Icesave III undirskriftasöfnun og hvað má af henni læra

Þann 3. febrúar lauk annari umræðu um Icesave III lögin með atkvæðagreiðslu. Slæmu fréttirnar voru þær að níu af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins kusu með lögunum. Ríkisstjórnin beið ekki boðanna, þriðja umræða var sett á dagskrá eins fljótt og auðið var og lögin voru endanlega samþykkt af Alþingi 16. febrúar. Reyndar kom einnig tillaga fram um að setja lögin í þjóðaratkvæði, en hún var naumlega felld.
 
Þann 3. febrúar var andstæðingum Icesave III samninganna orðið ljóst að eina úrræðið í stöðunni var að skora á forsetann að vísa lögunum til þjóðarinnar. Allir biðu eftir því að InDefence hópurinn, sem hafði safnað undirskriftum gegn Icesave II, tæki af skarið við söfnun undirskrifta. En dagarnir liðu hver af öðrum og ekkert bólaði á InDefence.
 
En þá kom fram á sjónarsviðið nýr hópur, Samstaða Þjóðar gegn Icesave, og þann 11. febrúar var söfnun undirskrifta á vefsíðunni www.kjosum.is komin í fullan gang.
 
Ríkisstjórnin flýtti þriðju umræðu málsins og það var tekið úr nefnd án þess að ráðrúm fengist til að verða við óskum þingsins um að nánar yrði kannað hvaða fælist í svokallaðri dómstólaleið.
 
Þann 16. febrúar voru lögin borin undir atkvæði og samþykkt. Sama dag voru lögin komin til Forsetans. Allt var þetta gert með hraði til að minnka svigrúm til að safna undirskriftum gegn lögunum.
 
Forsetinn boðaði fulltrúa Kjósum.is til fundar við sig á Bessastöðum strax að morgni 18. febrúar. Þá höfðu safnast rúmlega 37 þúsund undirskriftir á aðeins einni viku. Forsetinn tók við undirskriftunum og fékk kynningu á því hvernig þeim hafði verið safnað.
 
Forsetinn kannaði áreiðanleika undirskriftanna og tilkynnti svo ákvörðun sína á blaðamannafundi sunnudaginn 20. febrúar. Þjóðin myndi kjósa um Icesave III.
 
Hvað má læra af þessu og hverju þarf að breyta?
 
1. Ákveðum með lögum fresti til undirskriftasöfnunar
Ríkisstjórnin vildi greinilega ekki að lögin færu í þjóðaratkvæði og því var henni í óhag að gefa langan tíma til söfnunar undirskrifta. Hún skar frestinn niður í 7 daga. Í Sviss taka engin lög gildi fyrr en að 100 dagar hafa liðið frá samþykkt í þinginu. Sá frestur er einmitt hugsaður til þess að kjósendur hafi ráðrúm til að bregðast við lögunum og sanngjarnan frest til að safna undirskriftum gegn þeim. Það virðist full ástæða til að takmarka vald íslenskra stjórnvalda að þessu leiti. Ég legg til að lög taki ekki gildi fyrr en að 30 dögum liðnum frá samþykkt Alþingis. Þessa reglu getur þingið sett sér strax, en síðar mætti binda hana í stjórnarskrá.
 
2. Setjum reglur um framkvæmd undirskriftasöfnunar
Engar reglur eru til um framkvæmd undirkriftasöfnunar. Þetta er óheppilegt og til þess fallið að rýra trúverðugleika slíkra safnana. Aðstandendur kjósum.is þurftu sjálfir að setja reglur um söfnunina og þótt það hafi tekist ágætlega þá má alltaf deila um útfærslur. Andstæðingar átaksins gagnrýndu útfærsluna og leituðust við að grafa þanbug undan trúverðugleika átaksins. Eðlilegt væri að Alþingi setti reglur um þetta.
 
3. Höfum eitt kerfi til að safna undirskriftum
Aðstandendur þurftu sjálfir að útvega allan búnað og leggja í ómælda vinnu við hönnun og þróun kerfis svo fólk gæti skrifað undir áskorun á kjósum.is. Fyrst áskoranir af þessu tagi eru komnar til að vera, þá er það eðlilegt hlutverk hins opinbera að útvega slíkt kerfi. Það er algerlega ástæðulaust að leggja slíkt erfiði á þá sem vilja standa að áskorun að smíða ný og ný kerfi. Auk þess er traustara að notast við kerfi sem hefur verið margreynt og þaulprófað.
 
4. Aðstaða og ráðgjöf fyrir baráttuhópa
Kjósum.is fékk engan stuðning frá hinu opinbera. Færa má gild rök fyrir því að þeir sjálfboðaliðar sem standa að slíku átaki, ættu í það minnsta að fá einhverja lágmarksaðstöðu, leiðbeiningar og jafnvel hóflega fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum til að standa straum af útlögðum kostnaði. Hafa má í huga að sjálfboðaliðar þurfa að takast á við ríkisstjórn sem hefur fjölda manns í vinnu til að halda sínum málstað á lofti. Þessi aðstöðumunur verður aldrei jafnaður, en samt er til bóta að setja reglur um einhvern lágmarksstuðning.
 
5. Ákveðum hvað þarf margar undirskriftir, það er ekki eftir neinu að bíða
Það eru engar reglur um það hve margar undirskriftir þurfi til að Forseti vísi lögum til þjóðaratkvæðis. Ef Forsetinn vill, þá er honum alveg frjálst að setja sér t.d. þá vinnureglu: að ef 15% atkvæðabærra manna skora á hann að vísa máli til þjóðaratkvæðis, þá verði hann ávallt við því. Alþingi gæti sömuleiðis sett sér sambærilega reglu hvenær sem er. En að lokum væri auðvitað traustast að slík regla væri fastsett í stjórnarskrá Íslands.
 
6. RÚV þarf að gæta betur að hlutleysi sínu
Afstaða fjölmiðla getur ráðið miklu um hvort takist að safna nægilega mörgum undirskriftum á tilsettum tíma. Ríkisfjölmiðillinn RÚV er einn öflugasti fjölmiðill landsins og sá sem þjóðin treystir einna best, ef marka má skoðanakannanir.Samkvæmt lögum er RÚV ætlað að gæta fyllsta hlutleysis. Draga má í efa að það hafi tekist hvað átak kjósum.is varðar. RÚV fjallaði sáralítið um átakið, miðað við aðrar sambærilegar safnanir, viðkvæðið var að “allir væru orðnir leiðir á fréttum af Icesave”.Þó brá svo við að þegar bloggari spratt fram og ásakaði kjosum.is hópinn um svindl þá var honum boðið í Kastljósið svo hann gæti látið illa ígrundaðar ásakanir sínar dynja á talsmanni Kjósum.is - í beinni. Ekki reyndust þessar ásakanir á rökum reistar og landsmenn voru því engu nær um neitt sem máli skipti. En hvers vegna fjallaði Kastljósið aldrei um tilvist þessa mikilvæga átaks eða efnisrökin með og móti því?
 
Látum þetta duga um söfnun undirskrifta. Í næsta pistli mun ég fara yfir kosningabaráttuna sjálfa. Baráttan hófst sama dag og forsetinn tilkynnti að Icesave III lögin færu í þjóðaratkvæðagreiðslu - og af henni má ýmislegt læra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Mjög góð stöðuskýrsla hjá þér Frosti. Vonandi verður hægt að koma þessu í framkvæmd sem allra fyrst svo að allt verði til staðar fyrir næsta þjóðarátak í lýðræði.

Jón Baldur Lorange, 19.4.2011 kl. 20:29

2 Smámynd: TómasHa

Ég vorkenni ykkur nú ekki að setja staðla varðandi undirskrifstarsöfnunina, mér finnst amk. fulllangt gengið að alþingi setji upp eða láti búa til slíkt kerfi. kjósum.is fór full geyst af stað, en síðar var ýmsum góðum viðbótum bætt við. Það er til marks um hversu umdeilt mál, að þetta er mesta umræða sem hefur verið um nokkra undirskriftarsöfnun og mun meiri en til dæmis um björk og svo núna um fjölmiðlafrumvarpið.

Ég var að minnsta kosti við mjög íþyngjandi reglum, t.d. með double opt in klausu, þar sem fólk þarf að staðfesta skráningu eftir að hafa skráð sig.

Varðandi kerfin þá hafa þau auðvitað töluvert að segja hversu vel útfærð þau eru, ég veit ekki nein dæmi þess t.d. að notkun á http://www.petitiononline.com hafi skilað árangri.

Væntanlega er jafnframt aðal-lærdómurinn ekki krafa á aðra, heldur krafa á þá sem framkvæma slíkar undirkskriftarsafnanir. Útfærlsa kerfanna. Menn þurfa t.d. að ræða hvernig á að staðfesta að aðili hafi skráð sig á listann, því náðuð þið aldrei að útfæra og rökin af hverju þið svöurðuð fólki voru mjög veik. Það hefði verið leikur einn að koma í veg fyrir að fólk kannaði ekki fjölda af kennitölum, svona alveg fyrir utan að skráning á undirkskriftarlista eru ekki leynilegar eins og kosningar.

TómasHa, 19.4.2011 kl. 23:09

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góður pistill, sem ég er fullkomlega sammála. Tapsárir æsseifsinnar vilja aftur á móti draga þann "lærdóm" af þessu að breyta þurfi stjórnarskránni til að ekki verði kosið aftur um fjárskuldbindingar ríkisins, þetta hefur margsinnis komið fram t.d. hjá Steingrími. Eins og nýja stjórnlagaráðið er skipað er víst að hugmyndir Steingríms og Jóhönnu eiga mikið fylgi þar, því miður.

Sigurður Þórðarson, 20.4.2011 kl. 05:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband