Krónan er eitt öflugasta tækið sem við höfum

478666AKrónan er eini kosturinn sem okkur býðst næstu árin. Það sem kemur hinsvegar mörgum á óvart er að hún er líka besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til framtíðar.

Allt þetta tal um að krónan sé ónýt eða hún eigi sér ekki framtíð er misskilningur. Það sem hefur verið í ólagi er sjálf hagstjórnin og stjórn gjaldeyrismála. Vandinn varð til þegar krónunni var fleytt í lok mars 2001. 

Hvernig getur sú mynt verið ónýt sem dugði til að koma okkur úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims? Ég leyfi mér að draga í efa að okkur hefði gengið betur að byggja upp efnahag landsins þó við hefðum búið við Dollara, Evru eða einhverja aðra heimsmynt undanfarin 40 ár.  Líklega hefði okkur gengið verr.

Meginkosturinn við að hafa eigin gjaldmiðil er hann gerir okkur kleyft að halda atvinnulífinu samkeppnishæfu við önnur ríki. Gengi krónunnar má stilla þannig að atvinna sé næg og viðskiptajöfnuður jákvæður. Ef við tökum upp erlendan gjaldmiðil mun hann sjaldnast vera rétt stilltur fyrir okkar aðstæður. Afleiðingin verður atvinnuleysi og ofþensla á víxl nema svo vel vilji til að aðstæður okkar séu einmitt eins og meðaltalið í útgáfulandi gjaldmiðilsins. Það væri fágætt. Atvinnuleysi er útbreitt vandamál í Evrópu og augljóslega miklu alvarlegra vandamál en verðbólga eða gengissveiflur.

Frá árinu 2006 fór gengi krónunnar að ganga verulega úr samhengi við efnahag landsins. Stórfellt innstreymi erlends fjármagns vegna virkjana, hávaxta og spákaupmennsku réðu ferðinni og krónan ofreis gjörsamlega.  Nú erum við að súpa seyðið af þessu mikla misræmi. Afleiðingin er gjaldþrot og stórfellt atvinnuleysi.

Ef við tökum hér upp erlenda mynt eins og Evru eða Dollar munum við ganga í gegnum slíkar sveiflur reglulega. Útlenda tökumyntin mun verða úr takti við okkar aðstæður og afleiðingarnar eru til skiptis innflutningur á vinnuafli og fólksflótti. Jafnvægi á vinnumarkaði verður fremur undantekning en regla.

Við Íslendingar höfum lifað afar góðu lífi þrátt fyrir gengissveiflur og verðbólgu. Þetta eru auðvitað vandamál en frekar smávægileg á við það atvinnuleysi sem þjóðin er að kynnast núna.

Full atvinna um áratuga skeið var að verulegu leyti sveigjanleika krónunnar að þakka.

En hvað um aðgang að erlendu fjármagni? Vilja erlendir fjárfestar koma með peninga inn í landið ef krónan er áfram? Ég man ekki betur en að við höfum haft ágætan aðgang að erlendu fjármagni gegnum tíðina. Hvernig tókst okkur annars að komast í þessar miklu skuldir?

Núna stynja atvinnurekendur allstaðar í heiminum um skort á lánsfé. Ekki kenna þeir krónunni um það. Sumir íslenskir atvinnurekendur virðast hins vegar halda að krónunni sé um að kenna. Það er auðvitað rangt.

Útlendingar eru fúsir til að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum, líka á Íslandi, ef fjárfestingartækifærið er gott. Fjárfestar þurfa að dreifa áhættu milli landa og gjaldmiðla. Það getur því verið kostur að bjóða upp á gjaldmiðil hér sem sveiflast ekki í takt við aðra miðla.

Þeir sem fjárfesta á Íslandi verða auðvitað að geta treyst því að geta ávallt fengið greiddan út sinn arð og endurheimta höfuðstól fjárfestingarinnar þegar og ef þeir vilja. Íslenska Ríkið þarf að tryggja þann rétt með skýrum og gagnsæjum reglum.

Við höfum nú lært af biturri reynslu að jafn lítil mynt og krónan má alls ekki fljóta. Hlutverk hennar verður að takmarkast við innlend viðskipti. Það þarf að verja hana gegn spákaupmennsku og óeðlilegum fjármagnshreyfingum. Með nútíma tækni má reka slíkar gjaldeyrisvarnir með þeim hætti að 98% allra erlendra viðskipta finni aldrei fyrir þeim.

Inn- og útstreymi fjármagns vegna risavaxinna framkvæmda eins og virkjana þarf auðvitað að meðhöndla sérstaklega svo gengi myntarinnar verði ekki fyrir óeðlilegum breytingum sem trufla atvinnulífið í heild.

Þeir sem gera sér vonir um lægri raunvexti af lánum ef tekin verður upp Evra ættu að líta til Grikklands þar sem vextir af lánum eru mun hærri en í Þýskalandi. Samt er Evra í Grikklandi. Hvernig má þetta vera? Jú Grikkland er skuldugra en Þýskaland og það er það sem skiptir mestu máli um vaxtastigið. Við fáum ekki vexti niður á Íslandi fyrr en við höfum greitt okkar skuldir niður að miklu leyti. Allt annað er óskhyggja.

Kostir þess að halda krónunni áfram eru í raun miklu veigameiri en ókostirnir. Það er okkur fyrir bestu að hætta að tala krónuna niður.

Krónan gefur okkur einmitt þann sveigjanleika og viðbragð sem við þurfum til að koma atvinnulífinu í fullan gang aftur og vinna okkur út úr vandanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju er atvinnuleysi augljóslega mikið verra en gengissveiflur og verðbólga?  Ég er ekki að gera lítið úr erfiðleikunum sem fylgja atvinnuleysi, en ég man líka hvað óðaverðbólga fór illa með marga þegar hún var sem verst. 
Ég er líka ósammála að vandinn hafi orðið til 2001.  Hér var mjög erfitt ástand á 9-da áratugnum, eignamyndun var engin og aðrir erfiðleikar vegna verðbólgu, endalaus verkföll þar sem kjarabætur launafólks voru teknar af þeim daginn eftir samninga með einni gengisfellingu og alls kyns önnur óáran sem tengdist handstýringu gjaldmiðils.  Satt að segja þá er eini tíminn í mínu minni þar sem efnahagslífið hérna hefur ekki verið í tómu rugli eru þau ár þar sem kostir EES byrja að koma í ljóst (94-95 eða svo) þangað til einkavinavæðingin tók yfir og áhrif þess fór að gæta uppúr 2003 eða svo.

Helga (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:11

2 identicon

1. 25% Verðbólga að jafnaði í 70 ár þýðir 3ja mán atvinnubótavinna á ári eða 17 ár af lýðveldistímanum. Þú ert ekki atvinnulaus en  þú ert að vinna fyrir "skatti" sem fer í að greiða með verðlausri krónu. Ekki meira af því takk.

2. Eina leiðin til að útiloka áhrif stórframkvæmda á krónuna er að búa til lokuð svæði eða sér viðskiptaumhverfi um framkvæmdirnar eða annað land í landinu. Hvar er nú fullveldið þá?

3. Það fjárfestir enginn í gjaldmiðli sem sveiflast ekki eins og aðrir nema að vera borgað fyrir það eins og álverin.

4. Atvinnuleysi er ekki gott en gegn því er hægt að vinna með ýmsum meðulum en verðbólga er efnahagslegur og siðferðilegur skaðvaldur sem erfitt er að hemja.

4. Auðvitað fer vaxtastigið eftir skuldastöðu en jafnvel sú staða sem við erum í núna myndi ekki kalla á 20% vexti ef við værum með Evru. Kannski 6-7%

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:37

3 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Sæl Helga,

Full atvinna þýðir að allir sem vilja og geta unnið eru að vinna og skapa verðmæti. Framleiðni þjóðarinnar er þá góð og geta til að greiða niður skuldir og skapa raunveruleg verðmæti fyrir landsmenn er með besta móti. 

Það er eflaust smekksatriði hvort atvinnuleysi sé verra en óstöðugt gengi. Kannski mætti gera skoðanakönnun um þetta mál meðal atvinnulausra?

Frosti Sigurjónsson, 24.4.2009 kl. 00:41

4 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Áhugavert viðhorf, ekki viss um að ég sé sammála en áhugavert engu síður.  Mannskepnan hefur þann þekkta ókost að hugsa töluvert meira til skammtímahagsmuna en langtímahagsmuna og hrun bankanna og gengisfallið kom flestum til að dæma blessaða krónuna okkar dauða...

Það er líka áhugavert að skoða þessa hugmynd í ljósi Lettlands sem er með sína mynt fasttengda við Evru og mikill þrýstingur í dag að hætta því og að gengisfella til að bjarga þeim frá gjaldþroti...

Fann þessa random grein á Google núna, sænskur hagfræðingur að ráðleggja Eystrasaltsríkjunum að hætta fasttengingu við Evru til að búa sig undir hrun, í október 2007...

http://stefanmikarlsson.blogspot.com/2007/10/baltic-countries-should-drop-euro-peg.html

Og önnur, IMF að ráðleggja Lettlandi að hætta fastengingu við Evru desember 2008

http://www.lankabusinessonline.com/fullstory.php?nid=1723556553

Ætli Lettland væri í annarri stöðu í dag hefðu þeir farið að þessum ráðleggingum?

Róbert Viðar Bjarnason, 24.4.2009 kl. 00:42

5 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég er þér hjartanlega sammála Frosti krónan er besta leiðin okkar.

Það sem maður upplifir sem sorglegt eru fréttir eins og RÚV bauð okkur upp á í dag (heyra hér...c.a. miðja fréttatímans). Þar var því haldið fram að Ölgerðin væri að missa af 200-300 milljóna tekjum af því að breskir bjór-heildsalar gætu ekki sætt sig við flökt krónunar. Ég er voða smeykur um að menn séu að rugla saman hlutum eða að fara með ósanngjarnan áróður.

  • krónan gerir innlendan tilkostnað sögulega lágan fyrir útflutningsfyrirtæki
  • samningar útflutningsfyrirtækja eru ekki gerðir í krónum
  • verðskráin tekur ekki mið af krónunni
  • ef ekki er hægt að selja vörur framleiddar á Íslandi með krónuna þetta lága er ekki líklegt að þessi vara sé seljanleg

Mín ályktun þarna var áróðri gegn krónunni beitt, á heimskulegan máta.

 Útflutningurinn okkar er okkar líflína, þessu betri skilyrði sem honum eru boðin, þessu líklegri erum við til að komast í gegnum þessa kreppu. Krónan er það tæki sem tryggir lágan innlendan tilkostnað. Þegar við siglum út úr kreppunni, sem við munum gera, þá mun krónan laga sig að því með því að styrkjast. Það er ekki komið að Dómsdegi enn

Haraldur Baldursson, 24.4.2009 kl. 00:48

6 identicon

Krónan er mælieinig á efnahagsstjórn ekki orsök. Að kenna henni um efnahagsörðuleika er álíka vitlaust og að kenna byssu um morð en ekki þeim sem notaði hana. En úr því sem komið er hvernig væru okkkar útfluttningsgreinar staddar í dag með evru? Svar gjaldþrota. Í sambandi við Ölgerðina, ekki gleyma hver á hana en það fyrirtæki heitir Danól og er einn stærsti innflytjandi á erlendri framleiðslu til Íslands,eðlilega eru þeir fúlir yfir gengi Krónunar.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 01:41

7 identicon

Á þetta að vera grín...?

Alltént er ekki hægt að taka svona lagað alvarlega.

Jafnvel hörðustu stuðningsmenn krónunnar hér á gróðæristímanum eru löngu búnir að komast að biturri niðurstöðu:

Minnsti fljótandi gjaldmiðill í heimi - íslenska krónan - var í besta falli áhugaverð tilraun í hagsögunni. Um þessa tilraun verða skrifaðar margar bækur og enn fleiri fræðigreinar. Þær verða allar á eina lund:

Tilraunin mistókst, með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning.

Vonandi verður tilraunin aldrei endurtekin. Krónan er löngu dauð og verður ekki vakin upp frá dauðum.

Evreka (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 01:42

8 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Frosti þetta er nákvæmlega sem ég held að með skynsamlegum ráðstöfunum þá hjálpi það okkur að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil. Aðrir gjaldmiðlar sveiflast sín á milli ótrúlega mikið,ef maður lítur til baka. Þeir sem eru í útflutningi verða alltaf að spila nokkuð á hvar hagstæðast er að selja. Atvinnuleysi er böl fyrir alla þá sem vilja vinna.

Ragnar Gunnlaugsson, 24.4.2009 kl. 03:34

9 identicon

Eftirfarandi segir á mbl.is: ,,Það myndi skila íslenskum heimilum, fyrirtækjum og íslenska ríkinu og sveitarfélögum lækkun vaxtagjalda sem nemur 228 milljörðum króna á hverju ári, ef vaxtakjör bötnuðu um þrjú prósentustig við" Verði þér svo að góðu með þessa blessuðu krónu þína.

Valsól (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 06:58

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Af Heimssýn.is:

Svíar betur settir með sænsku krónuna en evru

Útflutningsverðmæti Svía hafa aukist árlega um 30 milljarða sænskra króna (um 450 milljarða íslenskra króna) þar sem þeir hafa kosið að halda í krónuna í stað þess að skipta henni út fyrir evru að sögn aðalhagfræðings Útflutningsráðs Svíþjóðar, Mauro Gozzo. Í samtali við sænska ríkissjónvarpið í morgun sagði hann ennfremur að ef gengi krónunnar hefði verið mjög hátt, eins og gengi evrunnar hefur verið, hefði efnahagskreppan komið miklu harðar niður á Svíum og atvinnuleysi t.a.m. aukist hraðar.

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar í Svíþjóð benda til þess að 47% Svía séu nú hlynnt því að skipta sænsku krónunni út fyrir evru en 45% á móti því. Stuðningurinn nú skýrist af efnahagskreppunni sem herjar á heiminn og hefur haft slæm áhrif á sænskt efnahagslíf eins og annars staðar. Þar til nú höfðu allar skoðanakannanir í Svíþjóð sýnt mikinn meirihluta gegn upptöku evrunnar síðan Svíar afþökkuðu hana með 56% atkvæða í þjóðaratkvæði í september 2003.

Þess má geta að þegar sænsk stjórnvöld ákváðu að halda þjóðaratkvæðið höfðu niðurstöður skoðanakannana ítrekað sýnt meirihlutastuðning við evruna en eftir að andstæðar fylkingar höfðu tekist á um málið snerist það algerlega við. Afleiðing þess var m.a. sú að þáverandi forsætisráðherra Svía, Göran Persson, lýsti því yfir nokkru síðar að ekki yrði kosið um Stjórnarskrá Evrópusambandsins (sem nú kallast Lissabon-sáttmálinn).

Fram kemur í frétt hjá sænska ríkisútvarpinu í dag að aðeins einn sænskur stjórnmálaflokkur sé hlynntur því að halda nýtt þjóðaratkvæði um evruna, Frjálslyndi þjóðarflokkurinn, sem vill að það fari fram á næsta ári, en flokkurinn fékk 7,5% fylgi í þingkosningunum 2006.

Heimildir:
Miljardvinster på att stå utanför euron (Svt.se 20/04/09)
"JA till euron" (Svt.se 20/04/09)

Hjörtur J. Guðmundsson, 24.4.2009 kl. 08:08

11 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þetta er hlægilegur pistill hjá þér, til hamingju.

Krónan hefur verið okkur stöðugur fjötur um fót. 1980 var hún orðin svo ónýt að með einu pennastriki var ákveðið að styrkja gengi hennar hundraðfalt. Þegar núllin tvö voru tekin aftan af. Þá var gengi hennar nokkuð jafnt gengi dönsku krónunnar. Síðan eru liðin nær 30 ár og nú er gengi hennar orðið svo slappt að þó gengið yrði hundraðfaldað á nýjan leik þá næði það ekki gengi þeirrar dönsku! Almenningur í landinu borgar þessa vitleysu, gleymdu því ekki.

Verðtrygging er fylgifiskur þessa gjaldmiðils sem þú mærir hér svo hjákátlega. Gleymdu því ekki heldur.

Að endingu bendi ég þér á þessa grein: http://www.visir.is/article/20090422/SKODANIR03/406430076 

Heimir Eyvindarson, 24.4.2009 kl. 08:39

12 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Mér finnst þið alveg gleyma að taka tillit til þess að svona lítill gjaldmiðill veldur gríðarlegum efnahagssveiflum sem geta reynt mun meira á hagkerfið en tímabundið atvinnuleysi eða kaffært ávinningin af því að fá ódarara vinnuafl og vörur innanlands. Atvinnurekstrurinn hér á landi er einnig mjög háður birgðum erlendis frá sem ríkur  þá upp í niðursveiflu og kippir fótunum undan útflutningi þess konar fyrirtækja á augabragði. Krónan er bara hagkvæm fyrir eina grein þ.e. sjávarútveg og meira að segja hefur það minnkað mikið með tilkomu erlendra skulda á greininni. Við höfum sögulega orðið fyrir ítrekuðum miklum sveiflum sem magnast nú þegar öll landamæri eru óljósari og krónan þarf að hvílast í kirkjugarðinum. Við þurfum utanaðkomandi gjaldmiðil til þess að við höldum neyslu og rekstri miðað við tekjur.

Nei að halda í krónuna er að reyna að blása í lík sem dó fyrir 6 mánuðum. Þetta er ónýtt vörumerki.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 24.4.2009 kl. 08:40

13 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

YES!!!  Þetta er einmitt það sem ég er búinn að vera að reyna segja fólki.  Mestu hagstjórnarmistök íslanssögunnar var að taka upp flotgengi með verðbólguviðmiði.

Það sem fólk svo áttar sig ekki á er að þetta er tiltölulega ný hugmynd og var fyrst tekin upp á Nýja-Sjálandi árið 1990.

Axel Þór Kolbeinsson, 24.4.2009 kl. 08:59

14 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Úrvalsgreining á krónunni og ástæðum fyrir því að við eigum að halda henni. Kærar þakkir.

Páll Vilhjálmsson, 24.4.2009 kl. 09:07

15 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Flotgengið var vitlaus ákvörðun, en það breytir því ekki að krónan hefur verið okkur fjötur um fót í áraraðir - eins og ég bendi á hér að ofan. Það er ekki hægt að neita því, nema með blekkingum.

Heimir Eyvindarson, 24.4.2009 kl. 09:28

16 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Heimir:

Verðtrygging er ekki fylgifiskur gjaldmiðilsins heldur seinni tíma viðbót.  Það er ekkert sem segir það að verðtrygging þurfi að vera til staðar.

Verðtrygging launa og inn- og útlána var tekin upp á áttunda áratuginum, að miklu leiti vegna þrýstings ASÍ og VSÍ.

Axel Þór Kolbeinsson, 24.4.2009 kl. 09:48

17 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Á ég að trúa því að þið ætlið að halda því fram að krónan hafi fyrst farið að valda okkur erfiðleikum eftir að hún var sett á flot???

Heimir Eyvindarson, 24.4.2009 kl. 09:54

18 identicon

Krónan er hvorki góð né slæm. Krónan er verkfæri líkt og hamar eða skrúfjárn.

Vandamálið er ekki krónan heldur sú dapurlega staðreynd að við landsmenn höfum sofið á verðinum í áratugi, og hvað eftir annað kosið yfir okkur ómeðvitað, sjálfmiðað og óttaslegið fólk til að fara með stjórn landsins. 

Þeir sem við höfum kosið yfir okku undanfarna áratugi hafa fyrst og fremst beitt krónunni sem sköru til þess einfaldlega að skara eld að sinni köku, og látið blekkjast af skammtímagróðasjónarmiðum.

Krónan er verkfæri. Hún er okkar eigið verkfæri fyrir okkur. Þær hafa verið háværar raddirnar sem vilja taka í notkun verkfæri sem er sniðið að einskonar samnefnara landa með allt aðra uppbyggingu í atvinnuvegi og iðnaði en við. Við það að taka upp slíkt verkfæri eru möguleikarnir á notkun þess mun takmarkaðri í okkar umhverfi, og verkfærinu í raun stýrt erlendis frá.

Krónan er einungis verkfæri svipað og ár í árabát. Árinni kennir illur ræðari.

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 09:57

19 identicon

Heimir: Danmörk var orðin að fulliðnvæddu ríki á seinni hluta 19. aldar. Íslendingar settu fyrst mótor í trillu árið 1902 og Ísland var vanþróað land fram yfir miðja 20. öld. Það að bera saman gengisþróun dönsku krónunnar og þeirrar Íslensku frá endalokum norræna myntbandalagsins, án tillits til þess hversu gjörólíka hagsögu löndin eiga, er út í hött. 

Unnu Japanir sig ekki m.a upp með gengisfellingum  og lággengisstefnu til stuðnings útflutningi? Dytti einhverjum í hug að fara að fella dóm yfir genginu út frá þróun þess gagnvart öðrum gjaldmiðlum frá því á 3. áratugnum?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:02

20 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Margt athyglivert í þessu hjá þér. Skýringar þínar á gjaldeyrisvandanum nú eru trúverðugar. En setjum sem svo að við höldum krónunni. Hvernig eigum við þá að stýra peningamálunum? Verðbólgumarkmiðið brást. Hvaða aðrar leiðir eigum við?

Þorsteinn Siglaugsson, 24.4.2009 kl. 10:03

21 identicon

"Dóm yfir jeninu" átti það að vera.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:03

22 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Króna er, líkt og allir aðrir gjaldmiðlar, endurspeglun verðmætasköpunar þess svæðis sem notar hana sem greiðslumiðil.

Svissneski frankinn féll lítilsháttar þegar bankastofnanir þar lentu í verulegum vandræðum, líkt og annarstaðar í heimi hér.

Munurinn á Sviss og okkur, er að þar eru framleidd verðmæti og þar er STJÓRN á lántökum erlendis frá og ekki veittar ríkisábyrgðir á bruðliu einstaklinga og fyrirtækja þeirra.

Svissarar sögðu skilið við EES og tóku upp tvíhliða viðræður um VIÐSKIPTI við ESB og luku þeim með sóma.

Svissarar töldu sig OF ítið hegkerfi til að standast Fjorfrelsið.

Við hinnsvegar féllum á öllum prófum í mikilmennskubrjáælæðinu og allir eru jafnir bullinu um innflutnign erlends vinnuafls.  He´r klikkuðuð Svissarar ekki heldur.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 24.4.2009 kl. 10:16

23 Smámynd: Haraldur Baldursson

Varðandi verðtrygginguna. Það þarf ekki að afnema hana...ef viðmiðið væru sett yfir á launavísitöluna væri nefnilega unnt að vita með vissu hvaða hlutfall launa færi í húsnæðislánin. Þetta er líka hægt, með því að lífeyrissjóðum væri skylt að fjárfesta hærra hlutfall í húsnæðislánum. Þeirra inn- og útgjöld eru skrúfuð föst við launavísitöluna.

Haraldur Baldursson, 24.4.2009 kl. 10:17

24 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þorsteinn:

Mín hugmynd, og kannski tekur Frosti undir það með mér, er að hafa hér fastgengisstefnu tengda við körfu gjaldmiðla (þá sem við eigum mest viðskipti með) og leyfa +/- 10% - 15% flot frá því viðmiði.

Axel Þór Kolbeinsson, 24.4.2009 kl. 10:21

25 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Góð greining og full ástæða til að fylgja dæmi Svía og halda í krónuna. Í árferði eins og við búum við núna mun krónan duga okkur best.

Krónan er ekki gerandi í málinu, hún er gerð hér að blóraböggli til að teyma fólk til fylgis við ESB aðild. Fólk gerir sér grein fyrir að ESB aðild er ekki fýsilegur kostur fyrir okkur og því er athyglinni beint að buddunni. Þá liggur krónan vel við höggi.

Vandamálið liggur í hagstjórninni eins og sést best á því að erlendir aðila hafa engu meira traust á krónunni nú eftir að "hámenntaður hagfræðingur" hefur tekið við stjórnartaumum í seðlabankanum. 

Ragnhildur Kolka, 24.4.2009 kl. 10:22

26 identicon

Eftirfarandi segir á mbl.is: Ef við myndum fara í ESB þá  ,,myndi það skila íslenskum heimilum, fyrirtækjum og íslenska ríkinu og sveitarfélögum lækkun vaxtagjalda sem nemur 228 milljörðum króna á hverju ári, ef vaxtakjör bötnuðu um þrjú prósentustig við" Verði þér svo að góðu með þessa blessuðu krónu þína.

Valsól (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:30

27 identicon

Ég er ekki sammála rökum þínum. Í raun hefur krónan gert forsvarsmenn sjávarútvegsins ábyrgðarlausa, t.d. í sambandi við lántökur, þeir hafa alltaf haft það í bakhöndinni að gengið yrði fellt í þeirra þágu ef illa gengi. Þetta hefur svo bitnað á íslenskum almenningi með aukinni verðbólgu. Um 70 % af viðskiptum okkar Íslendinga er við lönd í Evrópu. Það kostar alveg óhemjufé árlega að þurfa alltaf að vera að skipta úr einum gjaldmiðli í annan. Ferðamenn sjá þetta í hendi sé þó að í smáum stíl sé - hvað þá stór fyrirtæki. Einföldun í viðskiptum er mjög stór kostur. Þegar tugakerfið t.d. var tekið upp í flestum löndumvar það mjög í þágu allra viðskipta. Meira að segja samræming lyklaborða er í þágu viðskipta. Sama myntin á stóru viðskiptasvæði gerir það sama. Krónan mun alltaf verða fórnarlamb gjaldeyrisspekúlanta.

i (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:32

28 identicon

Svo lengi sem ég man (það eru töluvert margir áratugir) hefur krónan verið vonlaus gjaldmiðill sem kunnáttulitlir stjórnmálamenn hafa leikið sér með og misnotað.

Heimstyrjöldin seinni og hefur því miður gagnast okkur betur en íslenskir stjórnmálamenn varðandi uppbyggingu íslenska samfélagsins.

Almenningur hefur tekið skellinn aftur og aftur og þeir efnameiri misnotað aðstöðu sína sér í hag aftur og aftur með alls konar "braski" sem þeir "venjulegu" höfðu ekki aðstöðu til. 

Verðtryggingin var sett á þegar "óhæfir" stjórnmálamenn gáfust upp í baráttu við verðbólgu.  Kunnu ekki að stjórna efnahagsmálum eins og aðrar siðaðar þjóðir gera og gátu ekki lengur leikið sér með "handónýta krónu".

Við verðum að kasta frá okkur allri "tilfinningasemi" og losa okkur við íslensku krónuna við getum allt eins notast við "Matadorseðla" eins og hana.

Kannski er bara best að notast við ærgildi eða kúgildi.  

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:39

29 identicon

Þetta er ekki góð greining á stöðu krónunnar..........

Frosti virðist líta þannig á að samkeppnishæfni batni við það að fella gengið en svo er þó alls ekki. Það eina sem gengisfellingin gerir er að lækka kaupmátt krónunnar svo útflutningsgreinar fái fleiri (ódýrari) krónur í vasann en innflutningur og þjónusta þurfi að greiða fleiri krónur fyrir sterkari (dýrari) erlendan gjaldmiðil. Atvinnustig helst þolanlegt vegna þess að útflutningsgreinar geta ráðið hluta af því fólki sem flyst úr innflutningi og þjónustu en það er auðvitað greiddar ódýrari krónur fyrir þá vinnu.

Allar rannsóknir sýna að viðvarandi samkeppnisforskoti ná þjóðir einungis með því að þar sé framleiðni vinnuafls meiri en annarsstaðar og því marki er aðeins hægt að ná með aukinni menntun, meiri rannsóknum og þróun og  tilflutningi vinnuafls frá atvinnugreinum þar sem framleiðni fjármagns er lítil (t.d. landbúnaði) yfir í atvinnugreinar þar sem framleiðnin er mikil (t.d. hátækniiðnað).

Ef kenning Frosta væri rétt þá væri Kúba á toppi listans yfir samkeppnishæfar þjóðir....gjaldmiðill þeirra hefur lengi verið verðlaus.

Frosti horfir einnig framhjá þeim kostnaði sem hlýst af krónunni og atvinnuvegirnir bera. Hann felst í hærri vöxtum og auknum viðskiptakostnaði auk áhættuálags sem stafar af sveiflum (sbr. framvirkir gjaldmiðlasamningar). 

Ástæðan fyrir því að við höfum flust úr hópi fátækustu ríkja í hóp þeirra ríkustu er sú að við höfum nær ótakmarkaðar náttúruauðlindir sem við höfum getað gengið í. Krónan hefur ekkert með það að gera....hún hefur frekar verið til trafala.

Að lokum vil ég taka undir með Frosta um ummælin um efnahagsstjórnina og peningamálastefnuna. Hún hefur verið fyrir neðan allar hellur. En krónan hefur líka hjálpað stjórnmálamönnum við það verkefni að standa sig illa. Ef við hefðum annan gjaldmiðil gætu þeir það ekki nema í eitt misseri eða svo.

Við þurfum Evru og það sem allra, allra fyrst........

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 10:42

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góð greining og segir flest sem segja þarf.  Ég held að það besta sem við gerum í bili er að endurreisa hagkerfið svo fljótt sem auðið er og uppfylla Maastricht skilyrðin fyrir inngöngu í myntbandalagið burt séð frá því hvort við göngu í ESB eða ekki.   Þetta er svona eins og að innleiða alþjóðlegan staðal án þess að biðja um vottun.  Um leið og við vinnum eftir og uppfyllum Maastricht skilyrðin, þá mun allt annað styrkjast og við munum hvorki þurfa ESB aðild né evru.  Það er ekki þar með sagt að við munum ekki vilja þetta, en þörfin eða neyðin verður ekki það sem rekur okkur inn í ESB. Við skulum hafa í huga að góðir stjórnhættir eru alltaf til bóta.

Varðandi það hvenær krónan fór af leið, þá held ég, Frosti, að það sé skekkja hjá þér upp á 3 ár.  Ef við skoðum þróun vísitalna mismunandi mynta (miðað við gengi krónunnar) frá maí 1988, þegar núverandi neysluverðsvísitala var takin upp og berum saman við  breytingu á vísitölu neysluverðs á sama tímabili, þá er fylgni milli þessara vísitalna allt þar til í maí 2003.  Þá hefst tímabil verulegs fráviks.  Svo kaldhæðið sem það nú er, þá er meðalgengið í mars "rétt" gengi.  Frá maí 2003 þar til í september 2008 var gengi krónunnar sterkara en nam verðbólguþróun!

(Forsendur útreikninga minna er að stilla gengi allra gjaldmiðla á 100 í  maí 1988.  Evran er látin fylgja gengisvísitölu aftuvirkt frá desember 1992 til maí 1998.  Síðan er "vísitala" hverrar myntar látin þróast í samræmi við breytingar á gengi viðkomandi myntar samanborið við íslensku krónuna.  Á tímabilinu frá maí 1988 er mjög sterk fylgni gengisbreytinga við breytingu á vísitölu neysluverðs en um áramót 2002/2003  rofna þessi tengsl.)

Haraldur, það skiptir ekki máli hvaða vísitala verður notuð.  Ef þú notar launavísitölu, þá munu menn nota það sem afsökun fyrir því að geta ekki hækkað laun.  Verðlag mun hækka án þess að laun hækki.  Best er að afnema allar vísitöluviðmiðanir og setja þak á vexti langtíma lána.  Þá og þá aðeins mun stöðugleiki nást.

Marinó G. Njálsson, 24.4.2009 kl. 10:50

31 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Valsól lestu innlegg mitt um sparnaðinn af 3% vaxtalækkun (sjá En hver er ávinningurinn ef vextir lækka um 3% án ESB-aðildar?).  Það er enginn vandi að skella fram svona staðhæfingu.  Málið er að hún gildir hvort heldur við eru innan eða utan ESB.  Hvert 1% í vaxtalækkun vegur um 70 milljarða.

Marinó G. Njálsson, 24.4.2009 kl. 10:53

32 identicon

Frosti minn,

Ég átti nú von á málefnalegra svari en þetta, þetta var alvöru spurning.  Ég lít ekki svo á að þetta sé spurning um smekk - þetta var hins vegar stór fullyrðing sem þú slóst fram algerlega órökstuddri.

Eiga allar ákvarðanir að vera teknar útfrá þeim sem verst verða úti vegna þeirra?  Vaxtaprósentur ákveðinar af þeim sem skulda mest,  prófspurningar samdar af þeim sem minnst kunna, gengi gjaldmiðils handstýrt af þeim sem hvað? Skuldar mest eða á mestan gjaldeyri?

Helga (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 11:18

33 identicon

Sporin hræða. Þegar krónan dugði okkur svona "vel" var genginu handstýrt. Við lifðum á útflutningi grunnhráefnis og gengum hratt á áður vannýttar auðlindir. Það var grundvöllur hagvaxtar okkar, ekki krónan.

Nú er spurningin að nýta vel þær auðlindir sem við höfum eftir, sem eru ekki óþrjótandi, og þar skiptir hvert prósent verulegu máli. Þetta er í raun ástand bestunar þeirra auðlinda og stjórntækja sem við höfum.

Þá skiptir meginmáli að vextir séu á pari við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar, að lífskjör séu eins góð og hægt er að gera þau með þeim fjármunum sem við öflum og svo framvegis.

Ef við ætlum að standa fyrir utan ESB er ljóst að við þurfum að fórna ýmsu til. Við erum nú að tala um að við getum náð stýrivöxtum niður í 4%, sem er vissulega stórt skref í rétta átt. Ekki nema átta sinnum hærri en í samanburðarlöndunum, örugglega hægt að vinna úr þeirri stöðu. Gjaldeyrishöft þyrftu að vera áfram, fjórfrelsið farið og klíkuskapurinn réði því hvaða atvinnuvegir fengju að spjara sig, þar sem gengið væri miðað við þarfir einhverra tiltekinna einkavina.

Nú, eða menn spiluðu kalt - væru til í að segja fólki í atvinnuvegum sem væru ekki að skapa gjaldeyri að ástandið væri bara þannig að það þyrfti að lágmarka umsvif þeirra atvinnuvega þar sem þeir væru ekki þjóðhagslega hagkvæmir. Að ýmis svæði á landsbyggðinni væru bara ekki á vetur setjandi.

Ég sé ekki þá stjórnmálamenn hér sem hefðu "the guts" til að spila þann kalda leik sem þyrfti að spila til að svona plan gengi upp. Menn færu alltaf út í að gera einhverjar gloríur í sínu kjördæmi, skítt með restina.

Tóti (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 11:26

34 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Raunvexti  hafa sennilega aldrei verið hærri en nú um þessar mundir 15.% stýrivextir í 0.% verðbólgu eða verð hjöðnun og ekki útlit að hún hækki þar sem fasteigna verð hlýtur að eiga eftir að lækka mikið á næstu misserum.

Ragnar Gunnlaugsson, 24.4.2009 kl. 11:42

35 identicon

Fyrir nokkrum vikum las ég þetta blogg sem ég vistaði. Því miður vistaði ég ekki nafn bloggarans en tek mér það bessaleyfi að byrta þetta.

Bloggarinn vitnar í þessa grein:

 

"We have been among the biggest pessimists about the German economy, but it appears that our own forecast for a 4-6% fall in German economic growth this year is looking a tad optimistic after yesterday’s horrendous data for industrial orders in January. The orders were down 8% with respect to the previous month, and 37.9% lower than a year before (foreign orders were down 42%), reports the FT. Apart from Japan, Germany’s economy is among the worst-affected by the slump in global demand. Dieter Wermuth, in his blog Herdentrieb, has calculated that the annualized rate of decline over the last six months is -51.4%. So if this continues until the summer – and there are no indications why it should not – this means that Germany will have lost half of manufacturing output. Industrial production – data due out Thursday – will show a similar decline. (So this means we are heading into Great Depression territory just in time for the election. Germany is well on course for a double-digit decline of peak-to-trough economic growth, unless the economy stabilise mid-year. We don’t see that happening.)Eurointelligence

German industry declines at an annualised rate of over 50%

(Hér kemur bloggarinn með staðreyndir): 

Í áratugi hafa þýskir launþegar átt að lifa og starfa eftir uppskrift stjórvalda sem hvetur til minni neyslu og aukins útflutnings. Smásöluverslun í Þýskalandi hefur ekki aukist um meira en 0,00% á síðustu 10 árum og kaupmáttur hefur ekki aukist um meira en 0,00% á þessum síðustu 10 árum Ekki pláss fyrir auknar skuldbindingar - með evrum Kanslari Þýskalands Angela Merkel hefur gert Þjóðverjum það alveg ljóst að Þýskaland mun ekki þola auknar lántökur eða fjárhagslegar skuldbindingar sem yrði varpað yfir á komandi kynslóðir því þær kynslóðir verða svo litlar að þær munu ekki geta staðið undir byrðinni. Það verður enginn til að borga skuldirnar. Þessar kynslóðabreytingar munu slá inn af fullum krafti eftir aðeins 5 ár. Ungu fólki mun fækka mikið og vinnuafl Þýskalands mun minnka varanlega Er 8-12% samdráttur í þjóðarframleiðslu Þýskalands mögulegur? - með evrum Sjálfur spái ég að þjóðarframleiðsla Þýskalands munu dragast saman um allt að 8-12% á þessu ári. Opinberar hagspár eru sífellt að versna og samdrátturinn kemur mönnum sífellt meira og meira á óvart. Fyrir aðeins þrem mánuðum hljóðuðu opinberar hagspár uppá jákvæðan hagvöxt fyrir 2009. Núna er að myndast consensus á opinberum vettvangi um 6% samdrátt. En það er einungis byrjunin

En bara ef Þjóðverjar heðu haft evrur - og hefðu verið í Evrópusambandinu.  Þá væri land þeirra ekki svona illa statt núna. Eftir 16 mánuði mun atvinnuleysi þeirra þjóta upp á sama hraða og það hefur gert í Bandaríkjunum undanfarna mánuði. FIFO og LILO. En það er bara eitt vandamál kæru vinir. Evrópusambandið er svo miklu fátækara en Bandaríkin. Það hefur því alls ekki efni á því að standa utan við Evrópusambandið eins og það gerir. En bankarnir eru ennþá opnir!

(Tilvitnun í blogg lokið)

Málið er bara að evrópuráðið funkerar ekki í fjárhagskreppu. Ég talaði við vini mína sem búa á Spáni í gær. Þar tapa (síðastliðnar vikur)12-15000 manns vinnunni á dag! Í þýsku fréttunum í gærkvöldi var talað um að 5.000.000 manns mundu tapa vinnunni á þessu ári!!! Í finnlandi er ástandið að verða jafn slæmt og það var áður en þeir tóku upp evru!!! Hvað er svona æðislegt við ESB og evruna ef ég má spyrja???? Frosti er bara að benda á það sem ætti að vera augljóst hverju mannsbarni, það skiptir ekki máli hvaða gjaldmiðill er notaður ef fólk kann ekki að fara með peninga!!!

Ég vona bara að fólk kjósi ekki Samfylkinguna og ESB. Það væri algjör óráðsía.

  Samfélags- og efnahagslegt sólarlag Evrópusambandsins - með evrum Of fáir til að geta staðið í skilum á framtíðinni? Já, það lítur út fyrir það, því ekki fæðast hér börnin. ESB virðist ekki trúa á framtíð sína eða barna sinna. Einhvernveginn virðast samfélög Evrópusambandsins sjálfkrafa fara inn ferli útrýmingar við það að ganga í Evrópusambandið. Fæðingatíðni Frakklands er ágæt á pappír vegna þess að 2/3 af öllum fæddum börnum þar eru börn innfluttra Afríkubúa. Frakkar sjálfir eignast helst ekki börn lengur. Hví skyldi það vera? Sama saga er um Bretland. Þetta gengur bara ansi vel finnst mér. Bráðum verða svo kallaðir Evrópubúar útdauðir. Einnig hefur flótti Svía úr heimalandi sinu Svíþjóð ekki verið meiri síðan Karl Oskar & Liv Ullman fluttu til Ameríku þegar landnám var þar í fullum gangi. Núna eru afkomendur þeirra efnaðir Ameríkanar - alla vega á sænskan og evrópskan mælikvarða, því ESB er alltaf að dragast meira og meira aftur úr Bandaríkjamönnum í hagsæld, ríkidæmi og atvinnusköpun. Til huggunar er hægt að bæta því við hér að ef mönnum er illa við Bandaríkin þá ættu þeir að mæla með því að Bandaríkin gangi í Evrópusambandið strax. Þannig er auðveldlega hægt að losna við Bandaríkjamenn, það tekur einungis smá tíma. En þetta kemur. Þolin mæði   

Anna Ragnhildur (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 11:49

36 identicon

Eitthvað tókst mér að klúðra færslunni hér að ofan.Allt í belg og biðu...

 Vona samt að færslan skiljist.

anna ragnhildur (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:06

37 identicon

Góð greining hjá þér, Frosti og hárrétt allt saman.  (Mikið held ég að ESB-sinnur séu vondir út í þig núna).

ESB- og Evru-æðið kemur í staðinn fyrir hlutabréfaæði Íslendinga.

Tími krónunnar mun koma (aftur).

Gjaldmiðili sérhvers ríkis endurspeglar efnahagslega framvindu viðkomandi ríkis.

Milton Friedmann spáir því að Evran og Evru-samstarfið muni hrynja von bráðar.  Hann nefndi ýmsar ástæður fyrir því, t.d. að hin nýju ESB-ríki væri svo veikburða efnahagslega og stjórnmálalega, að erfitt gæti orðið að halda Evru-samstarfinu gangandi - (er ekki einmitt sá afsláttur sem á að gefa á Maastrich-ákvæðunum einmitt merki um það?).

Einnig sagði Friedmann að lönd sem myndu lenda í verulegum efnahagslegum samdrætti, eins og t.d. Spánn, myndu hlaupast undan merkjum hvað varðar Evruna, því þau þola ekki svona langvarandi atvinnuleysi án þess að hafa nokkur efnahagslega stýritæki til að sporna við atvinnuleysinu.

Einar Þorkelsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:10

38 identicon

Saga íslensku krónunnar er hörmungarsaga. Gríðarlegar sveiflur, aðallega verðrýrnun, gagnvart öðrum myntum hefur gert atvinnulífinu erfitt fyrir um áratugi. Þessar sveiflur hafa ekki einungis verið afleiðing af kostnaðarþróun innanlands (nominal) gagnvart útlöndum heldur líka ein helsta uppspretta kostnaðarverðbólgu í keðjuverkunarferli. Ástæðan fyrir að horfið var frá fastgengisstefnu 2001 var einfaldlega sú að hún var gengin sér til húðar. Flotgengisstefnan sem tekin var upp 2001 var mjög virðingarverð en nú hefur hún beðið gjaldþrot. Í raun hafa allir stjórnmálaflokkar nema VG viðurkennt þessa staðreynd í kosningabaráttu sinni og flestir hagfræðingar sem hafa tjáð sig eru einnig sammála. Og það er hárréttur punktur sem kom fram hér að ofan að krónan hefur ekkert með þá aukningu í efnahagslegri velferð sem íslenska þjóðin hefur notið, velferðaraukningin hefur átt sér stað þrátt fyrir lélegan gjaldmiðil. 

Gallinn er sá að hefur enginn komið fram með raunhæfa og trúverðuga gjaldmiðils- og peningamálastefnu fyrir íslensku krónuna sem mun tryggja tiltölulega stöðugt gengi gagnvart helstu viðskiptamyntum, lága verðbólgu, lága vexti og þar með byggt upp trúverðugleika erlendis gagnvart íslensku krónuhagkerfi. Þessi stefna er líklega ekki til.

Frosti kemur reyndar með einu rökin fyrir áframhaldandi notkun krónu, þ.e. að íslensk fyrirtæki og heimili verði einfaldlega að þola áframhaldandi gengissveiflur, verðbólgu og háan kostnað fyrir þjóðfélagið sem fylgir því að vera með íslensku krónuna áfram sem lögeyri. Semsagt, meira af því sama og verið hefur undanfarin ár. Og krónan sem sveiflujöfnunartæki mun tryggja kjararýrnun í niðursveiflu og leggjast með ofurþunga á útflutningsfyrirtækin í uppsveiflu, og jafnframt halda áfram að breiða yfir hagstjórnarmistök stjórnvalda hverju sinni. Frosti virðist fylgjandi einhvers konar handstýringu á genginu sem tryggi það nægilega lágt gagnvart öðrum gjaldmiðlum að ávallt sé afgangur af vöruskiptum og heildarviðskiptum við aðrar þjóðir. Ef halda á "kjörstöðu" gengisins sem tryggir þessi markmið kallar það á miklar sveiflur í gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, nánast eins og flotgengisstefna. Fastgengisstefna án baklands í sterkum seðlabanka er fullreynd.  

Það er líka ákveðinn misskilningur sem hér kemur fram að gengi krónunnar muni ráðast af verðmætasköpun þjóðarinnar á hverjum tíma. Gríðarleg verðrýrnun síðstu áratugi bendir til annars. Síðan er komið inn nýr þáttur síðustu ár og misseri sem er bein stöðutaka áhættufjárfesta í krónunni sem við höfum heldur betur lent í, bæði með gríðarlega stórri stöðutöku erlendra fjárfesta í krónunni á grundvelli vaxtamunaviðskipta sem er orsök gjaldeyrishaftanna í dag og síðan stöðutöku á móti krónunni sem leiddi til mun hraðara og meira falls hennar en raunhagkerfið gaf tilefni til. Þessar stöðutökur munu bara halda áfram og fjárfestar munu ávallt finna leið framhjá hindrunum. Smæð krónunnar og viðkvæmni gagnvart tiltölulega litlum stöðutökum mun laða áhættufjárfesta að eins og mykjuskán laðar að flugur. Gengi íslensku krónunnar mun í framtíðinni ráðast að hluta af braski stórra fjármálafyrirtækja og sjóða og stjórnvöld munu ekki geta varið krónuna nema með ærnum tilkostnaði. 

Jóhannes (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:16

39 identicon

Það er alltaf talað um kostnaðinn við það að hafa krónuna.

En hefur einhver talað um kostnaðinn við það að hafa Evruna?  Geta einhverjir af hinum mörgu hagfræðingum okkar ekki reiknað út þann kostnað, bæði beina og óbeina kostnaðinn?  Varla er það bara hreinn gróði að vera með Evru sem gjaldmiðil?

Ef ég ætti að velja milli 1 og 2 hér fyrir neðan:

  1. 1-2% atvinnuleysi og 8-12% stýrivexti eins og verið hefur hér á landi í eðlilegu árferði.
  2. 1-2% stýrvexti og 8-12% atvinnuleysi eins og verið hefur að meðaltali í ESB löndunum undanfarin ár.

Þá myndi ég velja nr. 1 hér að ofan.

Athugið líka að ef við tökum upp Evru fljótlega, þá verðum við láglaunaríki innan ESB vegna þess að skiptigegni krónu yfir í evrur er mjög óhagstætt fyrir okkur.  Dæmi:

Meðallaun í ISK 350.000 á mánuði verða 2.058 EUR miðað við núverandi gengi ISK gagnvart EUR.  - (Hefði orðið 3.800 EUR á mánuði miðað við meðalgengi ISK gagnvart EUR í jan. 2008)

Athugið að meðallaun í EVRU-löndunum eru 4.000 EUR á mánuði.  Við myntskipti úr krónu yfir í EUR verða laun okkar á Íslandi hinsvegar 2.058 eins og dæmið að ofan sýnir eða um 50% LÆGRI en að meðaltali í Evru-löndunum.

Vill einhver þetta?  Ekki ég. 

Hvað viljið þið hin?

Hafsteinn G. Björnsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:25

40 identicon

Færð hafa verið gild rök fyrir að gengi íslensku krónunnar sé alltof veikt miðað við langtímajafnvægi sem væri nálægt jöfnuði á viðskiptum við útlönd. Ástæða mjög veiks gengis í dag er einkum vegna krónubréfaeignar útlendinga sem vilja ólmir út úr krónunni og veldur gríðarlegri pressu á gengið. Þessi mikli vandi er vegna íslensku krónunnar og þeirrar peningamálstefnu sem keyrð var. Þann vanda þar að leysa sem fyrst og þá er líklegt að gengi krónunnar rétti sig af. Ef gengi krónunnar yrði fest gagnvart Evru yrði það nánast örugglega á mun sterkara gengi en er í dag. Það er létt verk fyrir islenska seðlabankann í samstarfi við Evrópska seðlabankann að stilla gengið af og velja skiptigengi. Ísland yrði ekkert láglaunaland í þeim skiptum.

Eins og komið hefur fram hjá ASÍ og öðrum verkalýðsfélögum sem eru hlynnt aðild að ESB og upptöku Evru, þá skiptir sveigjanleiki vinnumarkaðar og kerfi atvinnuleysisbóta nánast öllu um atvinnuleysisstig þegar myntin er stöðug. Í stað þess að fella gengið í niðursveiflum yrði að aðlaga tilkostnað s.s. laun með launalækkunum, breytingu á vinnutíma osfr.  Þeir sem eru hræddir við þetta: Af hverju er ASÍ hlynnt inngöngu í ESB og upptöku Evru?  Lesið þeirra rök!!

Jóhannes (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:47

41 identicon

Jóhannes, ASÍ er pólitískur armur Samfylkingarinnar sem vill ganga í ESB.  ASÍ er því í rauninni einungis verkfæri Samfylkingarinnar til að ná þessum pólitísku markmiðum.

ASÍ hefur ekki sagt allar staðreyndir varðandi ESB-inngöngu og upptökur Evru.  T.d. það að í stað krónu verður vinnumarkaðurinn efnahagslegt sveiflujöfnunartæki ef við göngum í ESB.  Þetta þýðir að hægt verður að segja upp fólki þegar illa árar í efnahagslífinu.  Þetta er ein af ástæðum þess að það er viðvarandi atvinnuleysi innan ESB-ríkjanna.

Björn H. Hannesson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 13:02

42 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Þakka ykkur öllum fyrir góðar athugasemdir. Þetta er greinilega þörf umræða. Reyni að svara þeim fjölmörgu spurningum sem fram hafa komið síðar í dag.

Frosti Sigurjónsson, 24.4.2009 kl. 13:19

43 identicon

Björn

Vinnumarkaðurinn er í dag sveiflujöfnunartæki gagnvart sveiflum í efnahagslífinu í dag. Það er rétt að þrýstingur á uppsagnir er minni þegar hægt er lækka ráðstöfunartekjur, að teknu tilliti til hækkunar verðtryggðra lána, um tugi prósenta með gengisfellingum. Stöðug mynt eins og Evra eða Dollar mun einfaldlega kalla á miklu meiri aga í hagstjórn þar sem sveiflujöfnunin yrði knúin í gegnum fjármál hins opinbera í stórauknum mæli og aga í rekstri fyrirtækja til aðlögunar að sveiflum. Það verður erfitt að halda sama atvinnustigi og verið hefur á Íslandi sem var keyrt áfram í ofurþenslu á ódýru lánsfjármagni. En þaðer ólíklegt að atvinnuleysi verði eitthvað nálægt því sem er í Evrópu þar sem vinnumarkaðurinn er mjög ósveigjanlegur og baráttuglöð stéttarfélög og verkalýðsforysta hefur lítinn skilning á aðlögun launakostnaðar að sveiflum í efnahagslífinu.

Jóhannes (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 13:24

44 identicon

Það er reginvilla að ætla að vegna þess að þú ert með tryggan gjalmiðil og lága vexti að þá eigir þú að vera með atvinnuleysi líka. Þvílíkt bull!!!!

Viðvarandi atvinnuleysi í vissum ríkjum ESB tengist skipulagi vinnumarkaðar og mikils réttar vinnandi fólks, þessi réttur er fengin á kostnað þeirra sem eru án atvinnu. Þar sem réttindi vinnuveitanda að segja upp fólki er mjög takmarkaður þá veldur það því að hver starfsmaður er mjög dýr fyrirtækjum og þau ráða bara ef brýnustu þörf krefur. Þetta skipulag veldur viðvarandi atvinnuleysi í þeim löndum þ.s. verkalýðsfélög eru sterkari en þeim er fyrir góðu. 

Þetta skipulag er ekki að finna í Hollandi, Danmörku og hér þ.s. við búum við "flexicurity" sem merkir að nokkuð auðvelt er að ráða fólk og segja upp. Þar af leiðandi starfsfólk er fyrirtækjum ekki alltof dýrt, þetta kerfi borgum við samt sem áður fyrir með hærri sköttum.

Stöðugleiki er mikilvægur til framtíðar og agaleysið verður að stöðva. Burt með krónuna, já við ESB og evru þegar við höfum lagað til hjá okkur. 

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 13:27

45 identicon

Sæll Frosti.

Ég ætla ekki að þykjast vita nokkurn skapaðan hlut um efnahagsmál.  Ég er ekki hagfræðingur.  En það er síðan önnur spurning hvort hagfræðingar viti í raun eitthvað um efnahagsmál.  Þegar ég las greinina þína og athugasemdirnar við henni fannst mér dálítið skrýtinn hlutur standa uppúr, tilfinningar.  Ég held að tilfinningar séu ekkert voðalega hjálplegar þegar verið er að ræða efnahagsmál. Ég hefði haldið að það sem skiptir mestu mál sé, hvernig fólkinu í landinu vegnar, en ekki hvað gjaldmiðillin heitir.  Mér finnst vera dálítið mikil þjóðrembulykt af þessari umræðu.

þú segir að krónan sé í fína lagi, vandamálið sé hagstjórnin.  Ókei, ég skal alveg kaupa það óniðurskorið.  En ef maður lítur yfir fólkið sem situr á alþingi íslendinga þá kemst maður varla hjá því að fyllast efasemdum um framtíðahagstjórn landsins.  Margir þarna eru nú ekki beint beittustu hnífarnir í skúffunni þegar kemur að hagstjórnarmálum.  Er ekki vandamálið stjórnkerfið sjálft?  Flestir þeir sem fara með einhver völd innan stjórnkerfisins eru pólitískt skipaðir, dómarar eru pólitískt skipaðir og ráðuneytisstjórar og seðlabankastjórar.  Ráðherrar eru þingmenn og formenn þingflokka.  Ráðherrar sitja á alþingi og hafa áhrif á umræður alþingis, stjórna jafnvel dagskrá alþingis.  Hvar er þrískipting valdsins?  Er ekki vandamálið að hagstjórn á Íslandi hefur alltaf verið ábótavant, vegna þeirrar gríðarlegu spillingar sem á sér stað í íslensku stjórnkerfi.  Allir eru að gæta einhverra annarlegra hagsmuna í staðinn fyrir að vinna að hag Íslensku þjóðarinnar í heild.  Þegar maður hlustar á þessa blessuðu stjórnmálamenn tala þá virðist svo vera að hagsmunir flokksins þeirra gangi alltaf fyrir hagsmunum þjóðarinnar.  Svona hefur þetta alltaf verið í Íslenskum stjórnmálum.  Og ég get ekki séð neina breytingu framundan.  En hvað veit ég.  Afsakaðu þetta rant hjá mér, maður er bara dálítið frústreraður þessa dagana.

kær kveðja.

Hörður Tómasson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 13:37

46 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

Ég er á því að krónan sé sá gjaldmiðill sem henti Íslandi best.

Hins vegar þá þarf að tryggja það að hún sé stöðug. Óstöðugur gjaldmiðill er bæði slæmur fyrir inn og útflutningsfyrirtæki. Þó eru til ýmsar aðferðir til að tryggja sig gegn gengissveiflum við þann gjaldmiðil sem verslað er við. Þó er besta leiðin til að hafa sveiflurnar sem minnstar að vera með fjölbreytt atvinnulíf. Hættan hjá okkur hefur helst skapast vegna þess að við höfum alltaf valið það að veðja á eitthvað eitt. Í gegnum tíðina, allt frá því fyrir aldamótin 1900, höfum við búið við miklar hagsveiflur en því hefur helst verið um að kenna að við höfum verið upptekin af því að eitthvað eitt eigi að bjarga okkur. Útflutningur á sauðfé, rjóma, ull, fiskútflutningur, álframleiðsla, ferðamennska og peningar! Vera helst bara með eina "stóra" atvinnugrein í einu og skítt með restina. Þetta hefur auðvitað það í för með sér að við verðum svo viðkvæm fyrir sveiflum. Ef við nú í staðinn reynum að gera allt þetta í einu þá mun það gera gjaldmiðilinn okkar stöðugri. Ég segi því að við eigum að leggja ofuráherslu á .... fjölbreytni. Vöruþróun og nýsköpun eru leiðin okkar út úr kreppunni og það sem passar að við lendum ekki í þeirri næstu. Fyllum t.a.m. ekki körfuna af ál-eggjum sem munu sveifla gjaldmiðlinum eftir álverði.

Gunnar Þór Gunnarsson, 24.4.2009 kl. 14:06

47 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Frábærar umræður.

Hér hafa komið fram margar fullyrðingar um það að verðbólga fylgi krónunni. Það er rangt verðbólga fylgir óvönduðum útlánum og peningaprentun,

Veðbólga er manna verk ekki krónunnar.

Verðtrygging er ekki nauðsynleg á Íslandi og er alls ekki háð krónunni. Það er rangt.

Það er búið að troða þessari vitleisu inn á þjóðina.

Verðtrygging er sett á af því að Íslendingar skilja ekki samhengið á milli útlána og verðbólgu og halda að þeir geti varið sig gegn slæmum útlánum með verðtryggingu.

Grundvallar skekkja í hagfræðihugsun sem hefur skaðað hagkerfið gríðarlega.

Það er enginn gjaldmiðill sveiflulaus. Og menn geta ekki ætlast til þess að krónan standi stöðug sem gull ef hún hefur enga kjölfestu. En það er hægt að laga smátt og smátt.

Og krónubréf og jöklabréf eru skemmdarverk.

Gjaldmiðlastefna var eiðilögð með jöklabréfum. Það hefur áhrif á flotgengisstefnuna og skemmir hana.

Það ætti að vera sveiflusjóður í Seðlabanka.

Og Seðlabankinn á að safna gulli.

Gullkrónan verður komin á markað innan hálfs árs.

Það verður viðbót við krónuumhverfið og annað sparnaðarform.

25% af öllum sjóðum verður í framtíðinni gull. Ef ráðamenn verða ekki of nýskir. Í kjölfestuna.

Þessi þróun til söfnunnar tekur nokkur ár jafnvel áratug.

Bless ESB og bless Evra.

Þá segir einhver þetta kostar of mikið. ég segi lítum á þetta sem viðskiptahjálp við Suður Afríku gerum viðskiptasamninga við Afríku.

Okkur vantar að selja fisk ,, okkur vantar nýja markaði. Notum fiskinn til að treysta umhverfi krónunnar.

Og nú segir einhver. Gull er gamaldags. Og ekki til nóg af því.

Hvað eru kínverjar að gera hvað, kaupa gull, fjárfesta í auðlindum.

Við eigum að virða auðlindir afríku og vinnu alveg eins og aðrar þjóðir.

Vilhjálmur Árnason, 24.4.2009 kl. 14:33

48 Smámynd: Sigmar Þormar

... og tal einstakra Samfylkingarmanna um að krónan sé handónýt er mjög ábyrgðarlaust.

Góður pistill takk.

Sigmar Þormar, 24.4.2009 kl. 17:53

49 identicon

Það er eitt sem fáir virðast sjá ástæðu til að ræða. Talað er um að bankarnir séu að taka húsnæði og bíla af stórskuldugum fjölskildum. En hver á bankana??? Ríkið á bankana! Þannig að það eru stjórnvöldin sem eru að rústa lífi almennings. Hvar er skjaldborgin??? Framsóknaflokkurinn er búinn að stjórná 40 daga ríkisstjórninni í heljargreip á bak við tjöldin og Samfilkingin er áhrifagjörn og á algjörum villigötum.

Ég veit sveimérþá ekki hvað ég á að kjósa. En ESB er EKKI lausnin.

Takk Frosti. Sammála þér!

anna (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 19:04

50 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Góð grein Frosti og ljóst að þú sérð alla myndina. tak fyrir þetta.

Mér finnst samt vanta eitt atriði í greininguna sem er gjaldmiðilsútgáfan sjálf. En hún skiptir verulega máli fyrir allar þjóðir sem hafa hug á að fjölga sér og vera með viðvarandi hagvöxt. Ég seti saman stubb um það fyrir nokkru síðan hér.

Til hvers er gjaldmiðill í nútíma hakerfi

má segja að ef útgefin gjaldmiðill í hagkerfinu er 100 einingar  (bæði peningar og verðbréf hverskonar) þá er þjóðarauðurinn 100 . Ef fólkinu fjölgar um helming má gera ráð fyrir að hagkerfið stækki um að minnstakosti sem því nemur, það þýðir að til að gjaldmiðillinn verði ekki tvöfalt verðmeiri þarf að gefa út 100 einingar í víðbót. Þetta er einfalt með eigin gjaldmiðli, einfaldlega  prenta fleiri seðla og gefa út skuldaviðurkenningar sem því nemur enda eru traust veð fólgin í manauðnum.

Guðmundur Jónsson, 26.4.2009 kl. 22:49

51 identicon

Reynslan hefur nú kennt okkur að það að halda úti svo litlum gjaldmiðli í opnu markaðsumhverfi eins og EES samningurinn kveður á um gengur ekki upp. Bankar og braskarar geta auðveldlega sveiflað gengi krónunar upp og niður og valdið gríðarlegum skaða.  Bankarnir notuðu okurvaxtakrónuumhverfið til að vaxa á hraða sem þeir hefðu ekki geta gert hefðum við verið komnir inn í evruna.

Gríðarlegur tími og kostnaður fer fram í meirihluta fyrirtækja (og all margra heimila) á Íslandi í alls kyns ráðstafanir vegna gjaldeyrismála.

Valkostirnir eru því í raun aðeins tveir,  krónu hagkerfi með gjaldeyrishöftum sem þýðir uppsögn EES samningsins eða upptaka Evru með aðild að ESB.  Í mínum huga er seinni valkosturinn líklegri til að tryggja betri afkomu til framtíðar.

Varðandi vaxtastigið þá er það rétt að það er ekki alls staðar jafnt á evru svæðinu en það er samt ævintýralega lægra en hér.  Skuldatryggingaálag 5 ára skuldabréfa er ca 8,5% núna fyrir Ísland (var 15% ekki alls fyrir löngu). Sama álag fyrir Grikkland er um 1,8% og 2,2% fyrir Írland.  Þessi gríðarlegi vaxtamunur kostar þjóðfélagið á annað hundruði milljarða króna á ári hið minnsta.

Ég verð að segja það að ég varð fyrir smá sjokki að lesa þennan pistill frá manni sem á að vera með þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu.

Pétur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 11:56

52 identicon

Smá komment um ummæli Sigmars:" og tal einstakra Samfylkingarmanna um að krónan sé handónýt er mjög ábyrgðarlaust."  Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið með þá stefnu fyrir þessar kosningar en að taka skuli upp Evru, ef þetta er ekki yfirlýsing um að krónan henti okkur ekki þá veit ég ekki hvað.  

Það eru aðeins VG sem hefur talað einarðlega fyrir því að halda krónunni (eftir að hafa gælt við norsku krónuna) enda er VG á móti frjálsum viðskiptum og EES samningnum sem við yrðum að gefa upp á bátinn ef við viljum halda krónunni.

Pétur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:03

53 identicon

málid er thad ad upptaka evru verdur ekki framkvaemanleg fyrr en eftir a.m.k. 5 til 7 ár og bara ad ganga i ESB tekur 1 til 3 ár, thannig ad vid erum med krónuna a.m.k. naestu 5 árin. Svo er EES samningurinn bara búinn ad hjálpa atvinnurekendum sem mökudu krókinn med thví halda kostnadi sínum nidri med Pólverjum en almenningur hefur ekkert haft upp úr thessu. Thetta er vel haegt ad reka krónuna en thá tharf hagstjórnin ad vera almennileg. Hún hefur verid í molum, og thá er ekki skrítid ad krónan falli vid thad, tökum fyrst til heima ádur en vid tökum upp á ný aevintýri í efnahagsmálum, thetta var vel rekid hagkerfi ádur en útrásin fór af stad, svo má setja Thjódhagsstofnun upp aftur, mistök ad leggja hana nidur, kvedja jón

jón (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 16:47

54 identicon

Rakst á þessa grein og fannst hún bara þokkalega fyndin aflestrar og ekki síðri athugasemdirnar margar.

Ein fyndnin er þessi:

Hvernig getur sú mynt verið ónýt sem dugði til að koma okkur úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims?

Jú hvernig má það nú vera,.

Eitt svar af mörgum er breyttur heimur. Þegar við Frosti vorum tvítugir tók nokkra daga að flytja fjármagn milli landa, Núna tekur það nokkrar sekundur og fáeinir þokkalega öflugir gjaldeyrisbraskarar fella svona örmynt á augabragði kjósi þeir svo og ef ekki eru gjaldeyrishöft. Heldur þú virkilega að íslenska krónan verði ein þeirra mynta sem eftir verða þegar heimsmyntirnar verða orðnar í kringum 6 talsins?

Hvaða kjaftæði er þetta að mynt sé verkfæri? Voðalegir spekingar eru þið! Mynt er ávísun á verðmæti og fyrir ekki löngu síðan voru þær allar á gullfót. Eftir aflagningu gullfóts veltur ALLT á trúverðugleika því þú getur brunnið inni í mynt ef illa fer sbr. eigendur jöklbréfa þessa dagana.

Krónan er dauð sem gjaldeyrir þó hún verði notuð sem innanlandsávísun þar til við annar gjaldmiðill tekur við.

kristgeir (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband