Þurfum við virkilega meiri steinsteypu núna?

surgery_468x399Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er nú í fullum gangi. Lokanir á skurðstofum og uppsagnir eru daglegt brauð. Fall krónunnar bætir gráu ofan a  svart, því laun starfsfólks í heilbrigðisstéttum á Íslandi eru nú orðin ósamkeppnisfær við það sem býðst á norðurlöndunum. Hættan á landflótta í heilbrigðisstétt magnast. Hvað er til ráða?

Einhvern veginn datt mér ekki í hug að lausnin væri sú að byggja fleiri sjúkrahús. Þess vegna brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt á RÚV:

Bygging nýs sjúkrahúss er gríðarlega stórt verkefni og var minnst sérstaklega á það í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í sumar. Viðræður ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun þessa verkefnis hafa tafist að undanförnu ekki síst vegna Icesave-samningsins. Þær eru nú að komast á skrið aftur og er fundur um verkefnið í viðræðunefnd í dag.[Heimild RÚV]

Það er mikilvægt að halda í störf í byggingariðnaði en það er virðist þó vera enn mikilvægara að halda í störf í heilbrigðiskerfinu. Sé það ekki gert kemur óhjákvæmilega að því að biðraðir munu lengjast eftir þjónustu, einnig eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eins og skurðaðgerðum, krabbameinslækningum og bráðamóttöku. Biðraðir voru samt nógu langar áður en niðurskurðurinn hófst:

Sjúklingar hér heima þurfa yfirleitt að bíða sárþjáðir í 327 daga eftir mjaðmaaðgerð, svo að dæmi sé tekið: þetta mun vera Evrópumet. Gamalt fólk þarf jafnan að bíða í 18 mánuði eftir plássi á dvalarheimilum og þannig áfram. [Vísbending 2004, Þorvaldur Gylfason]

Eftir því sem heilbrigðisþjónusta okkar verður lakari og ósamkeppnishæfari við það sem býðst í nágrannalöndum þá magnast hættan á landflótta. Eins og venjulega, þá fara þeir fyrstir sem hafa mesta menntun og mesta möguleika til að skapa verðmæti í kringum sig og eftir sitja hinir til að takast á við vandann.

Er óhætt að skera frekar niður í heilbrigðiskerfinu þegar lækkun krónunnar er nú þegar búin að lækka laun í heilbrigðisstétt um helming?

Þessi sjúkrahúsbygging verður að bíða betri tíðar.  Fjármagnið ætti frekar að nota til að halda heilbrigðiskerfinu í fullum gangi og draga úr landflótta hjá heilbrigðisstéttum. Það er arðbær fjárfesting.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Tóm steypa.

Hörður Halldórsson, 8.9.2009 kl. 03:42

2 identicon

Mætti halda að BM Vallá stjórni landinu núna, þvílík er steypan.....

Arni Thor Gudmundsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 05:51

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hefur það engin áhrif á skoðun þína að hagræðing af því að byggja nýjan spítala hefur verið reiknuð 2 milljarðar á ári?  Er það ekki afar arðbær fjárfesting?

Það er verið að tala um að fá utanaðkomandi aðila til að fjármagna bygginguna, þannig að það er ekki verið að taka þetta af rekstarfé spítalans. 

Matthías Ásgeirsson, 8.9.2009 kl. 09:00

4 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Matthías, hagræðingin (2 milljarðar á ári) byrjar ekki að skila sér fyrr en eftir nokkur ár þegar fyrsti áfangi er tilbúinn.

Fram að því er þetta bara fjárfesting og við höfum ekki efni á henni. Fjármagn frá lífeyrissjóðunum er ekki beint "utanaðkomandi" og því væri betur varið í að halda heilbrigðisfólki í landinu og koma í veg fyrir frekari lengingu biðraða.

Frosti Sigurjónsson, 8.9.2009 kl. 09:44

5 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Gott og vel það er nauðsynlegt að hagræða í heilbrigðiskerfinu en það ætti að skoða leiðir til þess að auka tekjurnar í stað þess að loka bara og draga saman og missa þannig fólkið. Leyfa ætti stofnunum að selja fullu verði þjónustuna til þeirra sem vilja og sérstaklega til útlendinga til þess að drýgja tekjur, nýta aðstöðu og mannauð, halda mannauð í þjálfun og vera samkeppnishæfari um starfsfólk.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 8.9.2009 kl. 10:52

6 Smámynd:

Ég er svo sannarlega sammála þér. Þessi sjúkrahúsbygging má bíða og helst ætti hún ekki að eiga sér stað. Það er nær að nota þau sjúkrahús sem fyrir eru í landinu betur en nú er gert og hlúa betur að því góða fagfólki sem er í landinu þannig að heilbrigðiskerfið virki eins og því var ætlað. Jafnt fyrir alla!!!

, 8.9.2009 kl. 11:05

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías, hagræðingin (2 milljarðar á ári) byrjar ekki að skila sér fyrr en eftir nokkur ár þegar fyrsti áfangi er tilbúinn.

Vissulega, en þetta er veruleg hagræðing þegar sá áfangi er tilbúinn og við þurfum líka að hugsa fram í tímann.  Væntanlega er hagstæðara að fara í þessar framkvæmdir í dag vegna kreppunnar heldur en í góðæri.

Fram að því er þetta bara fjárfesting og við höfum ekki efni á henni. Fjármagn frá lífeyrissjóðunum er ekki beint "utanaðkomandi" og því væri betur varið í að halda heilbrigðisfólki í landinu og koma í veg fyrir frekari lengingu biðraða.

Þetta er utanaðkomandi að því leiti að þetta kemur ekki úr ríkissjóði.  Varla leggur þú til að lífeyrissjóðir fjármagni rekstur spítalans?  Láni ríkinu fyrir því.  Á hvaða kjörum?

Mér finnst þú setja upp falska valþröng í þessu dæmi.  Kostnaður við framkvæmdir við nýjan spítala eru ekki tekninn úr rekstri hans.

Fólk verður að gera sér grein fyrir því að það er gríðarlegt óhagræði í því að reka LSH á ótal stöðum (þeir skipta tugum) eins og gert er í dag.

Það má heldur ekki gleyma því að það er kostnaður við að gera "ekkert".  T.d. vegna viðhalds húsnæðis og endurnýjunar tækja (sum tæki þarf bókstaflega að byggja hús í kringum)

Matthías Ásgeirsson, 8.9.2009 kl. 12:25

8 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Þetta er alveg rétt hjá þér.

bestu kveðjur

Anna

Anna Karlsdóttir, 8.9.2009 kl. 12:55

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst nú kannski skrítnast í þessu öllu hvað einstaklingar hafa mismunandi skoðanir á þessum spítala málum, bara eftir því hvar þeir sitja á alþingi og hver störf þeirra eru í hvert skipti.  Ekki minnist ég annars en að vinstri stjórnin hafi verið alfarið á móti þessu þegar hægri stjórn var við völd. Þetta virðist allt fara eftir geðþótta.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.9.2009 kl. 14:42

10 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Góð grein hjá þér Frosti.

Það má vissulega deila um hagræðinguna. Menn hafa nú reiknað út hinar ýmsu hagræðingar í gegnum tíðirnar og kastað fram hinum ýmsu tölum, máli sínu til stuðnings. Þær hafa nú sjaldnast staðist þessar blessuðu tölur.

Spurning: Hvað verður um tvo tóma spítala sem eftir standa? Hvað kostar að hafa þá tóma eða breyta þeim í leigu eða söluhæft ástand.

Ég hef verið mikill stuðnings maður þess að lífeyrissjóðrnir komi að uppbyggingu á húsnæði fyrir sjóðsfélaga sem lokið hafa vinnuskyldu. En sjóðirnir hafa þvertekið fyrir að koma að slíkri uppbyggingu og bera fyrir sig lög sem lítið mál er að breyta.

Gætum við breytt tómum land-eða borgarspítala í húsnæði fyrir aldraða? Nú þegar standa tómar byggingar um víðan völl t.d. í mörkinni þar sem stór minnisvarði um græðgi braskaranna stendur og áttu venjulegar íbúðir fyrir aldraða að fara á allt að 200 milljónir en standa tómar. Annar minnisvarði er Arnarneshæðin sem stendur auð. Er eitthvað vit í að redda okkur út úr kreppu með að byggja við þessar aðstæður þegar allt er yfirfullt af tómum byggingum og meira til er að tæmast?

Ég hafði gaman af því þegar Gullinbrú í grafarvogi var tekin í notkun 1+1. Hún var of lítil frá fyrsta degi. Mörg eru dæmin um vel úthugsaðar framkvæmdir ríkisins sem ég ætla ekki að telja upp.   

Ragnar Þór Ingólfsson, 8.9.2009 kl. 15:43

11 identicon

Gáfulegasta leiðin er að fara í spítalabyggingu..Allt rétt í þessu hjá Matthíasi

Þormar (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 16:38

12 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Já er ekki bara sjálfsagt mál að senda sem flesta iðnaðar- og tæknimenn úr landi nú þegar samfélagið telur sig ekki þurfa á þeim að halda?

Koma svo með gamla brandarann eftir 7 ár, "Ef þú vilt láta ljúga að þér þá hringdu í pípara og pantaðu hann í vinnu".

Þeir fáu píparar sem þá verða á landinu munu aldrei geta annað þeim verkefnum sem þá verða hér í gangi. Fínt að geta þá líka skammast út í þessa pípara.

Já, ég er sammála þér Frosti, það er miklu betra að senda sem mest af þessu liði úr landi eða borga þeim atvinnuleysisbætur frekar en láta þá vinna.

Miklu betra að borga atvinnuleysisbætur en nýta féð sem annars færi í atvinnuleysisbætur til að borga mönnum laun við að byggja jafn jafn vitlaust mannvirki eins og nýjan spítala sem mun borga sig upp á 10 til 15 árum.

Það er miklu betra að horfa á skattpeningana okkar brenna upp og verða að engu með því að borga atvinnuleysisbætur en nýta féð til að byggja mannvirki sem nýtast munu þjóðinni um ókomin ár.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 8.9.2009 kl. 19:31

13 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Fjárfestingin, sem fara á í, er rekstrarkostnaður spítalans í 18 mánuði.  Málið er því alls ekki alveg eins einfalt og sett er upp. Ef hagræðingin af nýjum spítala undir einu þaki verður 2-3 milljarðar á ári og fjármögnunin fyrir langtímasparnað lífeyrissjóðanna, sem ekki er hægt að nota í rekstur heilbrigðiskerfisins, þá þykir mér þetta vænlegur kostur m.v. ástandið nú. 

Sigurbjörn Sveinsson, 8.9.2009 kl. 20:40

14 identicon

Í aðalatriðum þá er skoðun mín sú sama og hjá Sigurbirni en hefði gaman að heyra álit þitt Frosti.

Annar vinkill: ef á að fara í framkvæmdir á vegum ríkis?

Hvað leggur þú til?

Kv. HÓ

Hörður Ólafsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 22:47

15 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Sæll Frosti

Ég held að verkefnið þurfi að skoða á sínum forsendum - nú ef það er ekki arðbært þá það en annrs er það hið besta mál.  Spítali er ekki bara steypa alls alls ekki.

Svo þurfum við að skoað að ganga í ESB líka kæri vin.

kv Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 8.9.2009 kl. 23:32

16 Smámynd: Haraldur Baldursson

Möguleikar til hagræðingar eru margir. Það þarf ekki endilega að byggja til þess. Það mætti frekar taka ýmis konar starfsemi út af sjúkrahúsunum og færa í sérhæfðar deildir í húsnæði sem ekki þarf að uppfylla kröfur sjúkrahúsa. Það má vel íhuga rekstrarform einkaresktrar, þó ekki þurfi að velta kostnaðinum á sjúklingana. Slíkt rekstrarform bíður þá líka upp á sjúklinga-túrisma.

Svo er það annað sem vert er að íhuga. Eru byggingarframkvæmdir að tryggja atvinnustig íslendinga, eða eru þau að tryggja verkefni fyrir farandsverkamenn ? Þó ég hafi ekki nokkurn skapaðan hlut á móti farandsverkamönnum, þá er ég frekar að hugsa til þess, hvort að þetta fé er að skila sér til að lækka atvinnuleysið.
Ég spyr því í algeru sakleysi eru til verkefni sem skila meiru til lækkunar atvinnuleysis en byggingarframkvæmdir ?

Haraldur Baldursson, 9.9.2009 kl. 07:59

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Svo er einn athyglisverður vinkill:  Þú óttast brotthvarf hámenntaðra heilbrigðisstarfsmanna, af því að launin eru ekki lengur samkeppnishæf við nágrannalöndin, t.d. Noreg.  En er það ekki einmitt vegna veikingar krónunnar - sem þú hefur prísað á öðrum vettvangi sem frábæran eiginleika hennar?  Og það sama gildir vitaskuld um fleiri færanlegar starfsstéttir en heilbrigðisstarfsmenn.  Veiking krónu veldur spekileka (atgervisflótta).  Það þarf að taka með í myndina.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.9.2009 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband