græða á tá og fingri á okkur kostnað.

Þess má geta að Ungverjar, sem eru í meiri klípu en við, lækkuðu sína stýrivexti um 1% þann 27 júlí en þess má geta að AGS er með Ungverja í gíslingu eins og okkur þó þar sé sjóðurinn ekki að handrukka »Icesave« nauðasamning fyrir sína umbjóðendur eins og gert er grímulaust hér á landi.

Þessi peningastefnunefnd Seðlabankans virðist ekki hafa »götugreind« til að skilja það að íslenska krónan mun styrkjast ef stýrivextir verða lækkaðir en þess má geta að slíkt hefur gerst í Tyrklandi síðustu mánuði eftir að Seðlabanki Tyrklands byrjaði að lækka vexti jafnt og þétt og hafa hafa þeir nú lækkað stýrivexti um 8,5% niður í 8,25% á síðustu 8 mánuðum.

Tyrkneska líran hefur styrkst í gegnum þetta vaxtalækkunarferli. Því miður kemur hvergi fram í kennslubókum fyrir hagfræðinga að ef bankakerfi og hagkerfi hrynur samtímis, hindrar hávaxtastefna nauðsynlegan hagvöxt þar sem slík stefna fyrirbyggir fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu.Þetta er staðreynd sem fjárfestar skilja vel og halda að sér höndum og því erum við komin í vítahring í umboði manna sem treysta því að meira af því sama sem kom gjaldmiðlinum í þrot muni ná honum aftur á flot.

Til þess að laða að nýja erlenda fjárfesta þá þarf að skapa grundvöll til fjárfestinga og fyrir lönd sem eru í klípu eins og Ungverjaland, Tyrkland og Ísland skiptir mestu máli að sýna fram á endurreisn efnahagsins og það er á þeim tímapunkti sem allir fjárfestar vilja komast inn, þ.e.a.s. á botninum og í byrjun vaxtalækkunarferlis. Nú þegar Tyrkir lækka vexti þá sýnir það erlendum fjárfestum að þeim sé alvara og hafi þor og þá byrja fjárfestar að koma inn og þá ekki bara til að kaupa ríkisskuldabréf heldur líka hlutabréf í fyrirtækjum og við það styrkist gjaldmiðillinn.

Ein birtingarmynd fáránleikans í hávaxtastefnu Seðlabankans er að nú liggja um 130 milljarðar af innlánum úr viðskiptabönkunum inni á reikningi í Seðlabankanum sem bankinn borgar 9,5% vexti af. Öllum ætti að vera ljóst að þessir peningar liggja dauðir og leiða ekki til verðmætasköpunar heldur leggjast á byrðar skattgreiðenda. Einnig er ljóst að þessir peningar leita td. ekki í fjárfestingar í íslenskum sprotafyrritækjum á meðan ríkistrygging er á þessum huggulegu dekurvöxtum sem, n.b., eru 8 sinnum hærri en í Noregi.

Skilaboð Seðlabanka Íslands til erlendra fjárfesta eru því einföld, hér á ekki að fara í endurreisn og hér ætla menn að dekra við þá fjárfesta sem eru fastir inni í kerfinu eins og jöklabréfaeigendur, sem að sjálfsögðu er algjör firra.

RAGNAR ÞÓRISSON,

Bloggfærslur 19. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband