10.8.2009 | 00:19
AGS lánin til óþurftar
Þórlindur Kjartansson hagfræðingur vakti athygli á því í vikuni að frekari AGS lán væru gagnslítil. Ég mæli sterklega með grein hans "Ólán í láni" sem birtist á Deiglunni. Hér eru nokkrir punktar úr henni:
1. Ef við tökum það ekki mun erlend skuldastaða ríkisins áfram vera mjög góð í samanburði við önnur lönd, þótt innlend skuldastaða verði verulega slæm.
2. Ef við tökum það þá stendur ekki til að nota það til þess að verja gengi krónunnar, þótt vafasamt sé að treysta stjórnmálamönnum til að standast þá freistingu.
3. Lánaloforðið hefur verið notað til þess að þrýsta á Íslendinga að gangast undir hrikalega ósanngjarna samninga um Icesave skuldbindingarnar og með því að fá ekki lánið ættum við að geta rétt úr bakinu í þeirri deilu.
4. Lánaloforðið hefur haft í för með sér að ekki hefur verið unnt að lækka vexti - og í ofanálag hafa verið sett hér gjaldeyrishöft sem virka eins og fótlóð á hina þreyttu fætur íslensks athafnalífs. Hvernig stuðlar það að "endurreisn íslensks efnahagslífs?" má spyrja.
5. Niðurstaða þess að taka lánin munu líklega verða til þess að með einum eða öðrum hætti (til dæmis með innspýtingu fjár í bankana eða gervi-gengishækkunum) mun stærri hluta kostnaðar af gjaldþroti íslensku einkabankanna verða velt af erlendum áhættufjárfestum og yfir á íslenska skattgreiðendur.
Aðspurðir hafa fleiri hagfræðingar tekið undir sjónarmið Þórlinds.
Eyjan.is leitaði álits Jóns Steinssonar, lektors í hagfræði við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og hafði hann meðal annars þetta að segja:
Ég held að það sé alltof mikið gert úr mikilvægi þess að við byggjum upp stóran gjaldeyrisvaraforða við núverandi aðstæður. Eins og Þórlindur bendir á hafa stjórnvöld þráfaldlega tekið fyrir það að þennan gjaldeyrisvaraforða eigi að nota til þess að styðja við gengi krónunnar. En til hvers er hann þá? Jú, hann skapar ákveðið öryggi varðandi ýmsa erlenda fjámögnun á næstu misserum. En hættan er - eins og Þórlindur bendir á - að stjórnmálamenn og/eða Seðlabankinn freistist til þess að sóa honum í vitleysu eins og stórkostleg gjaldeyrisinngrip til þess að halda í falskt gengi.
Í viðtali við Fréttastofu Stöðvar 2 sagði Jón Daníelsson hagfræðiprófessor við London School of Economics meðal annars þetta:
Ef við setum þetta í samhengi, þá eru þessi lán hærri upphæð en allur Icesave-pakkinn. Ef við höfum ekki efni á að taka Icesave á okkur, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að við höfum ekki heldur efni á að eyða þessum peningum í að styrkja krónuna. Þetta vita allir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum.
Gjaldeyrisvaraforði, sem ekki má eyða, hefur engan tilgang.
Hin hlutlausa fréttastofa RÚV náði greinilega ekki sambandi við Þórlind Kjartansson, Jón Daníelsson né Jón Steinsson vegna málsins en tók hinsvegar viðtal við Vilhjálm Egilsson doktor í hagfræði og framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Spurning RÚV virðist hafa verið sú hvort "gjaldeyrisvarasjóður af þessu tagi sé óþarfur eða hafi ekki tilgang". Vilhjálmur gat auðvitað ekki svarað öðru en að betra væri að hafa stóran gjaldeyrisvarasjóð. Sjá umfjöllun RÚV um málið.
Í tilefni af þessu ritaði Ólafur Arnarson, hagfræðingur og MBA pistil á Pressuna og kemst að eftirfarandi niðurstöðu:
Þess vegna er óhætt að fullyrða að við þurfum ekki að ganga frá Icesave og fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum til að byggja hér upp gjaldeyrisvarasjóð.
Sá sjóður verður vitagagnslaus og mun ekkert gera annað en að ala á falskri öryggistilfinningu þeirra, sem ekki skilja alþjóðlega fjármálamarkaði.
Þetta er allt mjög merkilegt því fram til þessa hefur það verið viðtekinn stóri sannleikur að við þurfum að taka gríðarleg erlend lán frá AGS og víðar til að málin gangi upp.
Reynist það á misskilningi byggt þá kallar það að sjálfsögðu á endurmat á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og það tafarlaust.
Hvernig skyldi ríkisstjórnin bregast við?