Umsögn: Peningavaldið og stjórnarskráin

Umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012: 

Peningavaldið - Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.


Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.

Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt.

Stjórnarskrá þarf einnig að gera greinarmun á valdi til útgáfu og úthlutunar nýrra peninga en þessi tvö valdsvið mega ekki vera á sömu hendi.

Það hlýtur að teljast alvarlegur galli á stjórnarskrárfrumvarpinu að í því sé ekki gerð tilraun til að koma böndum á peningavaldið.

GREINARGERÐ

Taumlaus peningamyndun er meginorsök hrunsins
Við einkavæðingu viðskiptabankanna árið 2002 færðist peningavaldið að mestu leiti frá ríkinu til eigenda bankanna. Á næstu fimm árum ríflega fimmfölduðu einkabankarnir peningamagn í umferð. Sú aukning var gersamlega úr samhengi við vöxt þjóðartekna og afleiðingin var hrun gjaldmiðilsins.

Enn hefur ekkert verið gert til að koma peningavaldinu í skjól fyrir sérhagsmunum. Enn hafa einkabankarnir aðstöðu til að búa til peninga og ákveða hver skuli fá nýja peninga. Verði þessu ekki breytt, mun það halda áfram að bitna á landsmönnum með verðbólgu, vaxtabyrði, óstöðugleika og skuldsetningu.

Viðskiptabankar búa til ígildi peninga með útlánum
Viðskiptabankar eru í aðstöðu til að skapa ígildi peninga með útlánum. Viðskiptabanki skapar ígildi peninga með því að veita lán og afhenda lántakanda innstæðu í stað seðla. Innstæðuna býr bankinn til úr engu. Innstæðan er í raun loforð bankans um að afhenda seðla hvenær sem óskað er. Innstæðan er handhægari en seðlar og lántaki og allir aðrir líta á innstæðu í banka sem ígildi peninga, enda er hægt að nota þær til að greiða skuldir og jafnvel skatta.

Peningamyndun er skattheimta
Bankinn hagnast mjög á því að búa til ígildi peninga, því hann greiðir litla sem enga vexti á innstæðuna en innheimtir hins vegar markaðsvexti á útlánið. Íslenskir bankar hafa búið til 1.000 milljarða með þessum hætti og nema tekjur banka af vaxtamun inn- og útlána tugum milljarða árlega.

Banki sem eykur eigið fé sitt um 2 milljarða getur búið til 25 milljarða af nýjum innstæðum og lánað þær út (miðað við 8% eiginfjárkröfu). Þegar veitt eru ný lán myndast innlán sem eru nýir peningar og rýra verðgildi þeirra peninga sem fyrir eru. Innstæður í bönkum eru í minna mæli óverðtryggðar en útlán og bankar græða því á rýrnun þeirra.

Fái bankar að beita peningavaldinu í eigin þágu, er ekki við öðru að búast en þeir leggi sig alla fram um að auka gróða sinn af vaxtamun og verðbólgu, þótt það verði á kostnað alls almennings.

Alþjóðlegt vandamál
Sama fyrirkomulag peningamála er við lýði í nær öllum löndum. Peningavaldið er víðast hvar komið í hendur einkaaðila. Afleiðingin er nánast taumlaus peningaprentun. Vaxtabyrði þjóða af því að hafa gjaldmiðil sinn að láni frá einkabönkum þyngir í sífellu skuldabyrði þeirra. Svo er komið að alvarleg skuldakreppa ríkir í heiminum og á torgum stórborga safnast almenningur saman til að mótmæla ráðaleysi stjórnvalda.

Peningavaldið tilheyrir þjóðinni
Taka þarf peningavaldið frá viðskiptabönkunum og skipta því upp milli seðlabanka og ríkisstjórnar landsins.

En það nægir ekki að koma peningavaldinu til ríkisins, einnig þarf að tryggja tvískiptingu valdsins til að draga úr freistnivanda.

Seðlabanki fari með útgáfuvald peninga
Seðlabankinn gefur í dag út seðla og mynt, en þessir miðlar eru sáralítið notaðir í viðskiptum. Bankainnstæður (rafrænir peningar) búnar til af einkabönkum eru uppistaðan í peningamagni landsins. Bankar skapa peninga með útlánum og nær allt fé í landinu er myndað með þessum hætti og ber vexti sem greiðast bönkum. Þessu þarf að breyta.

Aðeins Seðlabanki ætti að hafa leyfi til að búa til peninga fyrir  fyrir hagkerfið og hann getur gert það án skuldsetningar.

Seðlabanki á að meta og stýra því hve mikið peningamagn er í hagkerfinu á hverjum tíma, út frá þjóðhagslegum markmiðum eins og verðbólgu, sjálfbærum hagvexti, atvinnuleysi og fleiri þáttum.

Ríkisstjórn fari með úthlutunarvald peninga
Í dag ákveða bankar hverjum skuli afhenda nýtt fé og til hvers það skal notað. Hagsmunir bankans ráða þar för, þótt nýir peningar rýri alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.

Þar sem nýir peningar valda kostnaði hjá öllum almenningi, er eðlileg krafa að nýjum peningum sé ráðstafað með lýðræðislegum hætti. Ríkisstjórn er best til þess fallin og getur gert það með fjárlögum.

Nánari upplýsingar um peningavald og skiptingu þess má finna á www.betrapeningakerfi.is

Virðingarfyllst


Frosti Sigurjónsson
rekstrarhagfræðingur

Umsögn um 67. grein frumvarps um stjórnarskrá

Eftirfarandi umsögn hefur verið mótttekin af stjórnlaga- og eftirlitsnefnd Alþingis: 

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Nefndasvið Alþingis
nefndasvid@althingi.is
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 9. desember 2012



Umsögn um 67. grein frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.

 

 

Í 67. grein eru settar afar víðtækar takmarkanir við því hvaða málum kjósendur geti vísað til þjóðaratkvæðis. Þessar takmarkanir sem eru bæði matskenndar og ólýðræðislegar, munu fyrirsjáanlega leiða til vandamála.


Svo virðist sem Stjórnlagaráði hafi verið þessi hætta ljós, enda er í greininni tekið fram að ágreiningi um túlkunaratriði skuli vísað til dómstóla. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða óvissa, tafir og kostnaður bíður kjósenda sem þurfa að fara dómstólaleiðina til að fá skorið úr um slíkan ágreining.


Ákvæðið um að túlkun dómstóla skuli ráða hvort kjósendur fái að tjá sig um einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, virðist opna á þann möguleika að dómstólar fái óbeint löggjafarvald. Dómstólar geta endað í þeirri aðstöðu að þurfa að skera úr um hvort kjósendur megi beita málskoti eða frumkvæði um lagasetningu sem hafa myndi áhrif á dómstólana sjálfa beint eða óbeint. Slíkt fyrirkomulag gengur gegn þrískiptingu valdsins.


Þrátt fyrir að 67. gr. beri yfirskriftina “Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæða- greiðslu” þá segir greinin ekkert sem máli skiptir um framkvæmdina en vísar í staðinn þeim atriðum til löggjafans án fyrirvara eða leiðsagnar.

Að fenginni reynslu í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni (sjá viðauka) er einmitt full ástæða til að stjórnarskrá gefi stjórnvöldum og löggjafanum sem minnst svigrúm til að draga úr málskotsvaldi kjósenda með óheppilegri lagasetningu.


Það, að undanskilja ákveðna málaflokka málskots- og frumkvæðisrétti er takmörkun á beinu lýðræði og í raun lítt dulbúin mógðun við skynsemi almennra kjósenda. Það er lítil bót í því að forsetavaldið sé ekki háð sömu takmörkunum.

Það getur ekki verið ásættanlegt að þjóðin þurfi til framtíðar að reiða sig á afstöðu og kjark eins manns þegar hún telur nauðsynlegt að ganga gegn vilja Alþingis og vísa mikilvægum málum til þjóðaratkvæðis. 

Virðingarfyllst,


Frosti Sigurjónsson, rekstrahagfræðingur
félagi í Advice hópnum

(Umsögnin ásamt viðauka er hér)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband