Alþingi verður að fella ICESAVE frumvarpið

icesaveAlþingi verður að segja NEI við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á tryggingasjóð innistæðueigenda. Það finnast hvorki lagaleg né siðferðileg rök fyrir því að varpa skuldum einkabanka á saklausan almenning.  Ríkisstjórn Íslands hefur koðnað undan þrýstingi frá Bretum, Hollendingum og öðrum Evrópuþjóðum sem vildu ekki fara dómstólaleiðina vegna þess að þau hefðu tapað málinu á lagarökum. Evrópuþjóðir óttuðust að málareksturinn hefði "kollvarpað trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja" eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu:

Íslensk stjórnvöld hafa allt frá upphafi málsins haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda. Íslensk stjórnvöld bentu einnig á samábyrgð Evrópuríkja vegna þess hve regluverkið varðandi innstæðutryggingar var gallað, enda hafi því ekki verið ætlað að taka til kerfisbundins hruns meginþorra fjármálastofnana á sama tíma. Í ljósi mikilvægis málsins var leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð myndu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeildrar meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja

 

Ef íslendingar höfðu svona rangt fyrir sér og ríkinu bar að greiða það sem á vantar í tryggingasjóðinn, þá stafaði fjármálakerfinu auðvitað engin hætta af málinu þótt það væri tekið fyrir. ESB þorði greinilega ekki að taka þann slag.

Þegar kreppan skall á og bankarnir féllu kusu Bretar og Hollendingar að borga trygginguna út þótt þeim bæri ekki skylda til þess. Þetta gerðu þeir í því skyni að auka traust á bankakerfum sínum og draga þannig úr líkum á falli sinna banka. Þetta var þeirra val og eflaust skynsamlegt. En svo tóku þeir sig saman um að koma skuldinni á íslendinga og þegar lagarök þraut beittu þeir í staðinn þvingunum og hótunum.

Í stað þess að standa og berjast, guggnaði ríkisstjórnin og tók að ganga erinda Evrópu við það að leggja gríðarlegar skuldir á blásaklausa landsmenn. Varlega áætlað 2-3 milljónir á hvert mannsbarn, 12 milljónir á meðalfjölskyldu og við þetta bætast vaxtavextir. Jafnvel í mesta góðærinu voru ekki sérlega margar fjölskyldur sem voru aflögufærar um 12 milljónir. Hugsum okkur nú að ALLAR fjölskyldur leggi til 12 milljónir. Það mun augljóslega steypa þjóðinni í fátækt, jafnvel við bestu skilyrði.

Viðskiptaráðherrann hefur samt haldið því fram í blaðagrein og í þingræðu að þjóðin geti staðið undir þessu. Það er gott að vera bjartsýnn en mér er það óskiljanlegt hvernig ráðherrann getur talið sér trú um þetta. Sigmundur Davíð bendir á í sínu andsvari að þessa skuld þarf að greiða í beinhörðum gjaldeyri og hún er hrein viðbót við allt það eignatjón sem íslendingar þegar mátt þola og allar skuldirnar sem eru nú þegar að sliga fyrirtæki og heimili. 

Önnur ástæða til að fella þetta ICESAVE frumvarp er samningurinn sjálfur sem er vægast sagt mjög einhliða og óaðgengilegur fyrir Ísland. Vextirnir allt of háir og til hvers eru þessi ákvæði um aðför að eignum ríkisins hvar sem þær finnast þegar dráttur verður á greiðslu? Samningurinn gjaldfellur líka í heild sinni ef alþingi setur lög sem Bretar eða Hollendingar telja að ógni greiðslugetu okkar. Þetta þýðir að öll ný lög þurfa að samþykkjast fyrirfram af þessum þjóðum á lánstímanum. Það eitt er óþolandi niðurlæging og skerðing á fullveldi okkar sem þjóðar.

Þessi ómögulegi samningur tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgð á skuld tryggingasjóðsins. Ríkið ber enga ábyrgð á sjóðnum samkvæmt neinum lögum, nema Alþingi sé svo vitlaust að samþykkja það.

Hvað gerist hinsvegar ef Alþingi fellir málið? Lífið heldur áfram. Skuldir okkar verða viðráðanlegri. Krónan styrkist og skuldir í erlendum myntum lækka tilsvarandi. Lánshæfismat skánar. Það verður ekki slökkt á Íslandi. Bretar og Hollendingar munu vilja semja, það er þeirra hagur að ná einhverju út úr okkur. 

Alþjóðasamfélagið mun ekki fordæma smáþjóð fyrir að standa á lagalegum rétti sínum. Jafnvel þótt öll ESB lönd velji að ríkistryggja sína innlánstryggingasjóði umfram lagaskyldu þá skapar það ekki lagalega skyldu fyrir Ísland að gera það sama.

Það mun enginn fordæma Ísland fyrir að hafna samningi sem það getur ekki staðið við.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki afturkalla lánin þótt við stöndum á rétti okkar í þessu máli.

Evrópusambandið mun ekki hafna aðildarumsókn Íslands, því miður. Því við höfum ekki brotið nein lög Evrópusambandsins. Við fórum einmitt eftir lögunum í hvívetna.

Bretar og Hollendingar munu heldur ekki mótmæla inngöngu Íslands, því miður, því þeir hafa mikla hagsmuni af því að við göngum þar inn - hvernig sem þetta ICESAVE mál velkist.


Bloggfærslur 7. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband