Er lýðræði á Íslandi?

skjaldarmerki

Ef það kallast lýðræði að setja á svið gjörning þar sem kjósendur setja stafinn X við framboðslista á fjögurra ára fresti en hafa samt ekki minnstu áhrif á afdrif mála, þá er lýðræði á Íslandi. En það er langt frá því að vera fullkomið.

Sigurvegarar kosninga fá umboð til að stýra landinu. Þeir virðast geta notað umboðið til að þverbrjóta gefin kosningaloforð og í raun farið beint gegn vilja kjósenda. Stjórnvöld fá frítt spil í allt að fjögur ár nema gerð sé bylting í millitíðinni.

Kjósendur hafa fá úrræði önnur en byltingu sem er mikið vesen. Þeir láta því frekar óstjórnina yfir sig ganga.

Þetta form lýðræðis hefur eflaust þótt mikið framfaraskref á sínum tíma. En það er óralangt síðan og við búum nú að allt öðrum möguleikum tæknilega. Hvers vegna hefur þá lýðræðið staðið í stað allan þennan tíma?  

Þeir sem bíða eftir því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að því að gera lýðræðið eitthvað virkara geta búið sig undir að bíða mjög lengi. Stjórnmálamenn vilja meiri áhrif, ekki minni. Enda hafa ekki verið gerðar neinar umbætur til að gera fyrirkomulagið lýðræðislegra, ef eitthvað er, þá hefur valdið færst fjær kjósendum. 

Þetta gamaldags lýðræði hefur ekki reynst þjóðinni sérlega vel. Stjórnvöld hafa alla tíð legið undir ámæli fyrir hagsmunapot, samkrull við valdaklíkur og sérhagsmunaöfl sem vilja skammta sér sérstöðu og auðæfi sem auðvitað koma frá þjóðinni sjálfri. Nægir að nefna sambandið, kolkrabbann og síðast en ekki síst bankana.

Núna eru stjórnvöld að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Milljarðaskuldir fyrirtækja eru skrifaðar niður, reglurnar eru óljósar og upplýsingar um hverjir fá hvað afskrifað eru algert trúnaðarmál. Hér er mikil hætta á ferðum. Þjóðin þarf að vita hvað er að gerast.

En ríkisstjórnin hefur öll völd og hún notar þau óspart. ESB og Icesave voru bókstaflega keyrð í geng þvert á vilja þings og þjóðar. Stjórnin þverneitaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort sótt yrði um inngöngu í annað ríkjabandalag. Endanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verður svo aðeins ráðgefandi fyrir þingið. Fleira mætti nefna í sama dúr, niðurstaðan er að þjóðin hefur engin völd.

Sættir þjóðin sig við svona lýðræði?

Vonandi ekki, enda engin ástæða til. Við erum nefnilega í ágætri aðstöðu til að þróa lýðræðið á næsta stig. Þjóðin er lítil, vel menntuð og tæknivæðing með því besta sem gerist. Við getum vel breytt þessu til betri vegar ef við bara nennum því.

Nú þegar eru nokkrir hópar af dugnaðarforkum byrjaðir að vinna að endurbættu lýðræði. Ég vona að þeim vinnist verkefnið hratt og vel. Hvet alla til að leggja þeim lið.

Lýðræði er ekki raunverulegt nema kjósendur sjálfir ráði því hvort þeir taka afstöðu til einstakra mála eða hvort þeir láta kjörinn fulltrúa sinn taka ákvörðun fyrir sína hönd.

Meira:

http://www.lydveldisbyltingin.is 

http://www.skuggathing.is/ 

http://www.lydraedi.is


Þurfum við virkilega meiri steinsteypu núna?

surgery_468x399Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er nú í fullum gangi. Lokanir á skurðstofum og uppsagnir eru daglegt brauð. Fall krónunnar bætir gráu ofan a  svart, því laun starfsfólks í heilbrigðisstéttum á Íslandi eru nú orðin ósamkeppnisfær við það sem býðst á norðurlöndunum. Hættan á landflótta í heilbrigðisstétt magnast. Hvað er til ráða?

Einhvern veginn datt mér ekki í hug að lausnin væri sú að byggja fleiri sjúkrahús. Þess vegna brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt á RÚV:

Bygging nýs sjúkrahúss er gríðarlega stórt verkefni og var minnst sérstaklega á það í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í sumar. Viðræður ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun þessa verkefnis hafa tafist að undanförnu ekki síst vegna Icesave-samningsins. Þær eru nú að komast á skrið aftur og er fundur um verkefnið í viðræðunefnd í dag.[Heimild RÚV]

Það er mikilvægt að halda í störf í byggingariðnaði en það er virðist þó vera enn mikilvægara að halda í störf í heilbrigðiskerfinu. Sé það ekki gert kemur óhjákvæmilega að því að biðraðir munu lengjast eftir þjónustu, einnig eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eins og skurðaðgerðum, krabbameinslækningum og bráðamóttöku. Biðraðir voru samt nógu langar áður en niðurskurðurinn hófst:

Sjúklingar hér heima þurfa yfirleitt að bíða sárþjáðir í 327 daga eftir mjaðmaaðgerð, svo að dæmi sé tekið: þetta mun vera Evrópumet. Gamalt fólk þarf jafnan að bíða í 18 mánuði eftir plássi á dvalarheimilum og þannig áfram. [Vísbending 2004, Þorvaldur Gylfason]

Eftir því sem heilbrigðisþjónusta okkar verður lakari og ósamkeppnishæfari við það sem býðst í nágrannalöndum þá magnast hættan á landflótta. Eins og venjulega, þá fara þeir fyrstir sem hafa mesta menntun og mesta möguleika til að skapa verðmæti í kringum sig og eftir sitja hinir til að takast á við vandann.

Er óhætt að skera frekar niður í heilbrigðiskerfinu þegar lækkun krónunnar er nú þegar búin að lækka laun í heilbrigðisstétt um helming?

Þessi sjúkrahúsbygging verður að bíða betri tíðar.  Fjármagnið ætti frekar að nota til að halda heilbrigðiskerfinu í fullum gangi og draga úr landflótta hjá heilbrigðisstéttum. Það er arðbær fjárfesting.


Greinin sem Morgunblaðið birti ekki

Meðfylgjandi er grein sem ég sendi Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en alþingi greiddi atkvæði um umsókn inn í Evrópusambandið. Greinin var af einhverjum ástæðum aldrei birt sem var auðvitað mjög leitt.  Hér kemur greinin í heild sinni.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert tillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu en aðildarviðræður geta ekki hafist án þess að slík umsókn sé lögð fram áður. Þegar taka skal ákvörðun af slíkri stærðargráðu hlýtur það að teljast lágmarkskrafa að allur undirbúningur sé sérstaklega vandaður og sem breiðust samstaða um málið. 

Asi og óeining
Tillaga stjórnarflokkana ber þess hinsvegar merki að vera unnin í flýti og í beinni andstöðu við stóran hluta þingheims og líklega meirihluta landsmanna, ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Tillagan innifelur hvorki skýr markmið né áætlun um ávinning af aðild. Ekkert mat er lagt á kostnað við umsóknar- og samningsferlið sem þó hlýtur að nema hátt í milljarð eða jafnvel meir. Slíka fjárfestingu ætti aldrei að leyfa nema sterk rök fylgi um mikinn ávinning fyrir þjóðina. 

Aðild að ESB er engin lausn 
ESB mun ekki greiðar skuldir Íslands og það tekur mörg ár, ef ekki áratugi að uppfylla skilyrði um evruaðild. Þrátt fyrir aðild að ESB, glíma Írar, Spánverjar, Grikkir, Pólverjar og Lettar við gríðarlegan efnahagsvanda en fá litla aðstoð frá ESB. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kallaður inn. Það er því ljóst að ESB aðild hvorki hindrar aðildarþjóðir í að gera mistök né forðar þeim úr vanda. Við þurfum að leysa sjálf úr okkar vandamálum.

Gríðarlegur kostnaður við umsókn 
Fyrri ríkisstjórn eyddi hálfum milljarði í draum um sæti í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Það mistókst. Ljóst er að samningaferlið við ESB verður enn dýrara. Það mun standa í tvö ár hið minnsta og útheimta gríðarlega vinnu sérfræðinga, ráðuneyta og sendinefnda. Heimsækja þarf ráðamenn 27 aðildarríkja til að hvetja þá til að samþykkja umsókn Íslands og líka til að afla fylgis sjónarmiðum okkar um varanlegar undanþágur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og fleira í þeim dúr. Jafnvel þótt samningaferlið kostaði okkur "bara" einn milljarð væru það samt gríðarleg útgjöld fyrir þjóð sem þarf að leggja í sársaukafullann niðurskurð á öllum sviðum. 

Sundrung á versta tíma 
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta er þegar orðið mikið hitamál sem mun skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar einmitt þegar það er mikilvægara en nokkru sinni að allir vinni saman að því að vinna landið upp úr kreppuni. 

Óvissa ríkir fram að þjóðaratkvæðagreiðslu 
Aðildarsinnar gefa sér að óvissu sé eytt með því að leggja inn umsókn og útlendingar fái þá strax meira traust á landinu. Töluverðar líkur eru hins vegar á því að þjóðin muni hafna aðild. Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti landsmanna vilji ekki ganga í ESB og fylgi við aðild hefur farið minnkandi. Skynsamir útlendingar munu því áfram vera í óvissu um aðild þar til þjóðaratkvæði hefur farið fram um samninginn. 

Spyrjum þjóðina áður en gert er bjölluat hjá 27 evrópulöndum 
Norðmenn hafa í tvígang fellt aðildarsamninga við ESB. Kostnaður var mikill og samskipti urðu stirðari við Evrópu í nokkurn tíma á eftir. Nú eru sáralitlar líkur á að Norðmenn sæki um aftur nema yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé því fylgjandi í skoðanakönnunum. Getum við kannski lært eitthvað af reynslu Norðmanna? Góð byrjun væri að kynna þjóðinni kosti og galla aðildar með hlutlausum hætti, þýða Lissabon sáttmálan hvetja til umræðu og kanna hug þjóðarinnar með skoðanakönnunum. 

Kynnum okkur fyrst það sem hægt er að vita 
Aðildarsinnar halda því fram að það sé ómögulegt að komast að því hvað felst í aðild nema sótt sé um og gengið til samninga. Þetta er alrangt því það er til miklu ódýrari og fljótlegri leið. Allir sáttmálar, reglur og aðildarsamningar Evrópusambandsins liggja fyrir. Við getum nú þegar vitað 95% af því sem máli skiptir að vita. Það er reyndar með ólíkindum að ekki sé búið að þýða Lissabon sáttmálann og kynna hann áður en þingið er krafið um að móta afstöðu til aðildarumsóknar. 

Óraunhæfar væntingar um undanþágur 
Væntingar aðildarsinna um varanlegar undanþágur frá meginreglum ESB virðast óraunhæfar ef eitthvað er að marka orð embættismanna ESB. Aðrar þjóðir hafa ekki fengið umtalsverðar varanlegar undanþágur og spurning hvers vegna þær ættu að una Íslandi þess að fá undanþágur sem þeim var sjálfum neitað um. Sambandinu er meinilla við undanþágur. Samningstaða okkar gæti ekki verið slakari en einmnitt núna. Jafnvel þótt einhverjar varanlegar undanþágur fengjust á einhverjum sviðum er óvarlegt að treysta því að þær haldi til langframa. Evrópusambandið er í stöðugri þróun og hún hættir ekki þótt Ísland gangi í það. 

Tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn er illa undirbúin, hún er nýtur hvorki fylgis þings né þjóðar. Ávinningur af henni er óljós og væntingar ríkisstjórnar um undanþágur eru óraunhæfar. Fyrirsjáanlegur kostnaður er gríðarlegur. Málið er til þess fallið að sundra þjóðinni einmitt þegar hún þarf að vera samstíga í lausn aðsteðjandi vandamála.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband