17.5.2009 | 22:33
Hafa EFTA ríkin engin áhrif á ESB löggjöf?
Margir halda því fram að Ísland sem EFTA ríki hafi engin áhrif á löggjöf sem kemur frá ESB. Við skoðun á EES samningnum, einkum gr. 99 og gr. 100 kemur hins vegar skýrt fram að EFTA ríkin skulu höfð með í ráðum. Framkvæmdastjórn ESB er skylt að leita ráða hjá sérfræðingum EFTA ríkjanna við undirbúning að nýrri löggjöf sem EES samningurinn tekur til.
99. gr.
1. Þegar framkvæmdastjórn EB hefur undirbúning að nýrri löggjöf á sviði sem samningur þessi tekur til skal hún óformlega leita ráða hjá sérfræðingum EFTA-ríkjanna á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkja EB við mótun tillagnanna.
2. Þegar framkvæmdastjórnin sendir ráði Evrópubandalaganna tillögur sínar skal hún senda afrit af þeim til EFTA-ríkjanna.
Fyrstu skoðanaskipti skulu fara fram í sameiginlegu EES-nefndinni óski einhver samningsaðila þess.
3. Á þeim tíma sem líður fram að töku ákvörðunar í ráði Evrópubandalaganna skulu samningsaðilar, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan í sameiginlegu EES-nefndinni að beiðni einhvers þeirra á öllum tímamótum á leið að endanlegri töku ákvörðunar.
4. Samningsaðilar skulu starfa saman af heilum hug á upplýsinga- og samráðstímabilinu með það fyrir augum að auðvelda ákvarðanatöku í sameiginlegu EES-nefndinni í lok meðferðar málsins.
Þessi grein veitir Íslandi greiðan aðgang að framkvæmdastjórn ESB frá upphafi til loka undirbúningsferlis að nýrri löggjöf. Ráðherranefnin metur hvort hún nýtir sér þau ráð sem sérfræðingar Íslands leggja til, en hafnar eflaust því sem ekki er talið nýtilegt við lagagerðina. Það verður að teljast mikil bjartsýni að ráðleggingar Íslands vegi eitthvað þyngra eftir inngöngu í ESB. Við erum nú þegar með fullan tillögurétt á lagasamningarstiginu og bætir litlu við þótt við fengjum 0.06% atkvæðarétt í þinginu.
100. gr.
Framkvæmdastjórn EB skal tryggja sérfræðingum EFTA-ríkjanna eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að tillögum er síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem eru framkvæmdastjórninni til aðstoðar við beitingu framkvæmdarvalds hennar. Í þessum málum skal framkvæmdastjórn EB, þegar hún gengur frá tillögum, ráðgast við sérfræðinga EFTA-ríkjanna á sama grundvelli og hún ráðgast við sérfræðinga aðildarríkja EB.
Í þeim tilvikum þegar mál er til meðferðar hjá ráði Evrópubandalaganna í samræmi við starfsreglur sem gilda um viðkomandi nefnd skal framkvæmdastjórn EB koma áliti sérfræðinga EFTA-ríkjanna á framfæri við ráð Evrópubandalaganna.
Þessi grein tryggir sérfræðingum frá EFTA ríkjunum eins víðtæka þátttöku og unnt er og skyldar framkvæmdastjórn ESB til að ráðgast við EFTA ríkin á sama grundvelli og við ESB ríkin.
Það er vonandi öllum ljóst af lestri greina 99 og 100 að Ísland hefur MJÖG mikla möguleika til að hafa áhrif á lagasetningu framkvæmdastjórnar ESB. Nánast til jafns við ESB ríkin sjálf. Það er vandséð að áhrif okkar aukist nokkuð við það að fá 0.06% atkvæða.
Á vef Samfylkingarinnar segir neðarlega á þessari síðu.
Vissir þú:
... að Íslendingar þurfa nú þegar samkvæmt EES-samningnum að taka upp þrjá fjórðu hluta þeirrar löggjafar sem felst í Evrópusambandsaðild en hafa engin áhrif á efni hennar?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)