Tónlistarhúsið og valkostirnir þrír

Allt stopp

Framkvæmdir við tónlistarhúsið hafa legið niðri síðan í byrjun janúar en þá höfðu Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) ekki fengið greitt fyrir vinnu við byggingu hússins í 3 mánuði. Sagt er að viðræður séu í gangi milli ríkis, borgar sem eiga Austurhöfn-TR um yfirtöku á Portus sem sá um fjármögnun, byggingu og rekstur tónlistarhússins. Viðræðurnar munu vera flóknar og hafa tekið langan tíma. Öðru hvoru fréttist að aðilar séu bjartsýnir um að samningar náist fljótlega.

Hvernig sem fer er ljóst að ríki og borg þurfa að taka að sér að fjármagna framhaldið. Kostnaður hússins, sem upprunalega var áætlaður 12 milljarðar, verður líklega mun meiri enda er krónan fallin og vextir miklu hærri en lagt var upp með.

Ríki og borg standa nú frammi fyrir þremur valkostum.

1 Hætta við
Þjóðin skuldar of mikið. Þeir peningar sem til eru verða að fara til arðbærari og brýnni verkefna. Ókláruð byggingin liggur undir skemmdum og verður rifin eftir nokkur ár.

Tap: Giskum á 7 milljarða.

2 Bíða
Gerum bara nóg til að forða eignum frá tapi. Setjum upp hjúpinn, sem er sagður langt kominn í framleiðslu, gerum húsið fokhelt. Klárum svo hitt þegar við höfum efni á því.

Viðbótarfjárfesting: Giskum á 5 milljarða.

3 Klára
Komum húsinu í rekstrarhæft form svo það geti aflað tekna upp í kostnað með ráðstefnum og tónleikahaldi. 

Viðbótarfjárfesting: Giskum á 10 milljarða.

Allt eru þetta vondir kostir en við þurfum að velja. Ég vel leið 2 að gera fokhelt og bíða svo með restina. Sú leið forðar eignatjóni, skapar störf og heldur því opnu að húsið klárist í framtíðinni. Of dýrt að klára húsið strax.

Ef leið 2 kostar 5 miljarða þá eru það samt miklir peningar og erfitt að réttlæta slíka fjárfestingu á sama tíma og skera þarf niður í öllum ríkisútgjöldum. 

hjúpurinnEn gefumst ekki upp strax. Það eru án efa til þeir einstaklingar, listamenn og fyrirtæki sem vilja styðja verkefnið. Glerhjúpur Ólafs Elíassonar er stórfenglegt listaverk sem margir hérlendis og erlendis vilja sjá verða að veruleika.

Hefjumst handa núna við að stofna og kynna vinafélag tónlistarhússins. Það félag myndi hefja undirbúning að söfnun fjármagns til að ljúka húsinu. 

Vinafélagið gæti haldið úti vefsíðu þar sem tekið væri á móti frjálsum framlögum. Nafnalisti gefenda verður varanlegur hluti af húsinu. Allir sem gefa er með í happadrætti hússins svo lengi sem þeir lifa. Þeir fá afslætti á viðburði, enda eru þeir í raun búnir að borga fyrirfram. Það eru til ótal fyrirmyndar af svona átaksverkefnum erlendis, fullt af hugmyndum sem má nýta og óþarfi að finna hjólið upp.

Vinafélag tónlistarhússins gæti líklega safnað nokkrum milljörðum. Megnið af framlögum væru smá en nokkur væru stór. Er svona útkoma nokkuð óhugsandi á tveimur árum?  

100.000 x           1.000 kr = 100.000.000 kr
  50.000 x         10.000 kr = 500.000.000 kr
  10.000 x         50.000 kr = 500.000.000 kr
    5.000 x       100.000 kr = 500.000.000 kr
    1.000 x       500.000 kr = 500.000.000 kr
       500 x    1.000.000 kr = 500.000.000 kr
       100 x    5.000.000 kr = 500.000.000 kr
         10 x  10.000.000 kr = 100.000.000 kr

Samtals: 3.2 milljarðar. Tja... virðist ekki alveg ómögulegt.

Sumir myndu núna benda hversu miklu betur slíkum fjármunum væri varið til þarfari mála, t.d. að hlúa að öldruðum eða greiða niður skuldir þjóðarinnar. Það væri rétt ef þetta væru skattar en þetta eru frjáls framlög. Peningar sem fólk ræður hvað það gerir við og engin leið að vita hvort féð hefði nýst í eitthvað verðugra ef það hefði ekki verið gefið til tónlistarhússins.

Viðhorf mitt til tónlistarhússins er semsé að ríki og borg eigi að hætta þessu hangsi. Taka ákvörðun strax um að klára hjúpinn og gera húsið fokhelt svo það grotni ekki niður. Stofnsetja vinafélag án tafar og opna farveg fyrir frjáls framlög.


Bloggfærslur 25. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband