31.7.2009 | 01:22
ICESAVE - Okkur ber ekki að borga - punktur
Íslenska ríkinu ber ekki að ábyrgjast tryggingasjóð innistæðna. Ríkið hefur rækt allar skyldur sínar af kostgæfni um að koma á fót slíkum sjóði í samræmi við lög ESB. Þau lög kalla hinsvegar hvergi á ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðna. Hefði verið um ríkisábyrgð að ræða hefði það að sjálfsögðu verið orðað þannig í lögum ESB.
Bretar og Hollendingar kusu að ábyrgjast innistæður
Bretum og Hollendingum bar heldur ekki að borga innistæðueigendum út trygginguna en þeir ákváðu samt að gera það. Með þessu vildu þeir draga úr líkum á áhlaupi á aðra banka enda var þetta í miðju hruninu. Þetta var þeirra val og gert til að verja aðra og stærri hagsmuni.
Þessi ákvörðun skuldbatt ekki íslenska ríkið
Hvorki Landsbankinn né tryggingasjóðurinn voru á ábyrgð ríkisins. Bretar og Hollendingar vissu það vel þegar þeir greiddu innistæðueigendum trygginguna. Þeir vilja samt knýja Íslendinga til að taka á sig trygginguna ef þess er nokkur kostur og þótt engin lög kveði á um að okkur beri að verða við því.
Bresk og Hollensk yfirvöld beita þrýstingi og hótunum til að knýja sitt fram. Þau reyna að spilla fyrir því að Ísland fái lán frá vinaþjóðum eða Alþjóðagjaldeyrissjóði. Þau róa gegn því að umsókn Íslands í ESB fái jákvæðar viðtökur. Þetta er ólíðandi framkoma og í raun ofbeldi.
Hin duglausa ríkisstjórn Íslands gætir ekki réttar okkar
Í stað þess að taka til varna, kynna okkar málstað erlendis og láta reyna á lögmæti krafna hefur ríkisstjórn Íslands bara gefist upp og gengið að ýtrustu kröfum viðsemjenda.
Icesave samningurinn verður samninganefndinni og ríkisstjórn til ævarandi skammar og það er með ólíkindum að slíkt plagg sé lagt fyrir Alþingi. Enn verra er að ríkisstjórnin hefur leynt þing og þjóð ýmsum mikilvægum gögnum um málið. Það er grafalvarlegt mál sem umboðsmaður Alþingis ætti að taka til rannsóknar án tafar.
Hagsmunir Íslands og réttlætið kalla á að þessum samningi verði hafnað einróma af þingmönnum.
En hvað gerist þá?
Lífið heldur áfram sinn vanagang.
Yfirvofandi skuldsetningu þjóðarinnar um c.a. 700 milljarða í erlendum gjaldeyri er afstýrt. Krónan mun án efa styrkjast við það. Skatta þarf ekki að hækka eins mikið og á horfðist. Þetta tvennt mun bæta afkomuhorfur íslensks efnahagslífs verulega.
Erlendir fjölmiðlar munu hafa áhuga á deilunni og við munum því fá næg tækifæri til að kynna heiminum okkar málstað. Málstaður Íslands er réttlátur og allir munu geta séð að þær byrðar sem áformað var að leggja á íslensk heimili hefðu verið óbærilegar.
Ísland verður ekki sett í viðskiptabann enda höfum við ekki brotið nein lög. Það er almenn andstaða við slíkar aðgerðir enda bitna þær ávallt á þeim er síst skyldi. Ef svo ólíklega færi að Bretar og Hollendingar settu bann á viðskipti við Ísland mætti beina viðskiptum til annarra landa í Evrópu. Slíkt bann myndi á endanum bitna meira á Breskum og Hollenskum fyrirtækjum en Íslenskum.
Lán frá AGS og vinaþjóðum munu ekki stranda lengi á Icesave málinu. Kröfuhafar Íslands víða um heim munu þrýsta á AGS að lána Íslandi svo þeir geti fengið greitt.
Er íslenska ríkið þá orðið ómerkt orða sinna?
Því hefur verið haldið á lofti að íslenska ríkið (eða fulltrúar þess) hafi gefið breskum og hollenskum yfirvöldum loforð um að íslenska ríkið myndi standa á bak við innistæðutrygginguna. Hafi slík loforð verið gefin í raun og veru þá er spurning hvort þau voru gefin undir þrýstingi frá mótaðila. Einnig er spurning hvort mótaðili mátti vita að loforðið hlyti að vera með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að lokum er spurning hvers vegna þurfti slíkt loforð yfirleitt ef íslenska ríkinu var skylt að lögum að standa á bak við tryggingasjóðinn.
Ég hef reyndar hitt kjósanda sem finnst rétt að staðið sé við öll loforð sem talsmenn þjóðarinnar gefa út jafnvel þótt talsmaðurinn hafi þar með farið langt út fyrir sitt umboð. Ef gengið sé á bak slíkum loforðum sé Ísland sem ríki búið að missa traust annarra þjóða.
Talsmaður, ráðherra eða forsætisráðherra sem gefur loforð án þess að hafa til þess nauðsynlegt umboð getur ekki skapað þjóðinni nokkra skyldu. Hér á ekki að skipta máli hvort mótaðilinn er erlent ríki eða innlendur aðili. Þetta skilja fulltrúar erlendra ríkja mætavel enda er sama fyrirkomulag hjá þeim.
Staðreyndin er sú að ef við öxlum þessa gríðarlegu og óréttmætu byrði þá aukast mjög líkur á að Ísland geti ekki staðið við fjölmargar aðrar skuldbindingar og skyldur sem við eigum með réttu að standa við. Þá verðum við örugglega ómerk orða okkar.
Íslendingar njóta trausts í útlöndum og munu gera það áfram þótt þeir neiti að láta undan þvingunum til að undirgangast óréttmætar og óbærilegar skuldbindingar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)